Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
Misheppnuð endurnýjun Alþingis
29.9.2011 | 23:43
Menn eru að tala um nauðsyn þess að endurnýja á Alþingi. Ég segi eins og seiðkerlingin í sögunni af námum Salómóns konungs: Ah, ég hef séð það áður.
Það eru ekki nema rúm tvö ár síðan mikil endurnýjun varð í þingmannaliðinu (þriðjungur nýr, ef ég man rétt) en það sorglega er að sú endurnýjun hefur að mestu reynst misheppnuð. Mig grunar að allt að helmingur þingmanna ætti að vera í annarri vinnu. Vandræðalega margir nýju þingmannanna eiga ekkert erindi á þing, hafa hvorki vitsmuni né félagsþroska í djobbið. Þetta á við um fólk í öllum flokkum en jafnframt eru aðrir sem eru augljóslega áætlega hæfir til starfans.
Augljósust mistökin má sjá í því sem ágætur þingmaður kallar hálftíma hálfvitanna þar sem nokkur skrækihænsn verða sér og löggjafarþinginu jafnan til skammar. En svo eru ýmsir fleiri sem kunna ekki vinnubrögðin og hafa ekki áhuga á að læra þau.
Vinkona mín ein, sem þekkir vel til í pólitíkinni, er hissa á því að ég skuli vera hissa á þessu. Við hverju er að búast þegar sópað er inn óreyndum frambjóðendum kortéri fyrir prófkjör? segir hún.
Félagsmálastarf getur verið vandasamt og það þarf að læra. Best væri náttúrlega að læra grundvallaratriðin áður en menn setjast á þing. Rétt að muna það áður en kosið verður næst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Samsæri andskotans
24.9.2011 | 00:10
Það eru vondar fréttir sem berast af DV að blaðið hafi svikist um að borga opinber gjöld, þar með talda staðgreiðslu starfsmanna sinna, uppá tugi milljóna. DV sjálft myndi sjálfsagt kalla slíka framkomu annarra fyrirtækja þjófnað.
Þetta eru ekki síst vondar fréttir vegna þess að það er þörf fyrir DV. Blaðið hefur að mörgu leyti staðið sig afar vel í flutningi frétta af þeim sem stjórnuðu (og stjórna að talsverðu leyti enn) efnahagslífinu á Íslandi. DV er hinsvegar einnig með sérkennilega og lágkúrulega áráttu sem lýsir sér í rætnu slúðri um nafngreint fólk og endalausum fréttum af einhverju frægu fólki sem hefur í fæstum tilvikum unnið sér annað til frægðar en að vera bjánar. Og orðrétt birting barnaníðsdóms í helgarblaðinu núna er hæpin smekkvísi.
Einvers staðar sá ég haft eftir forsvarsmönnum DV að ein meginskýringin á því að blaðið skuldaði mikla peninga væri sú, að miklu meira fé hefði þurft að verja i lögfræðikostnað en ætlað hafði verið. Það má vel vera rétt en það eru þá jafnvel enn verri tíðindi en þau að skattgreiðslur starfsmanna séu notaðar í reksturinn.
Þetta eru alvarlegri fréttir en manni kann að virðast við fyrstu sýn: raunar stórhættulegar lýðræðinu og opinni samfélagsumræðu. Útrásarvíkingarnir og þeirra hyski hika nefnilega ekki við að draga DV fyrir dómstóla í tíma og ótíma; þeir eiga nógan pening og munar ekkert um að henda einhverjum milljónum í að drepa DV í nafni siðbótar og réttlætis. Svei því samsæri andskotans!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Munnræpa lágkúrunnar
19.9.2011 | 12:19
Guðmundur Andri Thorsson er sennilega ritfærasti maður á Íslandi. Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir hann um þá ótrúlegu lágkúru sem við höfum mátt búa við að undanförnu.
Lesið þetta: Og munnræpan mun ríkja ein.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skýrsla til heimabrúks
17.9.2011 | 22:57
Undarlegt fyrirbæri, skýrslan um skaðann sem hlaust af því að Bretar skyldu beita ákvæðum hryðjuverkalaga gegn íslenskum bönkum í október 2008. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að tjóninu megi jafna til fimm þúsund milljóna íslenskra króna og að það sé á ábyrgð Gordons Brown og Alastairs Darling. Í inngangi skýrslunnar segir orðrétt:
Í skýrslunni er tekið fram að fyrirtækin sjálf segjast með engu móti geta metið eigið fjárhagslegt tjón af völdum þessara þátta þar sem erfitt er að skilja það tjón frá öðrum þáttum hrunsins. Því þarf að byggja fjárhagslegt mat á hagstærðum og samkvæmt slíku mati, og öllum fyrirvörum, er heildartjónið metið í skýrslunni á bilinu tveir til níu milljarðar króna með líklegasta gildi nálægt 5 milljörðum. Áhrif laskaðs orðspors eru ekki tekin með í þá útreikninga þar sem tjón af töpuðu orðspori er nánast ómögulegt að meta til fjár.
Síðar segir:
Rauði þráðurinn í skýrslunni eru því ákvarðanir, atburðir, ummæli og umfjöllun sem tengjast beitingu hryðjuverkalaganna með beinum og óbeinum hætti og valdið hafa tjóni hjá íslenskum inn- og útflutningsfyrirtækjum. Ekki er fjallað tjón fjármálafyrirtækja, opinberra stofnana eða annarra nema í framhjáhlaupi.
Talan er sem sé fengin með því að setja puttann upp í loftið og mæla þannig sumt en ekki annað. Engu að síður kann að vera rétt að þetta megi reikna upp í fimm þúsund milljónir. Það er þó bara skítur á priki miðað við þær 85 þúsund milljónir Bandaríkjadala sem útlendir fjárfestar töpuðu á íslensku bönkunum sem voru studdir af þáverandi ráðamönnum okkar fram í rauðan dauðann.
En málið er þetta: þessari skýrslu er greinilega ekki ætlað að vera rök í hugsanlegum málarekstri, eða jafnvel diplómatísku þrasi, við Breta. Hún er eingöngu innlegg í íslenska orðræðu um ekkert. Skýrslan sú arna er nefnilega aðeins til á íslensku og verður ekki þýdd yfir á tungumál sem þeir Brown og Darling skilja, eða svo segir mér fjármálaráðuneytið. Þetta er því einskonar leyniskýrsla, aðeins ætluð til heimabrúks.
Nema að Guðlaugur Þór Þórðarson og félagar hans fimmtán, sem báðu um skýrsluna, komi henni í þýðingu og sendi til London og heimti bætur úr hendi bresku stjórnarinnar. Það væri hið eina rökrétta framhald. En kannski var það aldrei ætlunin...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það breytir engu...
12.9.2011 | 12:30
Það breytir engu þótt Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi meira fylgi en Bjarni Ben í skoðanakönnun um vænlegasta foringja Sjálfstæðisflokksins. Það verður Landsfundur flokksins sem ákveður hver verður formaður.
Þar eru karlar í miklum meirihluta, ekki síst miðaldra karlar héðan og þaðan úr kerfinu, og þeir munu ekki verða ginnkeyptir fyrir því að stelpa utan úr bæ, jafnvel þótt hún bjóði af sér góðan þokka og sýnist öflug, taki formannsembættið af Bjarna Benediktssyni.
Ég er ekki nógu vel að mér í kremlarfræðunum til að skilja alveg hvert þessi hannaða atburðarrás stefnir en það blasir þó við að birtingu tveggja mánaða gamallar skoðanakönnunar er ætlað að hafa einhver áhrif. Það er til að mynda ljóst, að þessi niðurstaða er Bjarna varla gott veganesti á þessum örlagatímum í sögu Flokksins.
Kannski var það markmiðið með birtingu könnunarinnar.
En allt er þetta náttúrlega gert til að efla lýðræðið og gegnsæið...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Snilligáfa
4.9.2011 | 22:48
Fyrir nokkrum dögum sáum við breskan sjónvarpsþátt um sellóleikarann Jacqueline du Pré sem lést allt of ung.
Þegar hún spilaði varð hún eitt með hljóðfærinu og músíkinni og þar sem maður sat dolfallinn og hlustaði varð þetta allt að einu litrófi. Þegar Jacqueline du Pré spilaði var hægt að sjá músík.
Þetta upplifðum við aftur í kvöld á afmæliskonsert Björgvins Gíslasonar í Austurbæjarbíói. Þar fór gítarhetja Íslands fór á kostum í tvo tíma með einvala liði meðspilara. Þegar Björgvin er í stuði, eins og hann var í kvöld, rennur hann saman við hljóðfærið og músíkina og allt verður ein órjúfanleg heild í milljón litum.
Það eru mörg ár síðan ég hef verið á konsert þar sem þessi upplifun tekur öll völd. Það þarf mikinn listamann og stóran persónuleika - snilligáfu - til að gera þetta eins og afmælisbarnið gerði í kvöld og fullur salur þakkaði fyrir sig með því að rísa spontant á fætur og syngja honum afmælissönginn fullum hálsi.
Ó, þvílíkt kvöld!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hví þetta fleipur?
3.9.2011 | 20:45
Það er hárrétt hjá Lilju Mósesdóttur þingmanni að röksemdafærsla forseta lýðveldisins um hugsanleg jarðakaup Huang Nabos á Íslandi er býsna sérkennileg.
Ólafur lætur eins og EES samningurinn skipti engu máli í þessu sambandi - að meðhöndla eigi óskir Kínverja eins og Evrópubúa þegar kemur að jarðakaupum. Auðvitað er það ekki svo: við erum fyrir löngu búin að ákveða að vera í félagi með Evrópu og leyfa Evrópumönnum að fjárfesta hér á sama hátt og okkur er heimilt að fjárfesta hjá þeim. Kína er ekki í Evrópu...bara svo að því sé haldið til haga.
EES samningurinn byggir á gagnkvæmni og það felur í sér að það gilda aðrar reglur um Evrópumenn en aðra þegar kemur að fjárfestingum á Íslandi (eins og í öðrum Evrópulöndum).
Þetta hlýtur forseti lýðveldisins að vita. Hvers vegna fer hann þá með svona fleipur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)