Ættir í þjónustu ríkisins
5.6.2009 | 13:27
Þó að breski prófessorinn Robert Wade hafi stundum sagt meira en hann hefur haft vit á, þá er það alveg rétt hjá honum að íslenska stjórn- og embættismannakerfið hefur lengi verið gegnsýrt af ættar- og vinatengslum. Vafalaust á það einhvern þátt í hvernig fyrir okkur er komið - fáum, fátækum og smáum, eins og sagt var.
Sumar íslenskar ættir hafa unnið hjá ríkinu kynslóð fram af kynslóð og komið sér þar ágætlega fyrir. Sumir áhrifamiklir stjórnmálamenn síðustu ára hafa hvergi annars staðar unnið en hjá ríkinu. Þeir hafa því vísast aldrei kynnst kjörum og hugsunarhætti þess hluta þjóðarinnar sem lifir sínu lífi utan kerfisins og ættar- og vináttusamfélagsins sem hér hefur öllu ráðið. Auðvitað hefur eitthvað af þessu fólki kosið að fara þessa leið af því að það hefur viljað þjóna almenningi, en sennilega ekki allt.
En kannski verður aldri alveg hjá þessu komist: við erum jú ekki nema um 300 þúsund og erum meira og minna öll skyld. Þeim mun frekar er ástæða til að fara varlega í öllum mannaráðningum í opinbera kerfinu og stundum er rétt að menn gjaldi þess hverja þeir þekkja, eru í mægðum við, voru með í skóla eða bíssniss. Úff, ekki síst í bíssniss!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.