Færsluflokkur: Dægurmál
Það er ljótt að ljúga
21.4.2009 | 18:16
Öll voru upphefð kemur að utan, var einhverntíma sagt. Þetta má enn til sanns vegar færa.
Nú eru Sjálfstæðismenn arfavitlausir yfir því að sendiherra Evrópusambandsins sagði hugmynd þeirra um að taka upp evru í samvinnu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn tóma dellu.
Það þurfti sosum ekki sendiherra EBS til að segja manni þetta maður þarf ekkert að vera sérstaklega vel að sér um málefni ESB eða AGS til að sjá í hendi sér að þetta er delluhugmynd.
En þetta sagði enginn hér með jafn afdráttarlausum hætti og sendiherrann í Osló. Og þess vegna eru Bjarni Ben og hans menn sjóðandi illir. Skiljanlega.
Það ætti frekar að þakka sendiherranum fyrir að tala skýrt. Á sama hátt ætti að þakka Katrínu Jakobsdóttur aftur fyrir að segja berum orðum að auðvitað þurfi að hækka skatta hér og skera niður í opinberri þjónustu. Nema hvað?
Hver sá sem heldur öðru fram er að ljúga. Það er ljótt að ljúga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Húsameistari Kópavogs, ekki meir!
20.4.2009 | 00:19
Það eru góðar hliðar á öllum vondum málum. Til dæmis eru nú allar líkur á að ekkert verði úr byggingu mikillar óperuhallar á Borgunum í Kópavogi en sú hugmynd kemur úr smiðju bæjarstjórans hér sem aldrei má sjá grænan blett sem hann vill ekki byggja á. Og byggja stórt og mikið með mörgum gröfum og krönum og steypubílum og hvað þetta allt heitir.
Borgirnar, þar sem Kópavogskirkja stendur, eru náttúruvætti. Fyrr á tímum, þegar framsýnt fólk stjórnaði bænum, þá tók það þennan stað frá fyrir kirkju og ætlaðist ekki til að þar yrði meira byggt. Svo kom Gerðarsafn og Tónlistarhúsið (með Salnum) ofan á brúna yfir Hafnarfjarðarveginn og þá var þetta orðið ágætt. Hvort tveggja falleg hús og falla ágætlega í umhverfið - en nóg komið, engu að síður.
Verðlaunatillagan um óperuhúsið er að vísu glæsileg - en það væri allt að því glæpsamlegt að setja þá byggingu þarna niður. Það er nóg pláss í Kópavoginum (að vísu aðeins austanverðum) undir svona monthús (þótt það yrði fallegt á öðrum stað).
Svo fýkur bæjarstjórinn í næstu kosningum (nóg er af vafasömum stjórnunarháttum hans sem sjá munu til þess!) og þá kemur kannski aftur framsýnt fólk til starfa í bæjarstjórninni.
Verst að það fær sjálfsagt aldrei tækifæri til að líta upp úr skuldasúpunni sem byggingaglaði bæjarstjórinn skilur eftir sig.
Ómerkilegur hagsmunagæslulýður
17.4.2009 | 21:49
Ef ég væri betur að mér um þingsköp Alþingis myndi ég kannski skilja hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn gat haldið þinginu í stjórnlagagíslingunni dögum saman - og fá svo málið blásið út af borðinu. Hvers vegna gat ekki stjórn með tryggan meirihluta komið þessu lengra? Er ekki eitthvað athugavert við svona fundasköp?
Hvað gefur minnihluta á þingi - sem nú um stundir hefur í mesta lagi fjórðungs fylgi með þjóðinni - heimild til að gefa manni langt nef og segja manni að éta það sem úti frýs? En ég er ekki vel að mér um þingsköpin og verð því að láta mér nægja að vera ergilegur og hneykslaður yfir þessum málalyktum.
Ég hef verið fylgjandi hugmyndum um stjórnlagaþing og persónukjör af þeirri einföldu ástæðu að ég treysti ekki flokkunum. Atburðir undanfarinna daga hafa síður en svo breytt þessari afstöðu minni. Það er að vísu margt ágætt fólk á þingi - en innanum er samansúrraður og ómerkilegur hagsmunagæslulýður sem á ekki skilið að fá kosningu til eins né neins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Gullsvindlið mikla
14.4.2009 | 20:26
Ég datt niður á nýlegt vikublað þar sem reykvískur gullkaupmaður sagðist kaupa gull af fólki fyrir þúsundkall grammið. Þetta bræðir hann svo niður og er harla glaður.
Hann má vera það. Vestur í Ameríku eru gullkaupmenn að kaupa gull til niðurbræðslu á þúsund dollara únsuna. Amerísk únsa er rétt rúmlega 28 grömm sem þýðir að grammið þar er keypt á um 4400 krónur miðað við gengi dagsins.
Ég býðst hér með til að kaupa gull til niðurbræðslu á 1200 krónur grammið!
Póst & síma aftur!
13.4.2009 | 01:23
Ég var að horfa á skondna þætti í bresku sjónvarpi - um fúla unga menn og úrilla eldri menn (sem flestir voru á mínum aldri). Ég var stundum sammála báðum.
Þar kom að þeir fóru að tala um hvað póst- og símaþjónustan í Bretlandi væri orðin léleg. Þá varð ég úrillur eldri maður, því ég átti svo auðvelt með að heimfæra þetta upp á Ísland. Ég hef verslað við bæði Símann og Vodafone og hef alltaf á tilfinningunni - sérstaklega þegar ég fæ reikningana (sem engin leið er að skilja) - að það sé verið að ræna mig og narrast að mér. Og pósthúsin? Drottinn minn dýri, það er engin leið að finna þau lengur!
Nú vona ég að bæði Síminn og Vodafone fari á húrrandi hausinn. Þá er von til að ríkið endurreisi Póst & síma - sem að vísu veitti ekki allra bestu þjónustu í heimi en var þó skárri en þessi diskófélög sem nú eru að svína á manni daga og nætur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ekki mark á þeim takandi
11.4.2009 | 21:26
Þetta subbulega 'styrkjamál' Sjálfstæðisflokksins sýnist þá vera upplýst - þ.e. hver bað um peningana, fyrir hvern, að undirlagi hvers og hver tók svo við þeim. Eftir sem áður eru uppi grunsemdir um að það hafi verið einhver tengsl á milli þessara fjármagnsflutninga og þátttöku Flokksins í REI-samsærinu. Ég set traust mitt á rannsóknarnefnd þingsins í því sambandi.
En orðspor Geirs Haarde og Kjartans Gunnarssonar er ekki mikils virði eftir þetta. Þegar greiðslurnar voru komnar í hús héldu þeir áfram að tala eins og þeir væru heilagir menn en ekki spillikettir nýbúnir að svína á anda lagasetningar sem þeir hreykja sér af að hafa haft forgöngu um. Hví skyldi maður taka mark á þeim í framtíðinni?
Hins vegar sýnist manni að Bjarni Benediktsson hafi komið þokkalega út úr þessu - a.m.k. ef marka má frammistöðu hans í sjónvarpsviðtölum í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Er spilling í leyni betri en önnur?
10.4.2009 | 21:21
Það er eiginlega ekki annað hægt en að kenna svolítið í brjósti um Sjálfstæðisflokkinn sem nú er lentur í óvæntum hremmingum á versta tíma og, að því er virðist, að talsverðu leyti vegna innanmeina.
Nú keppast forustumenn flokksins um að sverja af sér það mikla ódæði að hafa skaffað mikinn pening í kassann. Öðruvísi mér áður brá!
En það kostulega er náttúrlega að þangað til upp komst um þessar meintu mútur, eða hvað þetta nú var, þá var allt í himnalagi! Það var ekki fyrr en menn voru teknir í bólinu að málið varð 'mjög alvarlegt fyrir Flokkinn'.
Spilling í leyni er ekkert betri en spilling fyrir opnum tjöldum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nóg komið af fýluþrasi
8.4.2009 | 20:30
Ég hef verið að furða mig á málþófi Sjálfstæðismanna í þinginu undanfarna daga og er orðinn sannfærður um að atgangur þeirra er alvarlega misráðinn. Hreint ekki til að efla álit Flokksins.
Um tíma var ég farinn að halda að ég hefði misst af einhverju að þeir væru að ræða einhverjar svo stórkostlegar breytingar á stjórnarskrá og stjórnskipan landsins, að um líf eða dauða væri að tefla. Svo er þó ekki, eins og ég sá þegar ég skoðaði skjöl í málinu á vef Alþingis.
Stjórnarfrumvarpið sem veldur öllu þessu harðlífi er í fjórum liðum: að náttúruauðlindir séu þjóðareign; að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi um stjórnarskrárbreytingar; að hægt sé að vísa stórmálum til þjóðaratkvæðis; og loks að kalla skuli saman sérstakt stjórnlagaþing (bráðabirgðaákvæði).
Þetta er nú allt og sumt! Hver getur verið á móti þessu? Hvað er að þessum augljósu og sjálfsögðu umbótum?
Jú, það virðist vera þetta með stjórnlagaþingið.
Flokkurinn má nefnilega ekki heyra á það minnst, enda hlutverk Alþingis að setja þjóðinni stjórnarskrá.
Ah, vandinn er sá, kæri Flokkur, að þingið hefur trekk í trekk heykst á að gera það. Þess vegna er það rétt hjá Jóhönnu forsætis, að það þarf að taka þennan kaleik frá stjórnmálaflokkunum og færa hann þjóðinni. Enda er fullreynt að flokkunum er ekki treystandi til þess.
Sjálfstæðismenn ættu að sjálfsögðu að hegða sér í samræmi við aldur sinn og menntun, hætta þessu fýluþrasi og afgreiða málið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvaða bjánagangur er þetta?
6.4.2009 | 22:49
Ég er einn örfárra Íslendinga sem ekki eru á Facebook. Sé ekki alveg til hvers ég ætti að vera það. En stundum frétti ég af einhverju sem þar er að finna. Nú síðast hjá einhverjum sem kallar sig 'Ingaló Líóní' sem er að boða til mótmælaaðgerða gegn Rauða krossinum í fyrramálið (þriðjudagsmorgun) vegna þess að Rauði krossinn sé að svíkja flóttamenn og sé væntanlega þar af leiðandi á mála hjá alþjóðasamsæri zíonista, bankamanna, álfursta og þesskonar pakks.
'Ingaló Líóní' sendi tilkynningu um þetta til 'stuðningshóps aðgerðarsinna' sem ég þekki ekki deili á.
Þar sem mér er málið skylt (er félagi í RKÍ og fyrrum starfsmaður Rauða kross hreyfingarinnar) get ég ekki á mér setið: Hvaða andskotans bjánagangur er þetta eiginlega?!
Fylgjast þau ekkert með, 'Ingaló Líóní' og 'stuðningshópur aðgerðarsinna'? Eru þau ekki læs?
Það myndi ekki kosta þau mikla fyrirhöfn að komast að þeirri niðurstöðu að það er einmitt Rauði kross Íslands sem annast móttöku flóttamanna og hælisleitenda sem hingað koma og aðstoðar í gegnum allt ferlið. Þetta hefur félagið gert með miklum sóma um árabil.
Stuðningshópi aðgerðarsinna og 'Inguló Líóní' væri nær að fara í bakarí í fyrramálið og færa starfsfólki Rauða krossins vínarbrauð í þakkar- og virðingarskyni heldur en að gera sig að kjánum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
RÚV eitt um kosningahituna
4.4.2009 | 21:41
Það er heldur leiðinlegt að heyra að Stöð 2 hafi ekki efni á að vera með sitt hefðbundna kosningasjónvarp og að RÚV verði eitt um hituna. Þótt eitt kosningasjónvarp sé í sjálfu sér nóg, þá er verra fyrir okkur sem heima sitjum að missa valkostinn og fjölbreytnina. Og það er heldur ekki gott fyrir RÚV að missa samkeppnina - hættan er alltaf sú að þá dragi úr kraftinum.
Enda sagði mér innanbúðarmaður þar í vikunni að hann myndi vel þá tíð þegar Sjónvarpið var eitt á markaði - og að þá tíma vildi hann ekki upplifa aftur.
Það er sosum góður kraftur í RÚV þessa dagana og fréttir þeirra og fréttatengt efni almennt til sóma. Ég er sérstaklega hrifinn af Speglinum þar sem maður hefur oft aðgang að ítarlegri fréttum og fréttaskýringum en hinn hefðbundni fréttatími leyfir.
Og til að gæta allrar sanngirni, þá finnst mér fréttastofa Stöðvar 2 hafa staðið sig ágætlega að undanförnu enda er þar ágætlega mannað. Það er ekki að sjá annað en að valið á nýja fréttastjóranum hafi tekist prýðilega. Og til allrar hamingju fyrir þá stassjón var fallið frá því að kasta Heimi Má á dyr, eins og til stóð í haust.
Ísland í dag er hinsvegar miklu brokkgengara prógramm - og stundum óbærilega gelgjulegt, eins og til dæmis glansmyndin af útrásarvíkingnum í síðustu viku. Ææææ...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)