Húsameistari Kópavogs, ekki meir!

Það eru góðar hliðar á öllum vondum málum. Til dæmis eru nú allar líkur á að ekkert verði úr byggingu mikillar óperuhallar á Borgunum í Kópavogi en sú hugmynd kemur úr smiðju bæjarstjórans hér sem aldrei má sjá grænan blett sem hann vill ekki byggja á. Og byggja stórt og mikið með mörgum gröfum og krönum og steypubílum og hvað þetta allt heitir.

Borgirnar, þar sem Kópavogskirkja stendur, eru náttúruvætti. Fyrr á tímum, þegar framsýnt fólk stjórnaði bænum, þá tók það þennan stað frá fyrir kirkju og ætlaðist ekki til að þar yrði meira byggt. Svo kom Gerðarsafn og Tónlistarhúsið (með Salnum) ofan á brúna yfir Hafnarfjarðarveginn og þá var þetta orðið ágætt. Hvort tveggja falleg hús og falla ágætlega í umhverfið - en nóg komið, engu að síður. 

Verðlaunatillagan um óperuhúsið er að vísu glæsileg - en það væri allt að því glæpsamlegt að setja þá byggingu þarna niður. Það er nóg pláss í Kópavoginum (að vísu aðeins austanverðum) undir svona monthús (þótt það yrði fallegt á öðrum stað).

Svo fýkur bæjarstjórinn í næstu kosningum (nóg er af vafasömum stjórnunarháttum hans sem sjá munu til þess!) og þá kemur kannski aftur framsýnt fólk til starfa í bæjarstjórninni.

Verst að það fær sjálfsagt aldrei tækifæri til að líta upp úr skuldasúpunni sem byggingaglaði bæjarstjórinn skilur eftir sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar það eru oftast tvær hliðar á hverju máli. Bjó hér í Kópavogi á árum áður, og flutti svo í bæinn aftur. Afar margt hefur vel tekist til. Kópavogur var sagður félagsmálabær, en allar verklægar framkvæmdir voru hér langt á eftir. Á valdatíma þessa meirihluta hefur Kópavogur tekið forystu, nánast á öllum sviðum.

Þú gefur umsögnina:,, .. og þá kemur kanski aftur framsýnt fólk til starfa í bæjarstjórninni".

Þegar ég flutti aftur í Kópavoginn, tók ég eftir að oddviti minnihlutans skrifaði eina til tvær greinar í fjölmiðla í viku hverri. Um vondan meirihluta og sérstaklega um vondan bæjarstjóra.  Ávirðingarnar voru mjög misalvarlegar. Svo fór að skrifað var um mál sem ég þekkti mjög vel til, og var rangt með farið. Bæjarstjórinn svaraði en það hafði engin áhrif. Haldið var áfram með gagnrýni á það mál í rúma tvo mánuði, og fjölmiðlar tóku undir. Þegar svona  málum fjölgaði gerði ég mér grein fyrir að minnihlutinn í Kópavogi ástundaði pólitík sem heldur sveitarstjórnum í stöðugu stríðsástandi.

Svo kom Kársnesið. Ég fór á kynningarfund hjá Betri byggð og hafði ýmislegt við skipulagið að athuga. Áhersla á höfn og starfsemi tengdri henni. Ég var kominn í mótmælendaliðið. Skipulagstjóri Kópavogs kom aftur til starfa og fram komu nýjar og mjög spennandi tillögur. Ég var boðaður á mótmælendafund, nú skildi berja á ,,andskotanum" Fékk upplýsingar um að frá bæjarfulltrúa minnihlutans að umferðarmang yrði langt umfram alþjóðleg viðmið. Mengun yrði umfram leyfileg mörk. Allar fullyrðingar voru rangar. Þetta átti ekki að vera málefnaleg gagnrýni og vinna, heldur stríð. Auðvitað spiluðu fjölmiðlarnir með.

Einn vinur minn úr fjölmiðlastétt sagði við mig. ,, Kópavogur er auðvitað í fremstu röð sveitarfélaga, en bæjarstjórinn passar illa inn í menningu okkar fjölmiðamanna. Eins og einn jakkafataklæddur kæmi í samkvæmi hjá okkur hippunum.

Sigurður Þorsteinsson, 20.4.2009 kl. 07:20

2 identicon

þetta er nú allt gott og blessað með hann nafna minn sem er hress tappi. En það vill svo til að stóran hluta af bryggjuhverfinu var nú einfaldlega búið að kaupa upp á toppverði, jafnvel hálfónitar eignir fyrir nokkrum árum síðan af fjárfestum.

Síðan stendur Gunnar I. í viðskiptum við þessa menn og er búin að skuldbinda sig í bak og fyrir með málið.

Þá tekur við ein sú undarlegasta afgreiðsla í Íslenskum skipulagsmálum sem sögur fara af.

Ég bý í Kópavogi á Kársnesinu og væri það skipulagsslys að veita aukinni umferð hér í gegn, hér eru 2 grunnskólar sitt hvoru megin við Borgarholtsbrautina og hámarkshraðatakmarkannir í samræmi við það. Þá eru það ekki fjölmiðlar sem stjórna þessu viðhorfi mínu heldur einfaldlega það að ég hef ekki áhuga á að fá 50 trailera framhjá húsinu mínu á hverjum degi.

Útivistarsvæði fyrir utan leikskólann Urðarhól gat nafni minn ekki séð í friði þótt þarna væri lítill skógur og lundur sem hefð var fyrir að notaður væri til þess að fara með börnin í skógarferðir. Nei þá þurfti að selja þetta undir 1 - 2 einbýlishús.

Hvernig fer nú með söluna á þessum lóðum, þetta er nú ekki neitt meistaraverk í viðskiptum enda gerði lausafjárþurrðin heilmikið boð á undan sér. Að láta sér detta í hug að fara í slíkar stórkostlegar skipulagsbreytingar var illa ráðið og er nú Kópavogsbær illa staddur í skuldum.

Mikið skortir hér upp á eðlilega stjórnsýslu og væri það efni í annan póst. 

Varðandi væntanlegt óperuhús þá var ég hrifin af þeirri áætlan en ekki staðsetningunni. Það vill svo til að reiturinn sem áætlaður var fyrir húsið ætti að fá að vera í friði af ýmsum ástæðum. Hann er karaktereinkenni bæjarins og einnig er þetta álfabyggð. 

sandkassi (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 09:54

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Gunnar ég fór í ferð með um Reykjavíkursvæðið þ.m.t. Kársnesið með verðlaunaarkitekt sem starfar í Evrópu. Hann benti mér á fullt af þáttum sem maður gerði sér ekki grein fyrir. Hann benti á miðbæinn í Reykjavík og þá stöðu sem hann nú er í, sem afleiðingu af skorti á stefnu. Hann bennti á að það að dreyfa byggðinni eins og við gerum sé óheyrilega dýrt, og kalli á óþarfa mengun. Þetta mun t.d. gera almenningssamgöngum mjög erfitt fyrir.  

Þá kom að Kársnesinu. Það var mat hans að Kársnesið þyrfti að þétta. Íbúum hafði fækkað umtalsvert eða að mig minnir úr 7 þúsund niður í 4 þúsund og bílaumferð á Kársnesinu er mun minni en áður var. Við vorum sammála um þessa höfn og hann taldi að þær nýju skemmur sem væru úti á Kársnesi  væri stílbrot. Hins vegar þyrfti að grisja atvinnuhúsnæði á svæðinu en bæta við þjónustu við íbúa og íbúðum Hann taldi að íbúar væru einfallega of fáir á svæðinu til þess að bera góða þjónustu.

Við fórum yfir mengunarmálin og ég sagði honum frá áhyggjum íbúa. Því svaraði hann á mjög skýran hátt. Á nesjum eins og Kársnesi er mengun yfirleitt mun minni en innar í landinu. Hann sagði að þeir sem héldu öðru fram væru ósannindamenn, og ég skyldi taka aðrar fullyrðingar þeirra með varúð. Síðar kynnti ég mér niðurstöður úr mælingum og bar saman við fullyrðingar forsvarsmanna Betri byggðar og tek hér eftir vara á því sem það fólk fullyrðir.

Ég bý líka í Kópavogi og það er mun minni umferð á Kársnesinu en víða annars staðar í bæjarfélaginu.

Ef þær skipulagshugmyndir hefðu verið samþykktar sem fram voru lagðar af framkvæmdastjóra Skipulagsviðs bæjarins, þá hefðu ekki verið neinir 50 trailerar að fara fram hjá húsinu þínu.

Það er ekki hægt að banna fólki að kaupa upp eignir, til þess þarf að breyta lögum.

Nú þekki ég ekki skuldastöðu Kópavogs nægjanlega vel, en veit að mörg sveitarfélög standa illa m.a. vegna framkvæmda. Ætla að kynna mér þau mál áður en ég fullyrði eitthvað um slíkt.

Sigurður Þorsteinsson, 20.4.2009 kl. 13:05

4 identicon

Verðlaunaarkitektinum er að sjálfsögðu velkomið að flytja hingað á Kársnesið.  Verra væri hins vegar ef hann tæki þá upp á því að breyta því úr því sem það er í eitthvað annað.  Ég hef grun um að ef bæta á 3 þúsund íbúum við Kársnesið þá verði það nokkuð fleiri en það sem þyrftu að flytja hingað því mörgum þeirra sem hér búa núna þætti minna varið í staðinn og flyttu sig því um set.  Sjálfur sé ég fátt annað en kosti við blönduðu byggðina sem er hér núna, þó vissulega sé ég sammála spekingnum um að risaskemmurnar séu slys (eins og reyndar fyllingin sem þær standa á).

Hins vegar hef ég aldrei skilið hvernig það er þjóðhagslega hagkvæmt að rífa hús, bara til að byggja annað eins annarsstaðar, til að hægt sé að byggja einhvernveginn öðruvísi hús þar sem það fyrra stóð áður.  Af hverju ekki að byggja bara öðruvísi húsið á hinum staðnum, þá þarf ekki að rífa neitt og bara byggja eitt hús?

Kársnesbúi (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 00:29

5 identicon

Kársnesbúi,

Ég er engin spekingur í þessu máli en ég bý hérna.

sandkassi (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 01:16

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Mér finnst vera of mikið af steypu í Kópavogi sem hefur verið komið fyrir á misgáfulegum stöðum. Það hlýtur að þurfa að breyta skipulagi íbúðahverfa í samráði við eigendur en ekki í andstöðu við meirihlutann eins og manni hefur sýnst svona utan frá. Ég tek fram að ég bý í Vesturbæ Kópavogs en ekki Kársnesinu þannig að ég kýs að tjá mig með fyrirvara.

Guðmundur St Ragnarsson, 21.4.2009 kl. 01:29

7 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Gunnar ég fylgdist með þeim sem börðust gegn skipulagðri byggð við Elliðavatn. Allt var fundið nýrri byggð til foráttu. Fólkið sem bjó í sumarbústöðunum þarna uppfrá vildi bara fá að gera það áfram, og enga nýja byggð. Flest þau rök sem fram voru sett, þykja afkáraleg nú. Því miður fara þessi skipulagsmál oft niður á það plan, að vera notuð í flokkspólitískum tilgangi. Þá eru heildarhagsmunir bæjarbúar settir til hliðar fyrir sérhagsmuni.  

Sigurður Þorsteinsson, 22.4.2009 kl. 05:59

8 identicon

Sigurður,

Umhverfisverndarmál eru á gráu svæði þegar kemur að öllum stórframkvæmdum og það er mjög eðlilegt að sett sé spurningamerki við slíkar aðgerðir enda þær oft notaðar í vafasömum tilgangi.

En svo ég svari aðeins betur svokölluðum Kársnesbúa þá var ég ekki að tala um uppfyllinguna heldur gamla hverfið hér fyrir ofan bryggjuna eins og stóð skýrlega í póstinum.

En aftur til þín Sigurður, mér finnst umferð trailera þegar vera of mikil hér fram hjá húsinu mínu. Hér eru hraðahindranir og lár hámarkshraði og er þetta í ósamræmi við grunnskólana sem eru hér sitt hvoru megin við Borgarholtsbrautina.

Þessi umferð mun aukast gríðarlega við þá uppbyggingu sem staðið hefur til að fara í og hefur ekki verið sýnt fram á það að hægt sé að veita umferð annarsstaðar út af nesinu en eftir þeim leiðum sem þegar eru fyrir hendi.

Síðan er sú staða komin upp að sala á lóðum hefur ekki verið að ganga eftir hjá bænum og það byggingarátak sem Gunnar ætlaði í stendur nú ekki af sér markaðsaðstæður. Óperuhúsinu var því slegið á frest sem dæmi.

Annars er Gunnar oft fyndin og gaman að fylgjast með honum. Hann er náttúrulega með byggingaráráttu og lái honum það hver sem vill, kannski svipar honum til Guðjóns Samúelssonar húsameistara hvað þetta varðar. Eftir svona menn standa mikil verk og fer sagan yfirleitt mýkri höndum um þá heldur en samtíðarmenn Þeirra.

Skemmtilegast er þegar Gunnar framkvæmir smá uppfyllingar hér og þar og heldur sér nokkrum metrum innan við markið til að sleppa við umhverfismat. Ég hef húmor fyrir Gunnari og hef oft velst um úr hlátri yfir athöfnum hans. En þetta er nú mín hlið á málinu, ég vil ekki þessa miklu bílaumferð.

sandkassi (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 12:01

9 identicon

Það er alltaf pínulítið skondið þegar menn hafa svo gaman af að vera á móti, að þeir finna sér andstæðinga í þeim sem eru sammála þeim.

Sjálfur þekki ég Gunnar Waage nágranna minn ekki neitt, en ég veit hvorki til að hann sé verðlaunaarkitekt né neinn sérstakur spekingur á því sviði.

Kársnesbúi (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 10:15

10 identicon

Ég kannast nú ekki við að neinn nágranni minn gangi undir nafninu "IP-tala skráð" og geng því út frá því að hér fari líklega einhver með falinn ásetning í sínum málflutningi.

Annars sýnist mér þetta vera eitthvað persónulegt og skrýtið að verið sé að draga mína persónu til hliðar í þessari umræðu. 

sandkassi (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 12:18

11 identicon

p.s. allir mínir nágrannar eru yndislegt fólk og myndi aldrei tjá sig með þessum hætti.

sandkassi (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 12:32

12 identicon

Afsakaðu Gunnar að mér þætti þetta fyndið, en ég skildi bara ekki alveg hvernig þú gast tekið eitthvað af því sem ég sagði í athugasemd nr. 4 til þín, eða að það væri með einhverjum hætti svar við því sem þú skrifaðir.

Í athugasemd nr. 3 (þeirri á undann minni) var vísað í verðlaunaarkitekt sem er þá væntanlega mikill spekingur í þeim málum.

Annars held ég að við sem búum hér vestast í Kópavoginum séum nokk sammála um hvernig hverfið á að vera til að okkur líði sem best, allavega get ég í meginatriðum tekið undir það sem þú hefur skrifað hér.

Og líklega getum við þakkað efnahagsástandinu að hverfinu okkar verður ekki umturnað í bili a.m.k.

Kársnesbúi (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:25

13 identicon

fínt mál

bkv

sandkassi (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband