Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
Þjóðin...
29.3.2012 | 00:49
Tvennt:
Ég held að það sé góð hugmynd að viðhafa þjóðaratkvæði um stjórnarskrárdrögin - vegna þess að þau eru skjöl í vinnslu, eins og Birgir Ármannsson orðar það. Einmitt þá: því skyldi ekki þjóðin sjálf hafa eitthvað um þetta ferli að segja? Ekki hefur þinginu tekist að koma þessu máli áfram - fyrr en kannski núna.
Og svo hitt: ekki er ég alveg sáttur við þá kröfu LÍÚ að við lagfæringar á kvótakerfinu eigi að hafa hagsmuni greinarinnar í fyrirrúmi. Er þetta ekki einhver misskilningur? Eiga ekki hagsmunir þjóðarinnar að koma fyrst? Eða eigum við ekki fiskinn í sjónum öll saman? Auðvitað á að taka tillit til hagsmuna greinarinnar en hún á ekki að ráða för.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dýrkun hrottanna
23.3.2012 | 14:02
Allt er breytingum undirorpið - líka lögin og framkvæmd þeirra. Nú er komið á daginn að gæsluvarðhaldsfangar - fólk sem á að vera í einangrun svo það geti ekki haft samband út og suður - má veita blaðaviðtöl, sbr. þetta sem DV segir frá í dag.
Veit ríkislögreglustjórinn af þessu? Eða lögreglustjórnn á höfuðborgarsvæðinu? Eða sjálfur dómsmálaráðherrann?
Kannski má þetta núorðið. Hvað veit ég?
Hitt þykist ég vita að það getur ekki verið heilsubætandi að fjalla um hættulega ofbeldismenn, sem nú eiga að vera í einangrun, eins og þeir séu einhverjar hetjur. DV hefur dálítið verið að gera að því - eða er ég eini maðurinn sem hefur hikstað yfir glaðbeittum fermingardrengjamyndum af hrottum á borð við Jón "stóra", Annþór handrukkara og fleiri?
Það er ekki skrítið að það fjölgi stöðugt í þessum óþverragengjum. Ekki nóg með að þar fái ungir bjánar útrás fyrir ofbeldisþörf sína, þeir geta líka orðið frægir í DV!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sleikmeistarar
15.3.2012 | 23:46
Sigga Dögg kynfræðingur segir frá því í grein í Fréttablaðinu í dag að á meðan hún vann í fjármálatæki fyrir Hrun hafi skrifstofupartí verið öflugur vettvangur undirmanna til að fara "í sleik" við yfirmenn. Eða öfugt.
Mér þykir þetta ekki mikið. Ég þekki ólygna unga konu sem var við eftirlit á grunnskólaballi á dögunum. Þar var mikið farið í sleik, segir hún mér, enda þetta árlega ball kallað sleikballið.
Viltu fara í sleik við vin minn? var kannski spurt. Ókei. Og svo smullu þau saman í sleik og fóru síðan hvort í sína áttina.
Mér er sagt að á þessu sama balli fyrir ári síðan hafi verið sett met: einn nemandi fór í 54 sleika á sama ballinu. Hann á væntanlega glæsta framtíð í fjármálageiranum.
Dægurmál | Breytt 16.3.2012 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Doh!
1.3.2012 | 22:29
þessi frétt var á RÚV vefnum í kvöld:
Einar K. Guðfinnsson og þrettán aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og utan flokka hafa lagt fram tillögu á Alþingi um aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs. Vilja þingmennirnir að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi. Segja flutningsmenn að því hafi verið haldið fram að með því samstarfi, sem nú fari fram á grundvelli EES samningsins, hafi Íslendingar takmörkuð áhrif og megi lúta því að taka við tilskipunum og ákvörðunum frá Evrópusambandinu án þess að geta lagt mikið til málanna. Því þurfi að breyta.
Doh! Auðvitað! Auðvitað er betra að vera við borðið en á biðstofunni. Segir sig sjálft.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)