Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012
Enginn er fyndnari en Guðni
16.4.2012 | 15:13
Það er talsverð kúnst að flytja skemmtilegar tækifærisræður, svo ekki sé nú talað um að vera svo skemmtilegur að fólk veltist um af hlátri. Það er fáum gefið. Skemmtilegasti maður sem ég heyri flytja tækifærisræður er Guðni Ágústsson fyrrum ráðherra. Hann getur verið alveg drepfyndinn.
En aldrei hefur hann verið eins fyndinn eins og þegar hann segir í viðtali við DV í gær að forseti lýðveldisins hafi verið eini maðurinn sem hafi þorað að rísa gegn fjármálavaldinu. Ég er búinn að fá magaverk af hlátri yfir þessu, ef ekki bara magasár. You're killing me, eins og þeir segja fyrir westan. Bara ef Rannsóknarnefnd Alþingis hefði haft snefil af kímnigáfu Guðna Ágústssonar þegar hún sagði sína eigin brandara í Skýrslunni góðu:
Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H.C. Andersen. Ljóst má vera að forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim eins og hann hefur sjálfur viðurkennt nokkrum sinnum eftir hrunið.
Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli... Þrátt fyrir að kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina.
DV segir svo frá um helgina: Þá gagnrýnir nefndin að forsetinn hafi margsinnis þegið boð útrásarfyrirtækja um að vera við opnun nýrra útibúa eða höfuðstöðva erlendis. Hann hafi flutt erindi á viðskiptaþingum sem voru skipulögð af bönkum og skrifað fjölda bréfa í þágu fyrirtækja og einstaklinga til erlendra viðskiptamanna. Nefndin segir að það samræmist illa hlutverki þjóðhöfðingja að hann gangi beinlínis erinda tiltekinna fyrirtækja eða einstakra fjárfesta. Útrásarmenn hafi verið tíðir gestir í boðum á Bessastöðum og jafnvel verið skipulögð sérstök boð fyrir þá og fyrirtæki þeirra.
Nei, nú er komið nóg, Guðni Ágústsson. Maður verður að fá tíma til að anda á milli brandaranna hjá þér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Falleraðir ráðherrar í fýlu
2.4.2012 | 23:27
Ég lenti í úrtaki skoðanakönnunarinnar 2009 sem vitnað hefur verið til í kvöld - þegar ríkisstjórn Geirs Haarde var í andarslitrunum. Ég kaus ekki þá stjórn (frekar en aðrar) en man eftir að hafa svarað því til að ég styddi þá ríkisstjórn - ekki vegna þess að ég væri hrifinn af henni heldur vegna þess að ég sæi ekki að maður ætti aðra kosti í stöðunni: allt var á beinni leið til fjandans og þá fannst mér ósanngjarnt að sparka í liggjandi fólk.
Svo var sem betur fer skipt um stjórn sem síðan hefur mokað skítinn daga og nætur við litlar vinsældir og enn minni þakkir. Það eru ekki nema þrjú ár síðan - og nú er endurreisnarstjórnin í svipaðri stöðu. Að mörgu leyti getur hún sjálfri sér um kennt. Ástandið þar innanbúðar virðist vera hið sama og úti í samfélaginu: hver höndin upp á móti annarri og þegar einn talar í austur talar sá næsti í vestur eða út og suður (sem er raunar algengara). Og þegar stokkað er upp í ríkisstjórninni, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur kerfisbreytinganna sem verið er að gera, þá eru falleruðu ráðherrarnir umsvifalaust komnir í bullandi fýlu og stjórnarandstöðu og eru með tóma stæla. Það þarf engin nöfn að nefna hér! Þetta er náttúrlega enginn manér en sýnir hvað þetta eru litlir karlar.
Ég hef áður nefnt það hér að endurnýjunin á Alþingi í kosningunum 2009 hefur reynst fullkomlega misheppnuð. Það er rétt hjá Davíð Oddssyni í viðtali við skólablað Verzló að það er óvenju lélegt núna mannvalið á þingi og vitsmunalegar umræður þar fágætar, svo ekki sé meira sagt. Það er þinginu sjálfu að kenna og því ekki að undra að ekki nema tíundi hver kjósandi beri traust til stofnunarinnar sem er náttúrlega hrikalegt ástand og hættulegt. Það ástand batnar ekki fyrr en menn hætta að moka stöðugt yfir þá sem eru þó að moka flórinn. Það gildir um Alþingi og það gildir um okkur hin.
Sanngirni er nefnilega af hinu góða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)