Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
Höfuðblað í vanda
24.9.2009 | 22:23
Ráðning Davíðs Oddssonar til að ritstýra Morgunblaðinu kom mér á óvart. Ég hélt að hann myndi ekki kæra sig um djobbið og að stjórn blaðsins myndi telja skynsamlegt að velja fagmann sem ekki vekur þær tilfinningasveiflur með þjóðinni sem Davíð gerir.
Það sem Mogginn, höfuðblað Íslands um langt árabil, þarf á að halda núna er að haldið verði áfram að fjalla um áföll síðustu missera á svo ágætan, gagnrýninn og opinskáan hátt sem var í of skammvinnri ritstjóratíð Ólafs Stephensen. Söm er þörfin þjóðarinnar; síst af öllu þurfum við á meiri úlfúð að halda nú um stundir, nóg er nú samt.
En auðvitað er rétt að hinkra og sjá til hvernig Davíð tekst til. Vonandi tekst að leggja eitthvert mat á störf hans án þeirra a) froðufellinga eða b) hallelúja-söngs sem venjulega er upphafinn þegar sá maður á í hlut.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mogginn er búinn að vera
22.9.2009 | 14:50
Það skiptir engu máli úr þessu hver verður nýr ritstjóri Morgunblaðsins. Mogginn er búinn að vera - varð það um leið og Sveinn Andri Sveinsson og Hallur Magnússon tilkynntu hátíðlega að þeir væru búnir snúa baki við blaðinu.
Það er a.m.k. ekki hægt að draga aðra ályktun af því vægi sem tilkynningar þeirra hafa fengið hjá DV.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fullur aðgangur að Jóhönnu
17.9.2009 | 11:26
Ég er stundum erlendri fréttaveitu innan handar um að afla upplýsinga á Íslandi. Það gengur yfirleitt vel, eða svona eins og gengur yfirleitt í fréttamennsku.
Ég hef ekki átt í neinum vandræðum með að hafa aðgang að Jóhönnu forsætisráðherra. Hún er yfirleitt til viðtals á hverjum þriðjudegi að loknum ríkisstjórnarfundum og er þá fús að svara hverju sem er. Stundum er hægt að ná sambandi við hana í síma (og á því er ég jafnan hissa, jafn önnum kafin og manneskjan hlýtur að vera!).
Það er að vísu rétt að hún færist undan því að eiga viðtöl á ensku, en það hefur ekki truflað mig eða aðra reddara erlendra fréttastofa sem ég hitti hér. Sarkozy Frakklandsforseti talar bara við fréttamenn á frönsku, kínverskir ráðamenn á kínversku og svo framvegis. Ég sé ekkert að því, fólk vill augljóslega frekar tjá sig um flókin mál á eigin tungu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
En hvað með Evu Joly?
14.9.2009 | 21:28
Gott og vel, það er ábyggilega rétt hjá dómsmálaráðuneytinu að Jón Magnússon lögmaður og fyrrum þingmaður geti ekki koma til greina sem saksóknara vegna þess hvernig hann hefur tjáð sig um mál sem vísast lenda á borði þeirra sem skipaðir verða til að fjalla um hrunið. Það verður að gæta þess að menn séu ekki búnir að blotta sig um of áður en þeir fara í hlutleysisfötin.
En hlýtur þetta þá ekki alveg eins að gilda um aðra sem fara með meginhlutverk í rannsóknum og málarekstri gagnvart þeim sem eru taldir hafa fært okkur á aumingjabekk fallinna hagkerfa? Ættu þeir ekki allir að gæta tungu sinnar og segja ekki of mikið fyrr en allar staðreyndir liggja fyrir?
Ég hefði haldið það.
En hvað er þá að segja um Evu Joly, sérstakan ráðgjafa hins sérstaka saksóknara og ákæruvaldsins alls? Er viðeigandi, á meðan mál eru tiltölulega skammt á veg kominn, að hún fullyrði í fjölmiðlum hér heima og erlendis að stórkostlegir glæpir hafi verið framdir og að menn eigi skilið að fara í 150 ára tukthús? Og fullyrða um lagasetningu sem sjálfur dómsmálaráðherrann þekkir ekki til?
Já, en það vita það allir að þessir andskotar eru ótýndir glæpamenn! sagði kunningi minn þegar ég kastaði upp þessum fleti.
Nú, jæja. Þá tekur því varla að vera að kanna og rannsaka til hægri og vinstri og þykjast vera réttarríki. Taka þessa djöfla bara og henda þeim fyrir björg!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Að þekkja sinn vitjunartíma
12.9.2009 | 22:22
Það var virðingarvert af fulltrúa Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabankans að ákveða strax að fara úr ráðinu eftir að uppvíst varð um aukadjobbið sem sýnist hafa verið í beinni andstöðu við hlutverk bankans. Löglegt eða siðlaust - látum það liggja á milli hluta: mestu skiptir að nú um stundir má ekkert það koma upp sem dregur úr trúverðugleika Seðlabankans. Magnús Árni þekkti sinn vitjunartíma.
Og fyrst ég er farinn að hugsa um trúverðugleika og pólitík: óskaplega er raunalegt að fylgjast með Borgarahreyfingunni sem er komin í dauðateygjurnar áður en hún er almennilega komin af fósturstiginu. Það hefðu einhverntíma þótt fréttir til næsta bæjar ef þingmenn - t.d. Sjálfstæðisflokksins - hefðu neitað að taka mark á rétt gerðum lagabreytingum og hótað að segja sig úr flokknum ef ekki væri farið að kröfum þeirra!
Þessi uppákoma öll sýnir að félagsþroski og -reynsla er nauðsynleg fólki sem tekur að sér trúnaðarstörf fyrir félagsskap af hvaða tagi sem er. Og að það er til bóta að þekkja sinn vitjunartíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Pólverjana í gám
11.9.2009 | 16:54
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það vantar mosku í Reykjavík
9.9.2009 | 18:06
Það kom mér á óvart að heyra frá því sagt í sjónvarpi í gærkvöld að á Íslandi væru um 1200 múslímar, þar á meðal falleg menntaskólastúlka sem nú eflir trú sína með því að fasta í Ramadan-mánuðinum. Ég hélt að múslímar hér væru miklu færri.
Mér þykja þetta góðar fréttir, ég hef búið með múslímum í nokkrum löndum og hef bara gott af því að segja - enda eiga trúarbrögð okkar sömu rót og sama uppruna. Múslímar á Íslandi munu ábyggilega auðga mannlífið hér, eins og þeir hafa gert annars staðar. Ofstækismenn eru til í öllum trúarhópum - það er til að mynda álitlegur hópur kristinna ofstækismanna á Íslandi.
En það hefur lengi verið skömm að því að íslenski múslimasöfnuðurinn hafi ekki fengið að byggja sér bænahús eða mosku; manni hefur sýnst að yfirvöld hafi verið að humma þetta fram af sér árum saman án þess að hafa fyrir því góð rök.
'Nýja Ísland' hlýtur að gera þá kröfu að íslenskir múslímar, jafnt sem aðrir, fái aðstöðu til að rækta sitt andlega líf með þeim hætti sem þeir kjósa sjálfir.
Sómakarl er allur
7.9.2009 | 17:24
Það er eftirsjá að Helga Hóseassyni. Ég kynntist honum í kringum 1970 þegar hann smíðaði eldhússinnréttingu í íbúð sem ég leigði af frænda hans. Helgi reyndist vera mesti sómakarl, góður viðræðu og vandvirkur smiður. Hann hafði hinsvegar ekki smekk fyrir músík - taldi allt slíkt bara hávaða.
Ég skrifaði síðar miklar greinar um baráttu hans í Dagblaðið sáluga og reyndi að halda við hann vinsamlegu sambandi. Síðast þegar ég hitti hann á Langholtsveginum var hann orðinn gleyminn og mundi ekkert eftir mér - en kvartaði sáran yfir því að frændinn (íbúðareigandinn forðum) nennti ekki að sinna sér.
Helgi var óvenjulega samkvæmur sjálfum sér í sinni baráttu. Krafa hans var ævinlega sú sama: að þess væri getið í þjóðskrá að hann hefði rift skírnarsáttmála sínum; það gerði hann sjálfur við athöfn í Dómkirkjunni forðum. Hann taldi það beinlínis sögufölsun að Hagstofan léti nægja að skrá hann utan trúfélaga. Ég skildi aldrei hvers vegna þetta var ekki hægt - og skil ekki enn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)