Bæjarstjórnin búin að vera
22.6.2009 | 11:30
Sé það rétt sem Flosi Eiríksson og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúar í Kópavogi og stjórnarmenn í lífeyrissjóði starfsmanna bæjarins, segja um samskipti sjóðsins og Fjármálaeftirlitsins, þá hefur Gunnar Birgisson gert það eina rétta: farið frá. Undir sömu formerkjum var ofsagt af mér fyrir helgina að þeir væru 'pakk'. Á því biðst ég velvirðingar. Sömuleiðis játa ég á mig vanþekkingu á samþykktum bæjarins (og margra annarra bæjarfélaga) sem gerir þá kröfu að í stjórn lífeyrissjóðsins skuli vera kjörnir fulltrúar. Það er náttúrlega galið út af fyrir sig!
En bæjarstjórnin er búin að vera - að minnsta kosti sá meirihluti sem setið hefur í bænum í hartnær tvo áratugi. Gunnar Birgisson getur ekki stokkið fram á sviðið núna og sagst vera farinn í frí sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi þar til þetta lífeyrissjóðsmál hefur verið til lykta leitt. Var hann ekki áður búinn að segjast fara sem bæjarstjóri? Áður en þetta mál kom upp? Er sá díll þá úr sögunni og hugsar Gunnar sér að snúa aftur í bæjarstjórastólinn þegar rannsókn á stjórnarháttum lífeyrissjóðsins er lokið?
Ég sá einhvers staðar haft eftir forustumanni Sjálfstæðisflokksins í bænum mínum að þeir væru að leita að manni utan bæjarstjórnar til að taka við af Gunnari. Það er of seint - þótt það hefði verið eðlilegt, því nöfn sumra þeirra sem helst hafa verið nefndir sem líklegir eftirmenn bæjarstjórans eru líklegir til að verða nefnd þegar skoðaðar eru 'vinveittar' lánveitingar banka til áhrifamanna.
Athugasemdir
Já, karlinn er búinn að vera. Hætt við að fríið verði til langframa.
Björn Birgisson, 22.6.2009 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.