Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
Eva á nippinu
11.6.2009 | 00:56
Það er ábyggilega satt og rétt hjá Evu Joly að embætti hins sérstaka saksóknara er of veikt, hefur ekki nægilega marga starfsmenn. Og ábyggilega mættu vera fleiri hjá embættinu sem hafa mikla reynslu af erfiðum málum.
Ef mig misminnir ekki sótti í fyrstu enginn um embættið og Ólafur Hauksson var sóttur í annað embætti til að gegna þessu. Það er því augljóslega ekki offramboð í landinu af reynslumiklum saksóknurum.
Og það er ábyggilega rétt hjá bæði Evu Joly og Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara að fjölskyldutengsl hans gera hann vanhæfan í öllu sem hrunið varðar og að það hefur dregist úr hömlu að leysa þann hnút sem Ragna dómsmála gerði í kvöld - en dró svo til baka vegna ummæla Evu í sjónvarpi. Það bendir eindregið til að Ragna ætli að ganga eins langt og hún getur til að koma á móts við norska ráðgjafann.
En það hlýtur samt að vera alveg á mörkunum að lausráðinn ráðgjafi, hversu góður sem hann er, geti heimtað brottrekstur æðstu embættismanna ríkisins - og geri það fyrst í sjónvarpsviðtali en ekki við viðkomandi ráðherra. Einhverjar almennar umgengnis- eða siðareglur hljóta að gilda um svona hluti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Kjánagangur Jónasar
10.6.2009 | 13:43
Þetta er nú meiri dellan með að Sigríður Benediktsdóttir eigi að víkja úr rannsóknarnefnd Alþingis. Og ennþá hlægilegra er að krafan skuli koma frá Jónasi Fr. Jónssyni, fyrrum forstjóra Fjármálaeftirlitsins, sem var langt um síðir látinn fjúka fyrir sinnuleysi og druslugang í starfi.
Það er sosum skiljanlegt að Jónas sé fúll yfir málalokunum og að hann sé spyrtur saman við þá sem komu þjóðinni á aumingjahæli fallinna hagkerfa. En að kvarta í fullri alvöru yfir því að almæltur sannleiki sé reifaður í skólablaði vestur í Ameríku er meira en kjánalegt.
Jónas hefði betur reynt að koma í veg fyrir að fjárglæfrarnir allir fengju að eiga sér stað þegar það var hlutverk hans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gunnar skilur ekki eða vill ekki skilja
9.6.2009 | 20:51
Það kom fátt á óvart í viðtölum við bæjarstjórann í Kópavogi í kvöld. Hann hefur ekkert rangt gert og vísar á hina og þessa um einstök atvik þess skítamáls sem nú er uppi í bænum: fyrirtæki dóttur hans og tengdasonar hefur fengið talsverðar greiðslur fyrir að vinna (og vinna ekki) verkefni sem ekki var úthlutað eftir reglum.
Kostulegast af öllu var að heyra hann segja að afmælisbæklingurinn umtalaði og hálfkláraði væri tilbúinn, það ætti bara eftir að skrifa í hann textann!
Það verður ekki tekið af Gunnari Birgissyni að hann er dugnaðarforkur. En hann ætti samt að fá sér aðra vinnu. Annaðhvort skilur hann ekki ábyrgð sína, sem væri næg ástæða til að vera eitthvað annað en bæjarstjóri, eða þá að hann vill ekki skilja hana. Sem er jafnvel verra.
Með því að neita að bera ábyrgð sjálfur er hann í raun að segja að starfsmenn bæjarins séu slíkar gungur að þeir hafi ekki þorað annað en að láta 'dótturfélagið' komast upp með vond og dýr vinnubrögð og haldið áfram að borga alla reikninga sem bárust.
Varla vilja embættismenn bæjarins sitja undir því - enda ekki ástæða til. Eða hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kurteisleg hústaka
8.6.2009 | 23:48
Klukkan eina mínútu yfir níu, þegar búið var að opna lítinn kjallaraglugga með greiðslukorti (!), voru nokkrar umræður í hópi hústökufólksins um hver ætti að fara inn - hver væri nógu grannur og hver myndi ekki meiða sig á gluggajárnspinna sem stóð upp úr karminum. Stúlka fór og sótti grjóthnullung til að berja pinnann niður en samherjar hennar sögðu umsvifalaust: Nei, nei, þá værum við að skemma! Það vildi hún ekki og grjótið hvarf.
Ungur maður renndi sér svo inn um gluggann eins og ormur og opnaði síðan dyrnar í kjallaranum þar sem haldnir voru dansleikir í mín ungdæmi. (Gott ef unglingahljómsveitin Fjarkar var ekki einskonar húsband þar.)
Þarna voru á að giska 25-30 hústökumenn og konur og svo hópur af vegfarendum sem fylgdust með.
Skyndilega bar að ungan mann með svarta dulu fyrir andlitinu. Hann lagði undir sig gjallarhornið og útskýrði að ef fólk ætlaði að taka hús, þá dygðu engin búsáhöld það tækist ekki nema með ofbeldi.
Ekki var því áberandi vel tekið, sýndist mér.
Engin læti voru og engin átök ef frá er talin mikil óeirð í spólgröðum Dalmatíuhundi sem vildi ólmur komast í litla og fallega tík listmannahjóna sem búa þarna í nágrenninu. Brýnt var fyrir tíkinni að forðast svona dóna alla sína daga.
Svo fóru allir heim og sennilega allir sammála um að Fríkirkjuvegur 11 sé fallegt hús og að aldrei verði friður um að það verði í eigu útrásarvíkingsins Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þjóðin er gullfiskur
6.6.2009 | 21:05
Það er eins og hálf þjóðin sé gullfiskur. Minnið er ekkert.
Á liðnu hausti var orðið ljóst að við yrðum að borga okkur út úr þessu ólukkans IceSave máli. Sem óreiðumenn komu okkur í með stuðningi og leyfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokka (minnir að þetta hafi allt verið um garð gengið þegar Samfylkingin kom að borðinu) og var náttúrlega afleit staða. Helvítis fokking fokk, eins og sagt var.
Ef ég man rétt samþykkti þingið fyrir áramótin að við yrðum að taka þetta á okkur og að reynt yrði að leita samkomulags við Breta og Hollendinga. Þá var miðað við drög niðurstöðu sem lá fyrir og var snöggtum verri en sú sem nú er fengin.
Strax í haust var orðið ljóst að án lausnar á þessu skítamáli fengjum við hvergi hjálp - ekki hjá Rússum, Bretum, Ameríkönum, Norðurlandaþjóðunum eða Kínverjum. Klárið þetta mál fyrst, svo skulum við kannski tala við ykkur, var viðkvæðið. Klárið þetta eða etið það sem úti frýs!
Af hverju lætur fólk þá núna eins og að niðurstaðan komi á óvart? Hvaða skrípalæti eru þetta?
Rangt hjá RÚV
6.6.2009 | 14:02
Fréttastofa RÚV fær skömm í hattinn fyrir fréttirnar af 'heimkvaðningu' kínverska sendiherrans. RÚV fullyrti nokkrum sinnum að sendiherrann hefði verið 'kallaður heim' og gaf sér að það væri vegna heimsóknar Dalai Lama. Þetta var 'samkvæmt heimildum fréttastofu', eins og það var kallað.
Þetta hefur reynst rangt - og nú virðist komið á daginn að í stjórnkerfinu hafi legið fyrir upplýsingar, frá því viku fyrr, að Kínverjar hyggðust skipta út sendiherra sínum. Eða svo sagði Birgitta Jónsdóttir þingmaður í útvarpinu í morgun og hún er bæði í utanríkismálanefnd Alþingis og formaður félags Tíbetvina.
Þetta var svo etið upp af öðrum - nema Vísi.is, sem hafði fyrir því að hringja í sendiherrann og spyrja hann beint.
Ég hef hins vegar ekki orðið var við að RÚV hafi borið þessa röngu frétt til baka. Til að standa undir sínu 70% trausti þarf fréttastofan að skúra málið út. Og kannski að biðjast velvirðingar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ættir í þjónustu ríkisins
5.6.2009 | 13:27
Þó að breski prófessorinn Robert Wade hafi stundum sagt meira en hann hefur haft vit á, þá er það alveg rétt hjá honum að íslenska stjórn- og embættismannakerfið hefur lengi verið gegnsýrt af ættar- og vinatengslum. Vafalaust á það einhvern þátt í hvernig fyrir okkur er komið - fáum, fátækum og smáum, eins og sagt var.
Sumar íslenskar ættir hafa unnið hjá ríkinu kynslóð fram af kynslóð og komið sér þar ágætlega fyrir. Sumir áhrifamiklir stjórnmálamenn síðustu ára hafa hvergi annars staðar unnið en hjá ríkinu. Þeir hafa því vísast aldrei kynnst kjörum og hugsunarhætti þess hluta þjóðarinnar sem lifir sínu lífi utan kerfisins og ættar- og vináttusamfélagsins sem hér hefur öllu ráðið. Auðvitað hefur eitthvað af þessu fólki kosið að fara þessa leið af því að það hefur viljað þjóna almenningi, en sennilega ekki allt.
En kannski verður aldri alveg hjá þessu komist: við erum jú ekki nema um 300 þúsund og erum meira og minna öll skyld. Þeim mun frekar er ástæða til að fara varlega í öllum mannaráðningum í opinbera kerfinu og stundum er rétt að menn gjaldi þess hverja þeir þekkja, eru í mægðum við, voru með í skóla eða bíssniss. Úff, ekki síst í bíssniss!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vísir fær skömm í hattinn
4.6.2009 | 11:44
Vísir.is fær skömm í hattinn fyrir að segja frá 10 mánaða fangelsisdómi yfir Lalla Johns. Margir aðrir menn hafa fengið tíu mánaða dóma án þess að fá nafn sitt og mynd af sér í blöðin - en í þessu tilviki er auðvelt að sparka í liggjandi mann.
Ég minnist þess að á Mogganum í gamla daga var viðhöfð sú almenna regla að nöfn dæmdra manna væru því aðeins birt að dómurinn næði 18 mánuðum. Þessa reglu flutti ég með mér á Stöð 2 þegar hún fór í loftið - og þar, eins og á Mogganum, reyndist hún ágætlega.
Mér hefur sýnst að Mogginn geri orðið einhverjar undantekningar frá þessari reglu - önnur blöð virðast nota hina kunnu "hipsumhapp" reglu. Þannig er hægt að níðast á Lalla Johns með góðri samvisku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
‘Allah’ aðeins fyrir múslima í Malasíu
3.6.2009 | 00:56
Malasía stendur að sumu leyti framar flestum öðrum Asíulöndum, einkum efnahagslega. Og svo náttúrlega fyrir matinn þar er dýrlegasta matarval allra landa: kínverskur, malajiskur og indverskur matur, fyrir utan allt hitt.
En að mörgu öðru leyti er Malasía óttalegt afturhaldsrassgat. Þar hafa lengi verið í gildi lög sem setja Malaja ofar hinum tveimur stóru þjóðarbrotunum í landinu, Kínverjum og Indverjum. Malajar hafa haft margvísleg forréttindi, pólitísk, efnahagsleg og menningarleg, því markmið laganna var að tryggja að synir jarðarinnar (bumi putra) yrðu ekki undir í samkeppninni við hina sem hafa orð á sér fyrir að vera vinnusamari. Nýr forsætisráðherra landsins, Najib Razak, hefur nú látið út það boð ganga að þessi lög verði brátt numin úr gildi.
Nýjasti sigur afturhaldsins í Malasíu er að nú hafa Múslimar fengið einkarétt á að kalla Guð Allah. Forsagan er sú að kaþólikkar í landinu fóru á síðasta ári að nota Allah um Guð enda á það hugtak sé miklu lengri sögu en Islam. Múslimarnir fóru í mál og hafa nú unnið það einkum á þeirri forsendu að það geti ruglað fólk í ríminu ef kristnir menn kalla líka sinn guð Allah.
Upplýstir múslimar vita náttúrlega að það sem Islam, Gyðingdómur og kristni eiga sameiginlegt er að trúa á einn guð og að hann sé sá sami fyrir alla. En þótt þetta skipti máli í huga forpokaðra embættismanna í Malasíu, þá vitum við hin að Guð, Jahve og Allah eru eitt og hið sama.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)