Eva á nippinu
11.6.2009 | 00:56
Það er ábyggilega satt og rétt hjá Evu Joly að embætti hins sérstaka saksóknara er of veikt, hefur ekki nægilega marga starfsmenn. Og ábyggilega mættu vera fleiri hjá embættinu sem hafa mikla reynslu af erfiðum málum.
Ef mig misminnir ekki sótti í fyrstu enginn um embættið og Ólafur Hauksson var sóttur í annað embætti til að gegna þessu. Það er því augljóslega ekki offramboð í landinu af reynslumiklum saksóknurum.
Og það er ábyggilega rétt hjá bæði Evu Joly og Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara að fjölskyldutengsl hans gera hann vanhæfan í öllu sem hrunið varðar og að það hefur dregist úr hömlu að leysa þann hnút sem Ragna dómsmála gerði í kvöld - en dró svo til baka vegna ummæla Evu í sjónvarpi. Það bendir eindregið til að Ragna ætli að ganga eins langt og hún getur til að koma á móts við norska ráðgjafann.
En það hlýtur samt að vera alveg á mörkunum að lausráðinn ráðgjafi, hversu góður sem hann er, geti heimtað brottrekstur æðstu embættismanna ríkisins - og geri það fyrst í sjónvarpsviðtali en ekki við viðkomandi ráðherra. Einhverjar almennar umgengnis- eða siðareglur hljóta að gilda um svona hluti.
Athugasemdir
Konan var ráðin til þess að gefa rannsókninni trúverðugleika með því að leggja nafn sitt við hana og eðlilegt að hún setji skilyrði. Hún er engin venjulegur lausráðin ráðgjafi úti í bæ.
Það mætti kannski titla hana gæðaeftirlitsmann ef mönnum líður betur með það.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 01:01
Eru ráðamenn þjóðarinnar að fá þessar upplýsingar Evu Joly núna fyrst í, sjónvarpinu ?
Það er ljóst að við - þjóðin erum að fá þær núna fyrst í þessu sjónvarpsviðtali í Kastljósi í gærkvöldi.
Er ekki líklegt að mikið sé búið að þrýsta á að tjaldabaki með aukinn styrk í þessa mikilvægustu rannsókn Íslandssögunnar ?
Og að þetta sjónvarpsviðtal sé ögurstund í málinu ?
Ekki er vafi á að þjóðin mun fylgja þessu máli fast eftir- jafnvel á Austurvell - ef þörf krefur. Réttlætið verður að ná fram að ganga- þjóðarheill er undir
Sævar Helgason, 11.6.2009 kl. 08:26
Málið er alvarlegt. Orðspor Íslendinga á alþjóðavettvangi í húfi. Hún er fremsti rannsóknardómari Evrópu og starfar fyrir norsku ríkisstjórnina að mikilvægum sérmálum. Ef ríkisstjórnin klúðrar þessu þá er maðkur í mysunni.
Margrét Sigurðardóttir, 11.6.2009 kl. 09:18
Það er skemmtilegt að sjá, hversu svona hæglát kona eins og Eva Joly, er föst fyrir. Hún hefur nóg af áhugaverðum verkefnum, en hún lætur Ísland sig varða. Hún lætur ekki sinnulausa embættismenn ýta sér til hliðar, heldur kemur fram fyrir alþjóð og hrellir möppudýrin.
Þær tillögur sem Eva hefur fram að færa, eru ljóslega réttar. Ef það er eitthvað, sem almenningur bindur vonir við að embættismennirnir hafi rænu á að gera, þá er það lögsókn á hendur þeim sem stolið hafa fjármunum þjóðarinnar. Ekkert má spara til að þessu marki verði náð. Öðrum málum, sem stjórnkerfið er að fást við, verður örugglega klúðrað að vanda.
Ein af kröfum Evu, er að ríkissaksóknari víki úr starfi vegna augljósra og náinna tengsla við aðila bankahrunsins. Nú kemur í ljós að þessi embættismaður er ekki ábyrgur gagnvart neinum nema sjálfum sér. Það er enginn sem getur vikið honum úr starfi og til að sneiða hjá honum var skipaður "sérstakur" ríkissaksóknari.
Hvernig getur ríkissaksóknari borið það á borð, að embætti hans komi ekki að þessu lang-stærsta glæpamáli Íslandssögunnar ? Ætlar hann bara að halda áfram að lögsækja vasaþjófa og fyrna viðskiptaleg samráðsbrot ? Það blasir sem sagt við, að stjórnkerfið er svo spillt, að þegar þarf að nota það til gagnlegra hluta þá er það ekki hægt, heldur þarf að skipa "sérstaka" embættismenn.
Annað dæmi er kæra fyrrverandi forstjóra Fjármáleftirlitsins, á hendur eins nefndarmanns í "sérstakri" rannsóknarnefnd um efnahagshrunið. Þessi "sérstaki" nefndarmaður hafði sagt í Ameríku, að ein af orsökum hrundins hafi verið vanhæfir embættismenn. Þarf að brennimerkja orðið "vanhæfur" á ennið á þessum fyrrverandi forstjóra ?
Loftur Altice Þorsteinsson, 11.6.2009 kl. 13:40
Heldurðu Ómar að almennar háttvísisreglur dugi á íslensku stjórnsýsluelítuna? Eva talar beint til almennings en það var almenningur (með góðu frumkvæði Egils Helgasonar í Silfrinu) sem þrýsti á að hún kæmi til starfa til að byrja með. Það var ekki að frumkvæði stjórnmálamannanna.
Það er of mikið í húfi í þessari rannsókn til að ekki verði hlustað á kröfur þessa mikla kvenskörungs. Hún metur VS alfarið vanhæfan og ég skil þau rök mæta vel.
Guðmundur St Ragnarsson, 12.6.2009 kl. 00:40
Eva er kona með afar ríka réttlætiskennd og gríðarlega reynslu. Það að hún úttalar sig í sjónvarpi um vanhæfi VS sýnir bara hvað hún telur brýnt að á þessu vanhæfismáli sé tekið. Ég tel að hún geri rétt með að tala beint til þjóðarinnar og feli ekki sitt almenna álit á alvarleika og mikilvægi þess að rannsaka og gera það opið á þann hátt að það brjóti ekki persónulega á fólki og trúnaði við það. Það vita llit að sonur VS er stórt númer á fjármálasviðinu og þar var enginn trúnaður brotinn
Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.6.2009 kl. 00:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.