Palladómar í þáttalok

Ég hef horft og hlustað á stjórnmálaforingja í sjónvarpinu í kvöld - fyrst undir heraga Heimis Más á Stöð 2 og svo hjá Sigmari og Jóhönnu (í aðeins of stuttum kjól - nú, eða of síðum) í Sjónvarpinu.

Á endanum snýst þetta um hverjum maður trúir og treystir.

Steingrímur er orðinn landsföðurlegur og ábyrgur, klókur og heldur öllum leiðum opnum – þar á meðal um samkomulag við Samfylkinguna um Evrópusambandið. Það er eins og ráðherradómurinn hafi gefið honum það púst sem hann þurfti.

Jóhanna er jafn einörð og venjulega, gefur ekkert eftir í sínum hjartans málum, þykist vita hvert er hægt að komast með Vinstri-Græna. Það er ekki hægt annað en að trúa henni og treysta til að gera það sem hún telur rétt. Og á morgun ætlar hún loks að tala við útlendu pressuna. Ekki seinna vænna.

Bjarni Benediktsson var næst best klæddur (á eftir Jóhönnu & Jóhönnu). Færði ágæt rök fyrir máli sínu – en reynsluleysið háir honum. Hann er eins og margir aðrir Sjálfstæðismenn þessa dagana: í fýlu yfir því að vera ekki lengur við völd og að vera kennt um allt ruglið.

Sigmundur Davíð er enn óskrifað blað: maður óttast helst að þessi geðþekki piltur sé alltaf að gera í buxurnar sínar með delluhugmyndum – en svo talar hann inn á milli af fágætu viti. Augljóslega er hann þó nýgræðingur í pólitíkinni.

Guðjón Arnar kemur til dyranna eins og hann er klæddur: sjóari að vestan sem er ekki að láta hugmyndafræði flækjast fyrir sér, viðurkennir staðreyndirnar sem blasa við og er ekki mikið gefinn fyrir kjaftæði.

Þór Saari er ekki glaðlegur maður. Oft meinskarpur og athugull, þess á milli ergilegur – og lái honum hver sem vill. Ekki alveg víst að hann hafi kjörþokkann.

Ástþór Magnússon er...aarrgghhh! Hvað er eiginlega með þennan mann? Er ekki komið nóg?!

Og svo mynda Jóhanna og Steingrímur ríkisstjórn eftir helgina. Þau munu á næstu vikum hefja samtöl við ráðamenn í Brussel (óformleg eins lengi og hægt verður) og leggja svo dæmið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Evrópusambandið er óumflýjanlegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Er ekki sammála því að evrópusambandið sé óumflyjanlegt ,þjóðinn á nú eftir að segja sitt síðasta orð varðandi það efni þegar það liggur fyrir sá samningur .

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 24.4.2009 kl. 22:14

2 Smámynd: Brattur

Ástþór er ekki minn tesopi... en mér fannst hann góður þegar hann sótti að Sigmundi Davíð með þær upplýsingar sem sá síðarnefndi sagðist hafa og tengls Framsóknarflokksins við stjórnkerfið í gegnum tíðina. Átþór fær prik hjá mér fyrir það, en svo mun ég aldrei gefa þeim manni prik aftur.

Svo fer það Bjarna Ben. ekki vel að vera í fýlu.

Brattur, 24.4.2009 kl. 22:14

3 Smámynd: Björn Heiðdal

Látum okkur sjá, valið stendur á milli græðlinga og glæpamanna ásamt einu stykki af tómatsósujólasveini.  Allir lofa að svíkja ekki loforðin sín og sumir vilja selja landið fyrir tvær evrur.  Jóhanna vill ESB en Bjarni báknið burt og álið kjurt.  Steingrímur heldur að þetta sé komið en Kolbrún klobbar hann á síðustu metrunum og skorar sjálfsmark.  Jibbí heyrist í Framsókn og Finnur finnur meira gull.  Það var víst alltaf í vasanum mínum en bara ekki lengur. 

Björn Heiðdal, 24.4.2009 kl. 23:48

4 identicon

Saari var með frambærilegasta innihaldið, réttsýnn maður sem þorir.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 03:23

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Steingrímur fannst mér ansi harður á að ekkert þýddi að fara með ósk um ESB-aðildarviðræður í gegnum fulltrúaráð VG.
Það merkir að þar gilda engin óbein skilaboð, menn verða að gefa Samfylkingunni sitt atkvæði til þess að þessi þjóð stefni til traustara og betra lífs á ný, sem þarf að grundvallast á evru í stað krónu og í skjóli af ESB-aðild.

Helgi Jóhann Hauksson, 25.4.2009 kl. 04:54

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Mikið held ég að Ómar Valdimarsson sé stoltur, í fararbroddi með félaga sínum í baráttunni Helga Jóhanni Haukssyni sem flokkar sig sem nýkommúnista og ESB sinna. Í sumar fékk ég að sjá mannvirki sem hætt var að klára í Nurnberg í Þýskalandi um miðja síðustu öld. Merkin voru tekin niður. Málflutningur ESB sinna selur mér enn ekki að gengið verði að þeim skilyrðum sem ég tel vera að lágmari til þess að fara inn. Hjá þeim öfgafyllstu minnir málflutningurinn líka á málflutning þeirra manna sem stóðu að mannvirkjagerðinni í Nurnberg. Það lofar ekki góðu.

Sigurður Þorsteinsson, 25.4.2009 kl. 12:57

7 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Ég er búinn að loka á þig, Sigurður. Þú gengur of langt. Þú getur líkt mér við nazista einhvers staðar annars staðar en í stofunni heima hjá mér.

Ómar Valdimarsson, 25.4.2009 kl. 18:22

8 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Samfylkingin kærð fyrir landráð.

Samfylkingin var kærð fyrr í dag fyrir landráð.  Einhverra hluta vegna hefur þetta hvergi birst í nokkrum fjölmiðli.

Lesið kæruna hér.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 25.4.2009 kl. 18:38

9 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Maður gæti haldið að Helgi Jóhann sé á launum frá Brussel miðað við kvað hann dásamar þetta veldi og einnig er hann tilbúinn að gefa Brussel landið okkar fyrir ekki neitt.Annaðhvort kann hann ekki að lesa eð vill ekki lesa það sem hentar ekki.............

Marteinn Unnar Heiðarsson, 25.4.2009 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband