Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Auðmýkt og áfallastjórnun

Auðmýkt er holl og góð fyrir alla. Hún felst meðal annars í því að viðurkenna veikleika sína og sjá sér hag í að leita sér hjálpar þegar manns eigin ráð eru á þrotum. Við það eflist maður á ný.

Mér kom þetta í hug í gærkvöld þegar norski almannatengillinn var í viðtali í Kastljósinu. Hann lýsti þar á einfaldan og skýran hátt vinnu sinni fyrir Geir Haarde. Forsætisráðherrann skynjaði að hann réði ekki sjálfur við fjölmiðla- og almannatengslin þegar allt var farið fjandans til í efnahagslífinu og að hann þyrfti hjálp fagmanns.

Norðmaðurinn kann greinilega sitt fag - hann lýsti þarna helstu, algengustu og bestu aðferðum sem notaðar eru við áfallastjórnun í almannatengslum. Í áfallastjórnunni er aðalatriðið er að segja sem mest, sem fyrst og á sem einfaldastan hátt.

Það fer að vísu ekki fram hjá nokkrum manni að árangurinn af starfinu er aðeins takmarkaður, talsverður hópur fólks telur sig enn engar upplýsingar fá - og trúir þess utan ekki orði af því sem sagt er. Kennslubækurnar í áfallastjórnuninni gera ráð fyrir þessu og kenna þetta: reynið aftur. Og aftur. Flest fólk er ekki fífl.  

En það ber að virða viljann fyrir verkið. Þótt að minnsta kosti helmingur ráðherra ríkisstjórnarinnar hafi á einum eða öðrum tíma unnið við blaðamennsku, þá hefur þeim ekki tekist að vera í nógu góðu sambandi og með því auka þeir á reiði fólks og örvæntingu. Það má ekki gerast. Ríkisstjórnin á að fá sér annan fagmann á borð við Norðmanninn. Slíkir menn eru til á landinu.


Aulahrollur

Æ, æ, æ. Mikið skelfing var vandræðalegt að fylgjast með Sölva Tryggvasyni og Birni Bjarnasyni á Stöð 2 í gærkvöld. Ekki nema von að Björn væri stórhneykslaður þegar Sölvi fór að biðja hann um símanúmer hjá ráðamönnum í Bretlandi!

Lái honum hver sem vill!

Fréttamiðill sem vill láta taka sig alvarlega getur ekki látið þetta henda. 


Þurfti ekki innherja til

Ekki var ég innherji þegar ég seldi þau fáu hlutabréf sem ég hafði önglað saman á löngum tíma. Mér fannst bara augljóst að hlutabréfamarkaðurinn hér væri meira en lítið vafasamur og að hann gæti ekki átt sér farsæla framtíð. Stórkostleg hækkun á verðgildi fyrirtækja sem flutu í bólu gat ekki verið eðlileg. Þess vegna seldi ég og losaði mig út úr þessari svikamyllu allri.

Þetta var fyrir meira en ári síðan. Á hverjum degi eftir það sannfærðist ég betur og betur um að þetta hefði verið rétt ákvörðun. Í september á þessu ári var það aðeins meðvitundarlaust fólk, eða fólk í sjúklegri meðvirkni, sem ekki sá hvert stefndi (þótt engan, og síst af öllu mig, hafi grunað að hrunið yrði svona svakalegt).

Ég veit ekkert um Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóra annað en að Bragi bróðir hans var með mér í bekk í barnaskóla og er alltaf skemmtilegur. En Baldur þurfti ekki að vera innherji til að sjá að það var óðs manns æði að eiga áfram hlutabréf í íslenskum útrásarbönkum. 

Hitt er svo annað, að það væri alveg eftir öðru að gera hann að aðal sökudólginum í svikamyllunni. 


Framkvæmdastjóri óskast

Ég var að tala við Val frænda minn um þann vanda lítils samfélags: þótt ætti að reka sem flesta sem bera ábyrgð á hruninu, þá er ekki um auðugan garð að gresja - hérumbil allir sem eru hæfir til að reka samfélagið eru tengdir þeim sem hafa reynst óhæfir. Frændi minn benti á að CitiBank hefði verið að segja upp 50 þúsund manns og þá yrðu eftir um 300 þúsund starfsmenn; Ísland væri í sjálfu sér ekki mikið meira mál en slíkt stórfyrirtæki. Hann vildi þess vegna auglýsa eftir framkvæmdastjóra fyrir Ísland.

Okkur kom saman um að þetta væri sennilega ágæt hugmynd og að auglýsingin ætti að hljóða einhvern veginn svona.

Framkvæmdastjóri óskast

Duglegur rekstrarmaður óskast til að taka að sér rekstur á einkahlutafélagi í Norðurhöfum. Félagið hefur yfir að ráða um 200 þúsund starfsmönnum sem eru vel menntaðir, fúsir til vinnu og fljótir að tileinka sér breyttar aðstæður - en eiga til að hlaupa út undan sér á eftir einskis nýtum nýjungum og gylliboðum og missa þá raunveruleikaskyn.

Góður húsakostur í boði með fínum bíl. Laun verða ákveðin á félagsfundi á Austurvelli n.k. laugardag kl. 15 GMT.

Lysthafendur sendi umsóknir með ítarlegum persónuupplýsingum á netfangið screwed@iceland.is. Öllum umsóknum svarað. Fullum trúnaði heitið.

Ath: Aðeins erlendir ríkisborgarar koma til greina.


Stöð 2 gekk fram af brúninni

Ég var svo lánsamur að búa í útlöndum á meðan veislan var haldin hér á Hóli. En ég fylgist með í gegnum fjölmiðla og svo fréttir frá ættingjum, vinum og kunningjum. Ég skildi aldrei hvað stóð á bak við þessa skyndilegu auðsæld á Íslandi enda var ekki að sjá að framleiðslan hefði aukist sem öllu þessu nam.

En það var augljóst af fjölmiðlum að þetta var allt rosalega fínt og gott og að þeir sem ekki voru ríkir voru pakk sem ekki tók að eyða orðum eða prentsvertu í. Það var því rétt sem kom fram á borgarafundinum á Nasa í gærkvöld að fjölmiðlarnir brugðust (og sumir eru enn að því; kannski meira um það síðar) og voru óheyrilega sjálfhverfir og meðvirkir.

Stöð 2 sagði frá þessu sjónarmiði í fréttum í kvöld. En svo gekk fréttastofa Stöðvar 2 beint fram af brúninni: næsta frétt var í gamla upphafða dýrlingastílnum. Sindri Sindrason fjallaði þar um Actavis sem er lent í vondum málum vestur í New Jersey fyrir að hafa framleitt lyf sem einhver óværa fannst í. Það virtist engu máli skipta í þessari umfjöllun að bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið hefði sett Actavis í New Jersey út af sakramentinu, öll áherslan var lögð á að Actavis væri beitt órétti og fengi ekki að framleiða sín lyf á sínum mikilvægasta markaði. Sem sagt: enginn lærdómur dreginn af fortíðinni.

Og að auki ætti Sindri Sindrason vitaskuld aldrei að fá að koma nálægt fréttum af Actavis vegna fjölskyldutengsla við það fyrirtæki, og skiptir þá engu hvort þau tengsl eru gömul eða ný. 


Það kemur aldrei lag

Hömluleysið gerir var við sig víða. Til dæmis í rokki dagsins. Mikið af því er miklu frekar iðnaðarframleiðsla á hávaða en tónlistarsköpun. Ég nenni sífellt minna að fylgjast með því sem er að gerast á því sviði - eins og ég var upptekinn af þessu einu sinni! - enda finnst mér oft ekki mikið til koma.

Það sem er verst er sá skortur á sjálfsgagnrýni sem tröllríður þessum bransa núna. Raggi Bjarna samdi á sínum tíma frábært lag, Barn, við ljóð Steins. Haukur Morthens semdi Ó borg, mín borg við ljóð Vilhjálms frá Skáholti, ef ég man rétt.

Engum þarf að detta í hug að Ragnar og Haukur hafi ekki sett saman fleiri lög - en þegar annálaðir smekkmenn eiga í hlut er vel valið og þess vegna eru ekki mikið fleiri lög eftir þessa menn til á plötum. Þeir vildu/vilja ekki senda frá sér hvað sem er. Þeir gerðu þá kröfu til sjálfra sín að frá þeim færu aðeins almennileg lög.

Þessa smekkvísi og virðingu fyrir hlustendum skortir orðið hjá mörgum þeirra sem troða upp með frumsamið efni. Það kemur aldrei neitt lag.

 


Obama: best að spyrja að leikslokum

Auðvitað eru það merk tímamót þegar Bandaríkjamenn kjósa sér hálfblakkan mann fyrir forseta og þeim til sóma. Það er ekki hægt annað en að fagna því að Obama hafi sigrað - þótt ekki væri nema vegna þess að Bush og allt hans hyski er guðsblessunarlega á förum og von er til að vinir okkar í vestri fari að haga sér eins og siðmenntað fólk gagnvart öðrum þjóðum.

En það er hinsvegar fátt, enn sem komið er, sem bendir til þess að Barrack Obama muni gera stórkostlegar breytingar á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Hann talar eins og hver annar amerískur pólitíkus um þau mál: Jerúsalem skal vera óskipt höfuðborg Ísraelsríkis, Íranar eru dólgar og svo framvegis.

Það má hinsvegar gera sér ágætar vonir um að hann ráðist ekki óforvarandis inn í lönd af því að stjórnendur þar fara í taugarnar á honum...en þó mun best að spyrja að leikslokum.

 


Gunnar Páll er í skökku liði

Það er aldrei gott þegar þeir sem taka að sér hagsmunagæslu fyrir aðra gleyma hlutverki sínu og hugsa fyrst og fremst um sína eigin hagsmuni. Ef það er rétt að Gunnar Páll Pálsson hafi fengið ríflega hálfa milljón króna á mánuði fyrir að sitja í stjórn Kaupþings fyrir hönd Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þá er ekki skrítið að hann hafi lítið vilja gera með það álit Siðfræðistofnunar að seta hans í stjórn bankans gæti leitt til hagsmunaárekstra. Sem nú hefur heldur betur komið á daginn.

Stjórn VR hefur engan sóma sýnt af sér með því að lýsa yfir stuðningi við formann sinn - og hann enn síður með því að biðja um frið til að endurheimta traust 30 þúsund félagsmanna.

Gunnar Páll Pálsson á að þekkja muninn á réttu og röngu. Það rétta í stöðunni - það eina rétta - er að hann biðjist lausnar nú þegar.

Og svo þetta: Burt með spillingarliðið!

 


Ef þeir skilja þetta ekki...

Á þessum tímum er mikilvægara en flest annað að hafa aðgang að upplýsingum - og þar með að það fólk sem hefur vinnu af því að afla upplýsinga og framreiða þær á auðskiljanlegan máta sé starfi sínu vaxið.

Það eru nýjustu fréttir af 365 sem eru kveikjan að þessari hugleiðingu. Þar hefur verið gefin út sú dagskipun að nú eigi að losna við þá fréttamenn sem lengstan starfsaldur hafa og eru því sjálfsagt á hæstu laununum og með mest áunnin réttindi. Heimir Már Pétursson, einn örfárra kjölfestumanna fréttastofu Stöðvar 2, hefur fengið pokann sinn og útlit er fyrir að fleiri af þeim kaliber eigi eftir að fylgja í kjölfarið.

Þetta er náttúrlega vitlausasta aðferð sem hugsast getur. Þegar svo er komið í samfélaginu sem nú er, skiptir meira máli en nokkru sinni fyrr að fréttamiðlar hafi í sinni þjónustu fólk sem veit að mannkynssagan hófst löngu fyrir árið 2001.  Nú ríður á að hafa þar fólk sem skilur samhengi hlutanna og getur útskýrt fyrir almenningi heima í stofu hvers vegna þetta gerist eða hitt og hvaða þýðingu það hefur í hinu stóra samhengi hlutanna. Ef forráðamenn fyrirtækisins skilja þetta ekki, þá ættu þeir að fá sér aðra vinnu. 

Það er enn ekki of seint fyrir Stöð 2 að sjá að sér. 

Og svo auðvitað þetta: Burt með spillingarliðið!


Fleiri leynifundi, takk!

Það er skortur á upplýsingum um hvernig stendur, hvernig gengur og hvert er verið að fara. Það er ábyggilega rétt hjá stjórnvöldum að þau vita ekki mikið meira en við hin - en það breytir ekki því að það þarf að upplýsa fólk betur en gert hefur verið. Blaðamannafundir þeirra Geirs og Björgvins í upphafi mánaðarins voru góðra gjalda verðir og upplýsandi en það er varla hægt að ætlast til að slíkt sé gert daglega. Einhverja leið þarf samt að finna til að koma upplýsingum á framfæri við almenning. Óvissan er vond fyrir heilsuna.

Það væri til dæmis kjörið að halda áfram að efna til óformlegra funda með fulltrúum fjölmiðla af og til, eins og gert var í síðustu viku. Slíkir fundir tíðkast um allan heim og eru gagnlegir fyrir bæði þá sem boða til þeirra og eins þeirra sem eru boðnir, þ.e. fulltrúa fjölmiðla sem hafa það hlutverk að koma upplýsingum á framfæri. Þeirra hlutverk er nefnilega að útskýra hluti og setja þá í samhengi, ekki bara að vera með upphrópanir og hávaða.

Vart er hægt að taka mikið mark á þeim sem hafa verið að agnbúast út í 'bakgrunns' eða óopinbera upplýsingafundi ráðamanna enda verður ekki annað séð en að þar ráði ergelsi yfir að hafa ekki verið meðal 'útvaldra'. 

Já, og svo náttúrlega þetta: burt með spillingarliðið!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband