Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Þar sem plastpoki er eign

Þegar ég kom fyrst til Eþíópíu í ársbyrjun 1985 var þar mikil hungursneyð. Það var lærdómsrík heimsókn en mest áhrif á mig hafði að uppgötva að plastpoki gat verið eign. Það er þegar maður á ekkert annað, alls ekkert.

Ég kom svo aftur til Eþíópíu fyrir hálfu öðru ári síðan til að taka þátt í úttekt Alþjóðasambands Rauða krossins til undirbúnings viðbragða við hungursneyð sem þá var í uppsiglingu. Nú er hún komin og margir láta eins og hún komi á óvart.

Það ætti ekki að vera. Hungursneyð í Eþíópíu, Sómalíu og norðurhluta Kenya hefur blasað við lengi. Raunar hefur verið viðvarandi matarskortur á þessu svæði um langt árabil. Ástæðan er tiltölulega einföld: efnahagslífið byggir á landbúnaði sem byggir á regni – sem nú bregst ár eftir ár. Milljónir manna á svæðinu draga því fram lífið á matargjöfum frá Vesturlöndum.

Það hræðilega er að svo mun verða áfram þótt einhverjum hundruðum þúsunda nú verði forðað frá bráðum bana með matargjöfum frá örlátum Vesturlandabúum. Þurrkasvæðin bera einfaldlega ekki allt það fólk sem þar býr. Árið 1950 voru íbúar Eþíópíu um 18 milljónir. Nú eru þeir ríflega 80 milljón og fólksfjöldaspár gera ráð fyrir að þeir verði 173 milljónir um miðja öldina (2050). Fólk kýs að eiga mörg börn svo að einhver þeirra lifi og geti stutt foreldrana í ellinni. Það er öryggisnetið sem þriðji heimurinn býr við.

Tökum Norður-Wollo í Amhara-héraði norður af höfuðborginni Addis Ababa. Þarna var „matarkista“ Eþíópíu um langan aldur – bændur í héraðinu framleiddu gnótt matar sem var svo seldur um landið þvert og endilangt. 1974 varð þarna mikill þurrkur. Helmingur alls búpenings féll úr hor og kvart milljón manna varð hungurmorða. Norður-Wollo hefur aldrei náð sér almennilega. Landbúnaðarframleiðsla er lítil en fólkinu fjölgar jafnt og þétt. Og bændurnir hafa of lítið ræktarland: um einn hektara á (0,7 ha á fjallasvæðunum) sem er á við sæmilega einbýlishúsalóð á Reykjavíkursvæðinu. Helmingur landsframleiðslu í Eþíópíu er landbúnaður, 60% útflutningstekna eru af landbúnaði og 80% allra starfa eru í landbúnaði.

Um 16% íbúa Eþíópíu lifa á minna en einum dollar á dag. Í meðalári ná aðeins 65% íbúa í dreifbýli að innbyrða 2200 kalóríur á dag. Nærri helmingur barna undir fimm ára aldri eru undir meðalþyngd. Þrjár af hverjum fjórum fjölskyldum deila svefnrými með skepnunum og nærri helmingur barna sefur á jörðinni þar sem hiti um nætur (á kalda tímanum) fer niður í fimm gráður. Meðal fjölskyldan telur 6-7, býr í 30 fermetra hreysi og getur ekki aflað sér matar á þeim skikum sem hún hefur. Þessi lága framleiðni leiðir svo til hungurs, vannæringar og sjúkdóma. Lífslíkurnar í sveitunum í Eþíópíu eru 48 ár. Aðeins einn af hverjum tíu er sæmilega tryggur með drykkjarvatn.

Í Sómalíu eru ástandið enn verra; í norðurhluta Kenya er ekkert beitiland fyrir hirðingjana sem þar búa. Þurrkarnir í austanverðri Afríku hafa orðið meiri á síðustu árum, regnið kemur á skökkum tíma og veldur stórkostlegum flóðum og enn frekari búsifjum.

Auðvitað eigum við að leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir að hundruð þúsunda blásaklausra öreiga deyi úr hungri á meðan við búum sjálf við ofgnótt. En við eigum líka að horfa fram á veginn – taka fullan þátt í öllum aðgerðum sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og gera þá kröfu til stjórnvalda í Eþíópíu, Kenya og víðar að þær geri þær kerfisbreytingar sem þau hafa margsinnis lofað. Því miður er engar kröfur hægt að gera til stjórnvalda í Sómalíu því þau eru ekki til. Og á meðan deyr fólk – og á ekki einu sinni plastpoka.

Hér er svo viðhengi með meiru sem ég skrifaði fyrir Alþjóðasamband Rauða krossins eftir heimsókn mína til Eþíópíu um áramótin 2009/2010.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óumflýjanlegt

Svo sorglegt sem það er þá gat varla farið öðruvísi hjá Amy Winehouse. Það hefur verið ömurlegt að horfa upp á þessa ótrúlega hæfileikaríku konu deyja hægt en örugglega í beinni útsendingu.

Mér er til efs að annað eins talent hafi komið fram á sjónarsviðið í marga áratugi.

En Bakkus spyr ekki að því, hann gleypir allt sem fyrir verður. 

 


Vafasamar skoðanir

Í núverandi sálarástandi þjóðarinnar getur verið snúið að láta í ljós skoðun á málum. Sumar skoðanir eru óvinsælar og þeir sem þær láta í ljósi eiga á hættu að fá alls konar vitleysinga og æsingamenn yfir sig. Sum mál eiga sér hóp af svoleiðis fólki – og fjölmiðlun dagsins um netið, feisbúkk, twitter og allt það gerir alla að fjölmiðlungum. En svona er þetta og má vitaskuld hver hafa sína skoðun á því.

Ég er að velta einu slíku máli fyrir mér, nefnilega „sanngirnisbótum“ þjóðkirkjunnar til kvenna sem hafa sakað fyrrum biskup um kynferðislegt ofbeldi. Ekki ætla ég að kasta rýrð á frásagnir þeirra; eins og ég hef nefnt áður á þessum vettvangi hef ég enga ástæðu til þess.

Staðreyndin er hins vegar sú að með réttlætisbótunum lýsir þjóðkirkjan því yfir að látinn biskup hafi verið óþokki og eigi sér engar málsbætur. Innanhússrannsókn kirkjunnar hefur að sönnu farið fram og byggir niðurstaða kirkjunnar á henni. Það er þó óneitanlega galli við rannsóknina að meintur brotamaður er látinn og því er, í nær öllum tilvikum, aðeins byggt á frásögn annars málsaðilans. Í fréttum af þessu máli er hins vegar undantekningalaust fjallað um kynferðislegt ofbeldi fyrrum biskups – ekki meint kynferðislegt ofbeldi. Er þar ekki fullmikið sagt?

Réttlætisbætur til handa þeim sem sættu illri meðferð í Breiðavík og á fleiri opinberum stofnunum eru af öðrum toga: þar voru margir til frásagnar, vitni voru leidd fram og studdu  ásakanir og frásagnir þeirra sem ofbeldinu sættu.

Ég vil þó taka fram að mér fannst upphafskona ásakana á hendur mínum gamla biskupi ljúka málinu fyrir sinn part á snyrtilegan og virðulegan hátt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Vonandi tekst henni, og hinum konunum, að vinna sig frá þessum óþverra öllum og eignast sálarró.

En eftir stendur þetta (og í sjálfu sér óviðkomandi máli Ólafs biskups): er ekki eitthvað svolítið skrítið, jafnvel vafasamt, að „sanngirnisbætur“ séu greiddar þegar svona er í pottinn búið? Er ekki eitthvað skrítið á seyði þegar kirkjan borgar sig frá vandanum?

Ekki svo að skilja að þetta sé lengur mín kirkja: ég er hættur í henni fyrir nokkru síðan – en það var út af allt öðru.

 


Vel heppnuð málamiðlun

Ekki verður annað séð en að nýju stjórnarskrárdrögin frá í morgun séu hið ágætasta plagg. Það hefur ekki verið auðvelt að koma þessu saman – hér og þar má lesa málamiðlanir út úr textanum. En þannig er það, það fá ekki allir allt sem þeir vilja. Sennilega eru drögin ekki nákvæmlega að skapi nokkurs Stjórnlagaráðsmanns – en hópurinn hefur engu að síður komist að sameiginlegri niðurstöðu. Það er fínt, til þess var leikurinn gerður.

Sjálfur er ég ekki himnasæll með allt. Mér þykir til að mynda sérkennilegt að sjá að í drögunum er gert ráð fyrir að þingmenn skuli áfram vera 63, eins og nú er. Þarf endilega að binda það í stjórnarskrá hversu margir þeir eiga að vera? Kannski. Kannski ekki. Mig grunar að 63 séu of margir.

Og fyrst ég er byrjaður er rétt að taka til fleiri atriði. Í 12. grein (um upplýsingarétt) segir að stjórnsýslan skuldi halda til haga gögnum „svo sem fundargerðum“. Fundargerðir eru misjafnar og jafnvel gagnslausar: þarna er nauðsynlegt að tilgreina einnig minnisblöð sem oft segja meira um uppruna og sögu máls en fundargerðir.

13. grein fjallar um frelsi fjölmiðla. Þar er talað um „ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra“. Við hvað er átt? Má ég vera viss um að allir hafi sama skilning á því hvað er ritstjórnarlegt sjálfstæði?

Í þeirri 43. er fjallað um að upplýsingar skuli aðgengilegar almenningi um styrki til frambjóðenda og samtaka þeirra sem „bjóða fram í almennum kosningum.“ Á þetta ekki örugglega einnig að gilda um styrki til frambjóðenda í prófkjörum? Ef ekki, þá getum við setið uppi með þingmenn sem hafa komist á lista með stuðningi huldufólks sem þeir þurfa enga grein að gera fyrir.

Drög Stjórnlagaráðsins eiga væntanlega enn eftir að taka einhverjum breytingum – en í heildina tekið sýnist mér, leikmanninum í fjarska, að vel hafi tekist til.

Gott hjá þeim! Nú þarf að kynna málið rækilega og setja það svo í þjóðaratkvæði þar sem sextíu- og þremenningarnir hafa sama atkvæðisrétt og við hin. 

 


Eins gott að það var ekki Iceland Express

Mikið var nú gott að það var Vegagerðin sem var sett í að setja nýja brú á Múlakvísl. Þetta er greinilega hörku fyrirtæki með hörku menn. Það er nefnilega rétt hjá Ögmundi Jónassyni að Vegagerðin vann mikið afrek þarna á sandinum.

Skömm æsingafólks úr ferðabransanum er enn meiri en en áður.

Ég vona bara að þeir Ögmundur og Össur hafi haft þá fyrirhyggju að taka méð sér ölkassa handa mönnunum sem smíðuðu brúna daga og nætur – en gosdrykki handa þeim úr hópnum sem það kjósa frekar.

Jamm, það var gott að þetta var Vegagerðin en ekki Iceland Express!


'Talnaleikfimi' í grundvallaratvinnugrein

Síst vil ég gera lítið úr mikilvægi ferðaþjónustunnar á Íslandi. Gott ef hún skaffar ekki orðið álíka eða meiri tekjur en álið og ef ég man rétt er gert ráð fyrir um 400 þúsund ferðamönnum til landsins á þessu ári. Sennilega ná þær tölur yfir alla þá sem lenda, einnig Íslendinga. Það er fínt – ekki síst ef þessir ferðamenn eru viljugir að taka upp veskið.

En það breytir ekki því sem ég hélt fram hér í gær að hamagangurinn yfir fjögurra daga brúarleysi á Múlakvísl var til skammar.

Bæjarstjórinn á Hornafirði, Hjalti Þór Vignisson, sendi mér vinsamlegt bréf í gærkvöld vegna bloggsins frá í gær, baðst undan skömmum en sagðist vilja koma því til skila að ferðaþjónusta væri ekki aukabúgrein í byggðarlaginu „heldur algjör grundvallaratvinnugrein þar sem fjölmargar fjölskyldur eiga allt sitt undir. Samfélagið í heild á þess vegna mjög mikið undir að vel gangi í ferðaþjónustu.“

Þetta er vafalaust rétt hjá Hjalta Þór. En örfárra daga brúarleysi getur ekki réttlætt allan hávaðann sem ferðabransinn setti í gang um leið og hlaupið hafði skolað burtu brúnni yfir Múlakvísl. Röksemdir þeirra á Hornafirði, sem lesa má út úr bæjarstjórnarsamþykkt þeirra frá á mánudag (sjá hér: http://www.rikivatnajokuls.is/frettir/nr/8718), eru fengnar með nokkurri talnaleikfimi, eins og Bjarni orðar það sjálfur. Í samþykktinni segir m.a.:

Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði er júlí mánuður langt stærsti ferðamánuður ársins, með tæplega 40% af öllum gistinóttum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Samdráttur upp á 50% hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu í þrjár vikur í júlí mánuði telur ekki undir 390 m.kr.

Ekki ætla ég að bregða brigður á útreikninga Rannsóknarseturs HÍ – en varla er það svo að ferðamenn komi eingöngu til Hornafjarðar suðurleiðina. Koma virkilega engir úr hinni áttinni? Og var orðið ljóst strax í hádeginu á mánudag, tveimur dögum eftir hlaupið í ánni, að 50% samdráttur blasti við ferðabransanum á Hornafirði? Ætli það.

Í Fréttablaðinu í dag (http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/110713.pdf) er að finna viðtöl við hótelhaldara á svæðinu beggja vegna Múlakvíslar. Engin leið er að skilja ummæli þeirra svo að allt sé farið fjandans til þótt brúna hafi vantað í örfáa daga. Sárafáir ferðamenn höfðu afpantað gistingar – en einhverjar tilfærslur voru á milli staða, eins og gengur. Sem betur fer – ferðabransinn skiptir okkur öll máli.

Ath: Varð á að rangnefna bæjarstjórann í upphaflegu færslunni. Nú hefur það verið leiðrétt - og Hjalti beðinn afsökunar.


Organdi frekjudósir

Hvernig má það vera að ferðabransinn sé búinn að tapa milljörðum króna á því að brú hefur vantað á Múlakvísl í fjóra daga? Og hvernig skyldi standa á því að þessar yfirlýsingar eru birtar í fjölmiðlum daginn út og inn án þess að þær séu skoðaðar gagnrýnum augum?

Mig grunar að þetta meinta milljarðatap sé að mestu leyti enn ein birtingarmynd þeirrar yfirgengilegu frekju sem hér er allt að drepa. Þetta stenst engan veginn skoðun. 

Ég hef hvergi séð tölur um hversu margir gestir hafa hætt við að koma til Hornafjarðar eða Víkur í Mýrdal. Samt láta hótelhaldarar og sveitastjórnarmenn á þessum stöðum eins og himininn hafi hrunið yfir þá og að peningarnir fljúgi út úr kössunum þeirra. Hvernig er hægt að tapa milljörðum króna á fjórum dögum?

Er ekki allt eins líklegt að erlendir ferðamenn sem hingað koma fái aukaskemmtun af því að fara þá ægifögru Fjallabaksleið nyrðri? Enda hafa verið sagðar af því fréttir að erlendir ferðamenn hafi komið að Múlakvísl og ekki haft hugmynd um að brúin væri farin. Varla voru þeir þá búnir að afpanta hótelherbergi fyrir milljónir króna á Klaustri eða Hornafirði...

Á þessu landi má búast við náttúruhamförum hvenær sem er. Það er stór hluti aðdráttaraflsins að óvissan er alltaf fyrir hendi. Ferðabransinn gerir út á það að verulegu leyti.

Frekjudósirnar í ferðabransanum (og einstaka tækifærissinnaðir pólitíkusar) ættu að orga minna – og þakka fyrir að Vegagerðin er snör í snúningum.


Auðvitað undanþágur!

Það er náttúrlega svívirðilegt að utanríkisráðherrann haldi því fram að ef til vill þurfi Íslendingar ekki undanþágur frá sjávarútvegsstefnu ESB!

Auðvitað eigum við að fá undanþágu! Við erum hetjur af norrænu konungakyni og eigum því guðlega heimtingu á að fá undanþágur frá öllum reglum sem gilda um aðrar og ómerkilegri þjóðir, hvort sem við þurfum á þeim að halda eða ekki.

Og þótt við þurfum ekki undanþágu vegna fiskveiða okkar þá væri engu að síður rétt að banna öllum öðrum þjóðum að veiða fisk í öðrum höfum. Við erum langflottust og eigum því að hafa einkarétt á fiskveiðum.

Um leið ættum við að fá undanþágu frá reglum ESB um spillingu, landbúnað, skólagöngu, lýðræðislega stjórnarhætti, veðurfar og allt hitt.


Aulalegra verður það ekki

Það má vel vera að fréttastofa RÚV (sem áður hét Ríkisútvarpið) hafi sullumbullað í frétt af Landsbankanum og Guðmundi Kristjánssyni kvótagreifa í Vestmannaeyjum (http://www.ruv.is/frett/heldur-hlut-sinum-i-vinnslustodinni).  Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem frétt er klúðrað, hvorki á RÚV né annars staðar.

En Landsbankinn kemur samt hálfu bjánalegar frá málinu með því að gefa út yfirlýsingu um að öll fréttin hafi verið tóm vitleysa – en tilkynna jafnframt að hann muni ekki upplýsa hið sanna í málinu og ber fyrir sig bankaleyndinni (sbr. þetta:  http://mbl.is/frettir/innlent/2011/07/01/alvarlegar_athugasemdir/).  

Aulalegra getur það varla orðið.

Nú þarf tvennt að gerast: Fréttastofa RÚV þarf að fara aftur yfir fréttina og komast að hinu sanna (sé eitthvað að marka leyniyfirlýsingu Landsbankans), og Guðmundur kvótagreifi þarf að stíga fram og útskýra hvernig á því stendur að hann hefur fengið afskrifaða milljarða króna en heldur samt fyrirtækinu sem hann steypti í allar skuldirnar.

Hið þriðja sem þarf að gerast er að Landsbankinn læri að skammast sín.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband