Vitlaust gefið
19.11.2009 | 15:18
Fyrir tæpum 18 árum var svo komið fyrir mér að ég hafnaði á Vogi. Þar fékk ég þá aðstoð sem ég þurfti og hef síðan lifað miklu betra lífi, mér og mínum til hagsbóta og hamingju.
Á fyrstu árunum eftir dvölina leið aldrei svo mánuður að ég rækist ekki á dánartilkynningu eða minningargrein um einhvern sem ég hafði annað hvort hitt á Vogi eða í þeim kreðsum sem alkar í bata hafa með sér. Þá áttaði ég mig endanlega á hversu hættulega banvænn alkóhólismi er.
Því er ég að nefna þetta að nú er verið að skera niður opinber fjárframlög til meðferðarstarfs SÁÁ. Þingmaður sem ég hitti á dögunum sagði mér að meðferðarstarfið (sem felst í því að bjarga fjölskyldum frá hryllingi þar sem dauðinn er ekki alltaf verstur) fengi á fjárlögum álíka mikið og Bændasamtökin. Það eru frjáls félagasamtök bænda sem reka margar skrifstofur undir félagsstarfið í vesturborginni. Landbúnaðurinn fær svo einhverja milljarða að auki.
Og Bridgesambandið, félag áhugamanna um að spila á spil, fær heldur meira fé á fjárlögum en Landssamtökin Þroskahjálp sem vinna að því að tryggja fötluðu fólki jafnrétti.
Ekki vil ég gera lítið úr vanda þeirra sem fara með fjárveitingavaldið í landinu - en hér er forgangsröðin greinilega eitthvað úr lagi gengin. Auðvitað á meðferðar- og líknarstarf SÁÁ að njóta meiri stuðnings en hagsmunafélag bænda og vitaskuld (nema hvað!) eiga samtökin Þroskahjálp skilið að fá meiri stuðning almennings en spilaklúbbar.
Athugasemdir
Gæti ekki verið meira sammála.
Sigurður Þór Guðjónsson, 19.11.2009 kl. 16:24
Mér sýnist Bændasamtökin þurfa að sætta sig við u.þ.b. 95 milljóna kr. niðurskurð frá síðasta ári á meðan niðurskurðurinn hjá SÁÁ er 10,5 milljónir...
Þór (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 19:09
Án þess maður geri lítið úr starfi Bridgesambandsins eða Bændasamtakanna, þá liggur það í augum uppi fyrir þeim sem hafa séð á eftir vinum eða ættingjum í gröfina í boði Bakkusar, að SÁÁ á skilinn mikinn stuðning.
Flosi Kristjánsson, 19.11.2009 kl. 19:25
Tek heilshugar undir með þér Ómar, þarna er verið að vinna að heilbrigðismáli sem kostar mannslíf og velferð fjölda fólks úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Það er ólíku saman að jafna bændasamtökunum og SÁÁ. Þroskahjálp og Bridgesambandinu. Það er í raun með ólíkindum að niðurskurður hjá SÁÁ skuli hafa komið til álita, hvað þá að hann skuli vera framkvæmdur.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.11.2009 kl. 01:10
Vel mælt. Þjóðþrifastarf SÁÁ hefur skilað fleiri krónum í Ríkiskassann en samtökin haf nokkru sinni fengið úr honum í formi 20.000 glaðsinna alka sem liggja ekki lengur uppá heilsbriðgiskerfinu né fjölskyldur þeirra á geðbatteríinu. Tala nú ekki um slys og dauða.
Gunnar Trausti (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 08:38
Ég er einn af þeim sem hef fengið aðstoð SÁÁ og veit það á eigin skinni hvað sú hjálp þýðir fyrir þá sem hana þurfa. Ekki aðeins fékk ég mig sjálfan til baka sem eðlilega manneskju, heldur veit ég að ef ég hefði haldið áfram í mínum sjúkleika hefði ég fljótlega komist í þá stöðu að þurfa á aðstoð heilbrigðiskerfisins að halda. Því er sorglegt til þess að vita að þegar farið er í að spara í kerfinu, skuli það hreinlega koma til álita að draga úr fjárveitingu til þessa málaflokks. Það mun klárlega koma fram sem aukin kostnaður á öðrum stöðum, - og hver er þá sparnaðurinn? Á þessum tímum sem við nú lifum, er í raun þörf á að stórauka þessa þjónustu.
Guðmundur Ág. Kristinsson (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 18:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.