Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
Gullgerð í Landsvirkjun
29.6.2011 | 00:48
Eru fréttirnar af væntanlegum stórgróða Landsvirkjunar ekki eitthvað undarlegar? Og flutningur þeirra í fjölmiðlum sérkennilegur?
Jú, auðvitað. Það kemur nefnilega í ljós að olíuauðurinn miðast við að fyrirtækið tvöfaldi framleiðslu sína á tiltölulega skömmum tíma og selji allt það rafmagn á hærra verði en nú er fáanlegt.
Hvaða della er þetta? Sýnist einhverjum líklegt að Landsvirkjun fái að byggja nýja Kárahnjúkavirkjun, nýja Blönduvirkjun, nýja Sigöldu og hvað þetta nú allt heitir eins og stemningin gagnvart virkjunum er í landinu nú um stundir? Nei, auðvitað ekki. Ekki einu sinni þótt það væri sjálfsagt mál og eðlilegt sem má vel vera. Um þetta spurðu fjölmiðlar ekki á blaðamannafundi stofnunarinnar í morgun.
Ég er satt að segja steinhissa á nýja forstjóranum í Landsvirkjun, sem til þessa hefur sýnst vera réttur maður á réttum stað, að láta frá sér froðu af þessu tagi.
Þetta minnir einna helst á ímyndarskýrsluna ógurlegu sem gerð var á meðan drambið reis sem hæst hér á árunum fyrir hrun. Og kannski ekki alveg að ástæðulausu: forsprakki fyrirtækisins sem gerði skýrsluna fyrir Landsvirkjun nú var silkihúfa í Kaupþingi á sínum tíma þar sem grjót var málað og selt sem gull.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)