Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Vélbyssurnar í Betlehem

Það er að koma að jólum og þá minnumst við þess um allan heim að Jesúbarnið fæddist í Betlehem. Þá biðjum við fyrir friði á jörð og velþóknun Guðs yfir öllum mönnum, jafnt ástvinum okkar og þeim sem hungraðir eru og hrjáðir sem falsspámönnum sem koma til okkar í sauðaklæðum en eru innra glefsandi vargar.

Við hjónin komum til Betlehem fyrir nokkrum árum. Uppreisnin, Intifatah, var þá í algleymingi. Göturnar voru nærri auðar, neglt var fyrir búðarglugga og -dyr og hermenn með alvæpni stóðu í flokkum á götuhornum eða óku um í opnum jeppum með vélbyssurnar mundaðar.

Leiðsögumaðurinn hálfhljóp á undan okkur inn í fæðingarkirkjuna og niður um ranghala og þrönga ganga. Skyndilega stoppaði hún og sagði: Hérna. Þetta er grottan. 

Við vorum í lítilli og myrkri kapellu í iðrum fæðingarkirkjunnar, um það bil þrjátíu af ýmsu þjóðerni. Við stóðum grafkyrr stutta stund og störðum á silfurstjörnuna sem greypt hafði verið í marmaraplötu á upphækkun frá gólfinu, á lágum stalli, eins og segir í kvæðinu. Reykelsisker voru um allt loftið og inni í jötunni. Tjaldað var fyrir með gullbrydduðu flaueli.

Svo byrjaði einhver að fara með faðirvorið á ensku. Aðrir tóku undir á sínu eigin tungumáli, gyðingarnir sögðu ekkert. Tilfinningarnar sem fóru um mann eru ólýsanlegar. Þetta líktist hvorki fjárhúsi né jötu, eðalmálmarnir á skreytingunum allt í kring voru sótugir af milljónum kertaljósa sem hafa brunnið á liðnum öldum í þröngri fæðingarhvelfingunni. Og á máðri steinhellunni er skínandi silfurstjarna sem kristnir pílagrímar snerta í lotningu.

Þarna fæddist Jesús Kristur. Nákvæmlega þarna, segir sagan. Auðvitað veit það enginn fyrir víst, en í gegnum aldirnar hafa kristnir menn komið sér saman um að þarna skuli það hafa verið. Og skyndilega stendur maður á þeim stað sem hefur mótað allt manns siðferði, alla manns afstöðu og allt manns líf, allt frá barnæsku.

Allt í einu fannst mér ég muna nákvæmlega hvernig mamma bað með mér faðirvorið í fyrsta sinn og það var eins og barnatrúin mín helltist yfir mig aftur.    

Sumir krupu á kné, kysstu silfurstjörnuna og báðust fyrir. Aðrir stóðu hreyfingarlausir með lokuð augu. Enn aðrir tróðust á milli pílagrímanna með vídeóvélarnar sínar til að ná mynd af konunni sinni standa þar sem Jesús fæddist. Eftir fáeinar mínútur sagði leiðsögumaðurinn: Jæja, áfram nú, við eigum einn stað eftir.

Nýr hópur tróðst á móti okkur niður í „fjárhúsið“ og um það bil sem við komum fram í anddyrið heyrðum við berast upp ómana af jólasálminum Adeste Fidelis: „Ó, dýrð í hæstum hæðum, Guðs heilagi sonur, dýrð sé þér...“

Löngu seinna finnur maður enn lyktina af reykelsinu, kertaljósunum og sótinu í fæðingarkirkjunni í Betlehem. Og maður finnur enn fyrir undarlegri, óútskýranlegri návist sem færir mann langt yfir dægurþrasið og dagsins amstur. Sú návist færir mann í hæstu hæðir og þá eru alltaf jól í brjóstinu - og fullvissan um að Guð er raunverulegur og alltaf nálægur.


Heilögu mennirnir í Seðlabankanum vestra

Það er sífellt að koma betur í ljós hvernig heimskreppan varð til - að mestu leyti vestur í Ameríku þar sem markaðsfrelsið var trúarmantra yfirvalda. Það var góð grein um þetta í tímaritinu New Yorker í byrjun mánaðarins þar sem segir frá hvernig þetta fór allt í gang - og ennfremur hvaða hlutverk forstjórar bandaríska seðlabankans léku í þessu öllu. Ekki verður annað séð en að þeir hafi hunsað vísbendingarnar - enda pössuðu þær ekki við möntruna. 

Þessir heilögu menn, Alan Greenspan og Ben Bernanke - kannski eru þeir ekki eins klárir og af er látið. Þeir eru samt ennþá svo heilagir, að enginn heimtar að þeir taki pokann sinn!

Þarna er líka kostuleg frásögn af því þegar Bernanke var í fyrsta sinn að lesa Bush forseta efnahagspistilinn. Það eina sem forsetinn hafði til málanna að leggja var að sokkar seðlabankastjórans pössuðu ekki við fötin hans.

http://www.newyorker.com/reporting/2008/12/01/081201fa_fact_cassidy

 


Vafasamur meydómur fjölmiðla

Það kemur enginn vel út úr þessari nýjustu uppákomu á DV, hvorki blaðamaðurinn brottgengni né ritstjórinn. En það skiptir kannski engu máli, það tekur enginn mark á þessu blaði hvort eð er, sbr. nýja könnun um hvernig fólk upplifir áreiðanleika fjölmiðla.

En ég hef ekki getað stillt mig um að brosa í kampinn yfir þeim meydómi sem ýmsir blaðamenn eru að sverja í tengslum við þetta mál. Ég vann í rúm 20 ár á íslenskum dagblöðum og fréttastofum og er í daglegu sambandi við gamla og nýja kollega. Ég ætla því að fullyrða að á öllum fjölmiðlum kemur það fyrir að mál eru sett ofaní skúffu vegna utanaðkomandi þrýstings af einu eða öðru tagi. Oftast eru þetta tiltölulega saklaus mál en stundum ekki. 

Og sem betur fer er það svo, að ef þetta eru ekki ómerkileg mál, þá leita þau fram í dagsljósið fyrr eða síðar. Það skipti því í sjálfu sér engu hvort "fréttin" um að Sigurjón Árnason væri að leita eftir bitum úr búri Landsbankans birtist í DV eða ekki, það var þegar vitað.

En auðvitað er gott að fá staðfestingu á siðferðisþreki þeirra sem stýra DV.


Karlakórinn aldrei betri

Við létum Karlakór Reykjavíkur syngja í okkur jólin í dag - og syngja úr okkur þyngslin sem fylgja daglegri umræðu í höfuðborginni. Kórinn hefur sennilega aldrei verið stærri - um 80 karlar á öllum aldri - og aldrei betri. Nema árin sem ég var í honum, að sjálfsögðu!

Tenórinn í kórnum er til dæmis þéttari og bjartari en um langa hríð enda hefur orðið talsverð endurnýjun og áberandi margir yngri menn sem setja sinn svip á þetta mikla hljóðfæri. Þar ber ekki síst að nefna kornungan Norðlending, Svein Dúu Hjörleifsson, sem stekkur af og til fram úr kórnum og syngur einsöng með einhverri flottustu tenórrödd sem hefur heyrst lengi. Sveinn Dúa lítur út fyrir að vera um fermingu - en syngur svona líka unaðslega. Það sama má raunar segja um annan einsöngvara, Ásgeir Eiríksson bassa, sem hefur glæsilega náttúrurödd - en var víst eitthvað kvefaður í dag og lagði því ekki í Agnus Dei. 

Mikið andskoti hlýtur að vera gaman að vera í svona góðum kór.


Staðfestingin komin: Við erum ekki í kreppu

Þá er það opinbert og staðfest: Ísland er ekki í kreppu. Ekki ennþá.

Viðtekin skilgreining á niðursveiflu í efnahagslífinu (recession) er að samdráttur hafi orðið í þjóðarframleiðslu tvo ársfjórðunga í röð. 

Nýjustu tölur hér heima, sem voru birtar fyrir helgina, sýna að enn sem komið er hefur aðeins mælst samdráttur á einum ársfjórðungi 2008. Við þurfum sjálfsagt að bíða fram í janúar til að vita hvort við erum ábyggilega komin í kreppu eins og aðrar stórþjóðir.

Þetta virðist líka passa við þær fréttir sem berast úr versluninni - þar sýnist ekkert lát á. 


Falleg kveðjustund

Hún var falleg, kveðjustund Rúnars Júlíussonar í Keflavíkurkirkju í dag. Ég fór með góðum vini í Fríkirkjuna og kvaddi þaðan með mörgu öðru fólki. Séra Skúla mæltist vel og hann drap á ýmislegt í fari Rúnars sem var vert að nefna.

Ég var að hugsa það á meðan að líklega höfðu Rúnar og María miklu meiri áhrif á lífssýn mína en ég hafði áttað mig á - til dæmis með spurningunni um gildi formlegs hjónabands og eins trúnni á að það væri alltaf þess virði að leita að einhverju betra - og að lifa lífinu samkvæmt því. Ég átti tvisvar með þeim eftirminnilegar stundir í Keflavík og fór í hvorugt sinnið sami maður heim. 

 


Hvað dvelur orminn langa?

Menn þreytast ekki á því þessa dagana að segja að allt skuli vera uppá borðinu. Allt, sama hvaða nafni það nefnist.

En skyldu allir meina þetta? Hvað varð til dæmis um niðurstöður könnunar sem Samtök atvinnulífsins létu gera meðal aðildarfélaga sinna í byrjun þessa mánaðar þar sem m.a. var spurt um afstöðu til Evrópusambandsins og fleiri hluta? Einhver aðildarfélaganna voru súr út af könnuninni og töldu spurningar rangar eða ósanngjarnar. Útgerðin var fúl af því að hún er á móti ESB og einhverjir fóru að tala um klofning í röðum atvinnurekenda.

En svo heyrist ekkert meira. Hví hafa þessar niðurstöður ekki verið birtar? Hvaða niðurstöður eru það sem Samtök atvinnulífsins eru ósátt - eða hrædd - við?


Valgerður axlar sína pólitísku ábyrgð

Ef 'pólitísk ábyrgð' þýðir að menn viðurkenni að þeir njóti ekki lengur trausts til að gegna pólitísku hlutverki, þá er Valgerður Sverrisdóttir eina mannaeskjan sem hefur axlað sína ábyrgð í yfirstandandi vandræðum. Hún segist ekki vilja vera formaður Framsóknarflokksins vegna þess að hún sé ímynd einkavæðingar bankanna og þar með - að hluta til - hvernig komið er fyrir okkar hnípnu þjóð.

Þetta er náttúrlega alveg hárrétt hjá Valgerði. Gott hjá henni - hún metur stöðu sína rétt. Ætli einhverjir taki sér hana til fyrirmyndar? Þarf nokkuð að nefna nöfn?


Drengur góður

Það er mikil eftirsjá í Rúnari Júlíussyni, sem var hetja mín á æskuárum og ágætur kunningi þegar kom fram á fullorðinsár. Alltaf sama ljúfmennið og prúðmennið; alltaf klár á sínu hlutverki þegar komið var uppá svið: að gefa sitt besta.

Og alla tíð leit augað fátt fegra en þau Rúnar og Maríu saman. Þar fór saman fólk sem bætti hvort annað upp og mátti vera öðrum til fyrirmyndar.


X leitar upp

Smám saman leita upplýsingar upp á yfirborðið. Nú hefur Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra staðfest á sjálfu Alþingi það sem enginn vildi viðurkenna áður, að Davíð Oddsson Seðlabankastjóri hafi lagt til á ríkisstjórnarfundi að mynduð yrði þjóðstjórn. Björgvin segir að þetta hafi gerst í byrjun september - það er að segja fyrir bankahrunið.

Þetta gæti bent til þess að fleiri molar af lokuðum ríkisstjórnarfundum fari að birtast. Það þarf ekki endilega að vera gott.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband