Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013
Ari fattar þetta ekki
22.2.2013 | 08:21
...varðandi afskipti af einstökum fréttum eða það að stjórn félagsins eigi ekki að hafa nein afskipti af ritstjórnarvinnu að þá er ég alls ekki sammála því að það sé svo. Auðvitað er það stjórnar þessa fyrirtækis að ákveða það hvers lags miðla við viljum gefa út. Þess vegna er eðlilegt að stjórnin tali til miðlanna með almennum hætti og helst með skriflegum hætti. Það er það sem við teljum okkur hafa gert með siðareglum sem stjórn félagsins setti í júní 2009 fyrir allar ritstjórnir 365 miðla.
Ari Edwald í Mbl. 21. feb. 2013.
Það er vitaskuld rétt hjá Ara Edwald að það er hlutverk eigenda og stjórnenda fjölmiðla að ákveða hvers konar fjölmiðla þeir vilja reka. Það er einnig rétt hjá honum að það sé eðlilegt að stjórnin tali til miðlanna með almennum hætti.
En hann flaskar á hinu raunverulega grundvallaratriði frjálsrar fjölmiðlunar þegar hann segir jafnframt: ...varðandi afskipti af einstökum fréttum eða það að stjórn félagsins eigi ekki að hafa nein afskipti af ritstjórnarvinnu, að þá er ég alls ekki sammála því...
Þarna liggur rökvilla Ara og annarra eigenda 365, rökvilla sem er hættuleg fyrir frjálsa fjölmiðlun og frítt upplýsingastreymi. Eftir að eigendurnir hafa ákveðið hvers konar fjölmiðla þeir hafa rekið og sett ákveðnar reglur um það (eins og t.d. með siðareglunum frá 2009), þá ráða þeir fólk til að sjá um reksturinn væntanlega besta fólk sem er á lausu hverju sinni. Við það á að sitja, ekki síst þegar um er að ræða jafn viðkvæma og félagslega mikilvæga starfsemi og fréttaöflun og miðlun. Ritstjórinn einn verður að fá að ráða hvað er frétt og hvað ekki. Góður ritstjóri metur það á faglegum forsendum blaðamennskunnar, ekki út frá raunverulegum eða ímynduðum hagsmunum eigendanna. Viðskiptafræðingar og sölumenn í markaðsdeildinni eiga að sinna sínu fagi, blaðamennirnir á ritstjórninni eiga að sinna sínu. Stjórnarmenn í raunverulegu eða ímynduðu stríði eiga ekki að ákveða innihald frétta og enn síður ef fréttirnar snúast um þá sjálfa.
Ef eigendurnir eru óánægðir með blaðið sitt (eða útvarps- eða sjónvarpsstöðina) þá geta þeir sem best skipt um skipstjóra. Það gerði Mogginn undir nýjum eigendum og hafði til þess fullan lagalegan rétt. Eigendurnir ráða þá einhvern í staðinn sem þeir telja að muni fylgja fram hugmyndum þeirra. Hættan er þá vitaskuld sú, eins og dæmin sanna, að hugmyndir eigendanna um hagsmunavörslu stangist á við eðli fréttamennsku og frjálsrar fjölmiðlunar. Lesendur eru ekki fífl, þeir eru fljótir að átta sig á því hvort ástæða er til að taka fjölmiðil alvarlega og fjölmiðill sem ekki er tekinn alvarlega (fyrir sinn hatt, hver sem hann kann að vera) á sér ekki gifturíka framtíð.
Ritstjórnarlegt frelsi er nefnilega ekki bara frasi fyrir hátíðarræður, það er hluti af sjálfum grundvelli lýðræðissamfélagsins. Það er vont ef stjórnendur fjölmiðla fatta það ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)