Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Gott hjá Geira
15.5.2009 | 15:17
Það verður að reikna Þorgeiri Eyjólfssyni það til góða að segja upp starfi sínu hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Það sýnir að hann þekkir sinn vitjunartíma og ætlar ekki í mikið þras. Það er betra fyrir alla - ekki hefði verið góður endir á annars ágætlega farsælum ferli að fara í stríð við eigendur sjóðsins.
Ég gerði það að tillögu minni á nýlegum aðalfundi Blaðamannafélagsins (lífeyrissjóður BÍ var sameinaður LV fyrir nokkrum árum þegar nýjar reglur um lágmarksstærð sjóða tóku gildi) að félagið beitti sér fyrir því að forstjórinn á kádiljáknum yrði látinn fjúka. Þá kom í ljós að BÍ hefur engin tök í sínum lífeyrissjóði.
Nú hefur Þorgeir tekið af okkur ómakið. Það er gott.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
0,02% einróma niðurstaða
13.5.2009 | 15:00
Hjúkrunarfræðingar eru að fara úr Bandalagi háskólamanna. Þetta var ákveðið á aðalfundi félags hjúkrunarfræðinga þar sem 55 voru mættir. 53 greiddu atkvæði með tillögu um úrsögn úr BHM - hérumbil einróma niðurstaða.
En það eru að minnsta kosti 2500 manns í félaginu (útvarpið hefur reyndar líka sagt 3500). Þýðir það ekki að um 0.02% félagsmanna hafi greitt atkvæði með úrsögn?
Það má vel vera að hinir 2447 séu líka á því að yfirgefa heildarsamtökin. Maður verður að ætla það.
En það er ekki hægt að segja að það sé mikil þátttaka í félags- og kjarabaráttunni hjá hjúkrunarfræðingum. Þetta er næstum því eins vont og það hefur lengst af verið hjá VR. Er þá langt til jafnað!
Í mínu félagi, Blaðamannafélagi Íslands, var kosinn nýr og vaskur formaður á dögunum með rúmlega 60% greidddra atkvæða sem voru alls 100. Í félaginu eru hins vegar um 500 manns.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Er þetta ekki bara fínt?
11.5.2009 | 12:12
Ég er hvorki innvígður né innmúraður í flokkapólitík og skil því ekki alltaf hvernig slíkt fólk lætur. En það er með mig eins og manninn sem sagði um listina: I know what I like.
Mér líkar til dæmis vel við þá hugmynd að Alþingi taki ákvörðun um að leita eftir aðild að Evrópusambandinu. Ég sé ekkert athugavert við að einstakir þingmenn, hvort sem þeir eru Vinstri-Grænir eða gulir eða bláir, greiði atkvæði með eða á móti. Ég hef nefnilega haldið að það væri hlutverk Alþingis að taka ákvarðanir um stóru málin, að setja rammann sem samfélagið á að virka í.
Og þess vegna skil ég ekki þrasið í Framsókn og Sjálfstæðisflokknum yfir þessu ákvæði nýja stjórnarsáttmálans. Er þetta ekki bara fínt? Er það ekki einmitt lýðræðislegt að þingmenn greiði atkvæði eftir sinni sannfæringu fremur en eftir flokkslínunni?
Það skyldi þó ekki vera að það sé tilhugsunin um opna umræðu og (bevare os allesamen!) raunverulegt lýðræði sem ógnar þessum flokksþrösurum?
Hamingjan góða, hvað verður þá um Flokkinn?!
Hreðjatak
10.5.2009 | 15:02
Ég held að það sé alveg rétt hjá Ögmundi Jónassyni að við höfum ekki fulla stjórn á okkar efnahagsmálum - og að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi talsvert með þau að gera.
En það er fullkomlega eðlilegt. Á meðan maður er að drukkna í skuldum, þá hefur maður ekki stjórn á sínum efnahagsmálum; lánadrottnarnir hafa á manni hreðjatak. Það gildir þá einu hvort maður er húsfaðir í Kópavogi, sem skuldar 30 milljónir, eða ríkissjóður sem skuldar þrjú þúsund milljónir.
Fullkomið efnahagslegt sjálfstæði felst í því að ráða sjálfur hvernig maður fer með fjármuni sína. Til þess þarf maður að eiga meira en maður skuldar - og helst gott betur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þingmannalaun engin ofrausn
6.5.2009 | 18:28
Það er að fréttast að í nýjum stjórnarsáttmála verði ákvæði um að ríkisforstjórar skuli ekki hafa hærri laun en forsætisráðherrann.
Mér þykir þetta skynsamlegt. Forsætisráðherrann á að vera á góðu kaupi og ekki hafa hærra launaða pótintáta úti í bæ á sínum vegum.
Á sama hátt fannst mér það bjánagangur og hræsni þegar laun ráðherra og þingmanna voru lækkuð í vetur - en forstjórarnir héldu flestir öllu sínu. Ég held nefnilega að þingmannalaun séu engin sérstök ofrausn. Þingmennska á að vera vel borgað djobb svo að við fáum í það almennilegt fólk - og það vel borgað að það þurfi ekki að vera að elta sporslur og bitlinga um allan bæ til að hafa í sig og á.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Framtíð eða Facebook
5.5.2009 | 21:30
Ég hef stundum hrósað ríkisstjórn Jóhönnu forsætis fyrir aukið upplýsingastreymi. Hún á það hrós skilið.
En það er hinsvegar alveg rétt sem þau Steingrímur voru að segja á blaðamannafundi sínum í dag að það þarf að kynna betur fyrir fólki þær leiðir sem fólki í vandræðum bjóðast nú. Þegar maður skoðar listann þá sýnist augljóst að langflestir muni fá einhverja úrlausn - nema náttúrlega þeir sem vilja sleppa við að borga skuldir sínar með öllu.
Fjölmiðlar hafa ekki gert alveg nóg í að útskýra þessa möguleika alla en lagt meira pláss í uppslætti um vitleysisgang og öfgadæmi örfárra einstaklinga. Og almenningur er greinilega ekki nærri nógu duglegur við að leita eftir upplýsingunum, til dæmis á www.island.is, enda virðist fólk vera of önnum kafið á Facebook og YouTube til að sinna ómerkilegri málum á borð við framtíð sína og barna sinna.
Og ógnarlega sterkur er sá grunur minn að margir þeir sem nú eru í hvað mestum vanda (ekki allir, en margir) hafi sjálfir komið sér í hann með óvarkárni og með því að gleypa hrátt það sem gekkóar bankanna lögðu á borðið. Hefur ekki alltaf verið ljóst að maður á ekki að taka lán í annarri mynt en þeirri sem maður fær laun í? Hefur ekki alltaf verið ljóst að fólk á venjulegum launum stendur ekki undir greiðslum af tveimur jeppum, nýrri eldhússinnréttingu, Floridaferð og vetrarfríi í Ölpunum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Skuldirnar einar eftir
4.5.2009 | 15:04
Ég var í stórskemmtilegum félagsskap í Búdapest um helgina. Kom þangað síðast fyrir rúmlega 30 árum þegar kommarnir stjórnuðu. Það hefur mikið breyst síðan - en ekki nógu mikið. Búdapest er nokkuð sjúskuð að sjá og efnahagsvandræðin í landinu leyna sér ekki.
Ungverjar hafa verið sérlega óheppnir með foringja. Þeir seldu meira og minna allt sem þjóðin átti - 80% fjármálakerfisins eru nú í höndum Austurríkismanna. Skuldirnar sitja eftir...eins og víðar. Öryggisnet félagslega kerfisins er stórkostlega götótt og fólk hefur varla í sig eða á. Það verður ekki gott ástand þarna austur frá þegar fer að kólna með haustinu og fólk getur ekki borgað rafmagns- og gasreikningana sína.
Ég hitti Kenyamann sem hefur búið í Búdapest í 15 ár. Hann sagði að heimamenn væru of værukærir og að þess vegna væri efnahagsástand í Ungverjalandi verra en í nágrannalöndunum.
Ef maður tekur mið af þjónustu á veitingahúsum í Búdapest er þetta alveg rétt hjá Kenyamanninum. Þar þarf maður að bíða í 2-3 tíma eftir matnum. Þjónustustigið í veitingabransanum virðist vera á svipuðu stigi og í Norður Kóreu, þar sem kartöflurnar eiga til að koma á eftir ísnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Júróvisjónsigur í augsýn!
3.5.2009 | 23:39
Mogginn og fleiri miðlar eru að segja frá því í kvöld að íslenska Júróvisjónflokknum sé spáð góðum árangri í Moskvu - gott ef okkar fólk er ekki talið í hópi fimm sigurstranglegustu þjóða. Það kemur ekki á óvart, svona fréttir birtast á hverju ári og hljóma yfirleitt allar eins.
Mín spá er sú að þessi froða muni magnast talsvert á næstu tveimur vikum eða svo, eða þar til þessari dæmalausu vitleysiskeppni er lokið og hin geopólitísku poppbandalög hafa fengið sitt fram. Þá snúa fulltrúar Ríkisútvarpsins aftur heim, harla sneyptir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)