Er þetta ekki bara fínt?

Ég er hvorki innvígður né innmúraður í flokkapólitík og skil því ekki alltaf hvernig slíkt fólk lætur. En það er með mig eins og manninn sem sagði um listina: I know what I like.

Mér líkar til dæmis vel við þá hugmynd að Alþingi taki ákvörðun um að leita eftir aðild að Evrópusambandinu. Ég sé ekkert athugavert við að einstakir þingmenn, hvort sem þeir eru Vinstri-Grænir eða gulir eða bláir, greiði atkvæði með eða á móti. Ég hef nefnilega haldið að það væri hlutverk Alþingis að taka ákvarðanir um stóru málin, að setja rammann sem samfélagið á að virka í.

Og þess vegna skil ég ekki þrasið í Framsókn og Sjálfstæðisflokknum yfir þessu ákvæði nýja stjórnarsáttmálans. Er þetta ekki bara fínt? Er það ekki einmitt lýðræðislegt að þingmenn greiði atkvæði eftir sinni sannfæringu fremur en eftir flokkslínunni?

Það skyldi þó ekki vera að það sé tilhugsunin um opna umræðu og (bevare os allesamen!) raunverulegt lýðræði sem ógnar þessum flokksþrösurum?

Hamingjan góða, hvað verður þá um Flokkinn?!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hárrétt hjá þér Ómar. Þetta væl í sápuauglýsingardrengjunum í framsókn og XD er svo gamaldags, rétt eins og ímyndin þeirra. Látum reyna á lýðræðið og frelsi þingmanna.

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.5.2009 kl. 14:49

2 identicon

sæll frændi.

Þrátt fyrir að þú skiljir ekki þrasið í Framsókn og  Sjálfstæðisflokknum, - þá er það afar sérkennilegt að ríkisstjórnin geti ekki komið sér saman um eitt stærsta málið hennar - ESB umsóknina,  en treysti því að þeir sem ekki mynda ríkisstjórnina eigi að redda. Þú myndir ekki aka bíl án þessa að virða umferðarreglur, í trausti þess að aðrir passi að ekkert komi fyrir þig.

Gísli Valtýsson (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 14:52

3 Smámynd: Bergur Thorberg

Mæltu heill Ómar. Að greiða atkvæði eftir sannfæringu. Er það ekki hið besta mál? Og svo skil ég öngvan veginn röksemdarfærslu Gísla Valtýssonar. Ef hún væri rétt, byggjum við líklega við einræði. Eða öllu heldur.... FLOKKSRÆÐI.

Bergur Thorberg, 11.5.2009 kl. 18:26

4 Smámynd: Brattur

Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn eru bara fastir í gamla farinu og kunna ekkert á svona ný vinnubrögð... og fara þá bara í neikvæða gírinn...

Brattur, 11.5.2009 kl. 19:36

5 Smámynd: Billi bilaði

Hárrétt. Þetta er skref í átt til þess að komast út úr flokksræðisvæðingu Jónasar frá Hriflu.

Billi bilaði, 12.5.2009 kl. 03:40

6 identicon

Jú jú þetta hljómar sannarlega vel en ætla þeir að viðhafa þessi „nýju vinnubrögð“ við öll önnur mál framvegis?

Trúa menn því?  Mig grunar að þetta skyndilega ástfóstur við „ný vinnubrögð“  eigi sér aðrar rætur – rætur innbyrðis sundurlyndis milli þessara flokka um stóra málið sem ekki fæst úr leyst nema láta stjórnarandstöðuna skera þá niður úr snörunni og þá heitir það að viðhafa  „ný vinnubrögð“  - voða fínt!  nei nei ekki svona blekkingarleiki og loddarasakap, af þeim eru flestir komnir með upp í kok.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 08:50

7 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Ein afleitasta afleiðing efnahagshrunsins hér opinberast í vantrausti og vantrú á nærri allt og alla. Ég held ekki að þetta sé óeðlilegt - en býsna leiðinlegt og ekki hollt.

Sjálfur er ég jafn 'sekur' og aðrir í þessum efnum: ég treysti ekki stjórnmálaflokkum, bönkum eða fjármálaráðgjöfum. En ég er að reyna - og því vil ég gefa Jóhönnu og hennar fólki séns: trúa því þar til annað kemur í ljós að þau séu ekki vísvitandi að blekkja mig. Ég er náttúrlega margbrenndur eins og aðrir: ég trúði því til dæmis að Geir og hans lið væru að reyna sitt besta þar til styrkjamálið svokallaða sannfærði mig endanlega um að hann færi ekki fyrir flokki 'vandaðra heilindamanna' eins og ég mun einhverntíma hafa orðað það.

Það er vegna þessarar vantrúar á stjórnmálaflokkana sem ég sé ekkert að því, öfugt við Gísla frænda minn Valtýsson, að Alþingi verði látið leysa úr ESB málinu. Mér finnst það síst til vansa að ríkisstjórnarflokkarnir viðurkenni að þeir séu ósammála um málið - og til sóma að þeir segi þá: gott og vel, látum þjóðina ákveða þetta. Til þess var þetta fólk kosið.

Ómar Valdimarsson, 12.5.2009 kl. 14:03

8 identicon

Ég er því fylgjandi að gengið verði til samninga við ESB svo að fyrir liggi áþreifanlegur samningur þar sem fram kemur hvað upp úr því hefst og ekki hefst, að ganga í þetta ógnvekjandi ferlíki sem annars hugnast mér ekki allt of vel.  Ég hef gefist upp á því að stjórnmálamenn hvað þá það vanhæfa afl sem kallar sig fjórða aflið; fjölmiðlarnir,  upplýsi um kosti og galla þannig að mögulegt sé okkur almennum kjósendum að taka afstöu í málinu fyrir tilstilli þeirra.

En það að ríkisstjórnin og hennar halelújakór nú keppist  við að sannfæra, okkur að það sé í nafni nýrra lýðræðislegra vinnubragða á Alþingi sem ESB málið fær þessa meðferð, en ekki vegna sundurlyndis hennar og getuleysis til að leiða málið til lykta innbyrðis, er blekkingarleikur og loddaraskapur.  

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 14:51

9 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta er ágætisfyrirkomulag.  Það að stjórnarflokkarnir séu ósammála kemur í veg fyrir að einhver hallelújakór á vegum Samfylkingarinnar selji úr okkur sálina í Brussel.  VG veitir Samfylkingunni vonandi það aðhald sem hún þarf í þessum Evrópumálum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 19.5.2009 kl. 23:45

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þar er auðvitað besta má að leggja frumvarp um aðildarumsókn að ESB fyrir Alþingi. Mér segir svo hugur um að meirihluti sé fyrir þessu máli innan þingsins. Þeir sem eru að strögla inn á þingi eru þeir sem ekki fengu nógu góða kosningu vegna þess mikla fylgis sem stjárnaflokkarnir fengu. Það verður með einhverjum hætti að minna á sig. Mér er það hins vegar mjög til efs að neikvæðni  sé það sem okkur vantar núna.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.5.2009 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband