Færsluflokkur: Dægurmál
Samsæri andskotans
24.9.2011 | 00:10
Það eru vondar fréttir sem berast af DV að blaðið hafi svikist um að borga opinber gjöld, þar með talda staðgreiðslu starfsmanna sinna, uppá tugi milljóna. DV sjálft myndi sjálfsagt kalla slíka framkomu annarra fyrirtækja þjófnað.
Þetta eru ekki síst vondar fréttir vegna þess að það er þörf fyrir DV. Blaðið hefur að mörgu leyti staðið sig afar vel í flutningi frétta af þeim sem stjórnuðu (og stjórna að talsverðu leyti enn) efnahagslífinu á Íslandi. DV er hinsvegar einnig með sérkennilega og lágkúrulega áráttu sem lýsir sér í rætnu slúðri um nafngreint fólk og endalausum fréttum af einhverju frægu fólki sem hefur í fæstum tilvikum unnið sér annað til frægðar en að vera bjánar. Og orðrétt birting barnaníðsdóms í helgarblaðinu núna er hæpin smekkvísi.
Einvers staðar sá ég haft eftir forsvarsmönnum DV að ein meginskýringin á því að blaðið skuldaði mikla peninga væri sú, að miklu meira fé hefði þurft að verja i lögfræðikostnað en ætlað hafði verið. Það má vel vera rétt en það eru þá jafnvel enn verri tíðindi en þau að skattgreiðslur starfsmanna séu notaðar í reksturinn.
Þetta eru alvarlegri fréttir en manni kann að virðast við fyrstu sýn: raunar stórhættulegar lýðræðinu og opinni samfélagsumræðu. Útrásarvíkingarnir og þeirra hyski hika nefnilega ekki við að draga DV fyrir dómstóla í tíma og ótíma; þeir eiga nógan pening og munar ekkert um að henda einhverjum milljónum í að drepa DV í nafni siðbótar og réttlætis. Svei því samsæri andskotans!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Munnræpa lágkúrunnar
19.9.2011 | 12:19
Guðmundur Andri Thorsson er sennilega ritfærasti maður á Íslandi. Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir hann um þá ótrúlegu lágkúru sem við höfum mátt búa við að undanförnu.
Lesið þetta: Og munnræpan mun ríkja ein.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skýrsla til heimabrúks
17.9.2011 | 22:57
Undarlegt fyrirbæri, skýrslan um skaðann sem hlaust af því að Bretar skyldu beita ákvæðum hryðjuverkalaga gegn íslenskum bönkum í október 2008. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að tjóninu megi jafna til fimm þúsund milljóna íslenskra króna og að það sé á ábyrgð Gordons Brown og Alastairs Darling. Í inngangi skýrslunnar segir orðrétt:
Í skýrslunni er tekið fram að fyrirtækin sjálf segjast með engu móti geta metið eigið fjárhagslegt tjón af völdum þessara þátta þar sem erfitt er að skilja það tjón frá öðrum þáttum hrunsins. Því þarf að byggja fjárhagslegt mat á hagstærðum og samkvæmt slíku mati, og öllum fyrirvörum, er heildartjónið metið í skýrslunni á bilinu tveir til níu milljarðar króna með líklegasta gildi nálægt 5 milljörðum. Áhrif laskaðs orðspors eru ekki tekin með í þá útreikninga þar sem tjón af töpuðu orðspori er nánast ómögulegt að meta til fjár.
Síðar segir:
Rauði þráðurinn í skýrslunni eru því ákvarðanir, atburðir, ummæli og umfjöllun sem tengjast beitingu hryðjuverkalaganna með beinum og óbeinum hætti og valdið hafa tjóni hjá íslenskum inn- og útflutningsfyrirtækjum. Ekki er fjallað tjón fjármálafyrirtækja, opinberra stofnana eða annarra nema í framhjáhlaupi.
Talan er sem sé fengin með því að setja puttann upp í loftið og mæla þannig sumt en ekki annað. Engu að síður kann að vera rétt að þetta megi reikna upp í fimm þúsund milljónir. Það er þó bara skítur á priki miðað við þær 85 þúsund milljónir Bandaríkjadala sem útlendir fjárfestar töpuðu á íslensku bönkunum sem voru studdir af þáverandi ráðamönnum okkar fram í rauðan dauðann.
En málið er þetta: þessari skýrslu er greinilega ekki ætlað að vera rök í hugsanlegum málarekstri, eða jafnvel diplómatísku þrasi, við Breta. Hún er eingöngu innlegg í íslenska orðræðu um ekkert. Skýrslan sú arna er nefnilega aðeins til á íslensku og verður ekki þýdd yfir á tungumál sem þeir Brown og Darling skilja, eða svo segir mér fjármálaráðuneytið. Þetta er því einskonar leyniskýrsla, aðeins ætluð til heimabrúks.
Nema að Guðlaugur Þór Þórðarson og félagar hans fimmtán, sem báðu um skýrsluna, komi henni í þýðingu og sendi til London og heimti bætur úr hendi bresku stjórnarinnar. Það væri hið eina rökrétta framhald. En kannski var það aldrei ætlunin...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það breytir engu...
12.9.2011 | 12:30
Það breytir engu þótt Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi meira fylgi en Bjarni Ben í skoðanakönnun um vænlegasta foringja Sjálfstæðisflokksins. Það verður Landsfundur flokksins sem ákveður hver verður formaður.
Þar eru karlar í miklum meirihluta, ekki síst miðaldra karlar héðan og þaðan úr kerfinu, og þeir munu ekki verða ginnkeyptir fyrir því að stelpa utan úr bæ, jafnvel þótt hún bjóði af sér góðan þokka og sýnist öflug, taki formannsembættið af Bjarna Benediktssyni.
Ég er ekki nógu vel að mér í kremlarfræðunum til að skilja alveg hvert þessi hannaða atburðarrás stefnir en það blasir þó við að birtingu tveggja mánaða gamallar skoðanakönnunar er ætlað að hafa einhver áhrif. Það er til að mynda ljóst, að þessi niðurstaða er Bjarna varla gott veganesti á þessum örlagatímum í sögu Flokksins.
Kannski var það markmiðið með birtingu könnunarinnar.
En allt er þetta náttúrlega gert til að efla lýðræðið og gegnsæið...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Snilligáfa
4.9.2011 | 22:48
Fyrir nokkrum dögum sáum við breskan sjónvarpsþátt um sellóleikarann Jacqueline du Pré sem lést allt of ung.
Þegar hún spilaði varð hún eitt með hljóðfærinu og músíkinni og þar sem maður sat dolfallinn og hlustaði varð þetta allt að einu litrófi. Þegar Jacqueline du Pré spilaði var hægt að sjá músík.
Þetta upplifðum við aftur í kvöld á afmæliskonsert Björgvins Gíslasonar í Austurbæjarbíói. Þar fór gítarhetja Íslands fór á kostum í tvo tíma með einvala liði meðspilara. Þegar Björgvin er í stuði, eins og hann var í kvöld, rennur hann saman við hljóðfærið og músíkina og allt verður ein órjúfanleg heild í milljón litum.
Það eru mörg ár síðan ég hef verið á konsert þar sem þessi upplifun tekur öll völd. Það þarf mikinn listamann og stóran persónuleika - snilligáfu - til að gera þetta eins og afmælisbarnið gerði í kvöld og fullur salur þakkaði fyrir sig með því að rísa spontant á fætur og syngja honum afmælissönginn fullum hálsi.
Ó, þvílíkt kvöld!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hví þetta fleipur?
3.9.2011 | 20:45
Það er hárrétt hjá Lilju Mósesdóttur þingmanni að röksemdafærsla forseta lýðveldisins um hugsanleg jarðakaup Huang Nabos á Íslandi er býsna sérkennileg.
Ólafur lætur eins og EES samningurinn skipti engu máli í þessu sambandi - að meðhöndla eigi óskir Kínverja eins og Evrópubúa þegar kemur að jarðakaupum. Auðvitað er það ekki svo: við erum fyrir löngu búin að ákveða að vera í félagi með Evrópu og leyfa Evrópumönnum að fjárfesta hér á sama hátt og okkur er heimilt að fjárfesta hjá þeim. Kína er ekki í Evrópu...bara svo að því sé haldið til haga.
EES samningurinn byggir á gagnkvæmni og það felur í sér að það gilda aðrar reglur um Evrópumenn en aðra þegar kemur að fjárfestingum á Íslandi (eins og í öðrum Evrópulöndum).
Þetta hlýtur forseti lýðveldisins að vita. Hvers vegna fer hann þá með svona fleipur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gítarhetjan stígur loks á svið
30.8.2011 | 20:07
Það er magnaður tónlistarviðburður í uppsiglingu: gítarhetjan Björgvin Gíslason ætlar að fagna sextugsafmæli sínu um helgina með tónleikum á Akureyri og í Reykjavík og senda frá sér um leið þrefalt afmælisalbúm með sólóplötum sínum í nýjum búningi.
Björgvin hefur allt of lítið spilað opinberlega á undanförnum árum að minnsta kosti svo að þess sé getið. Ég hef lengi vitað að hann er mestur allra íslenskra gítarista fyrr og síðar og þeim mun meiri ástæða er til að gleðjast yfir væntanlegum konsertum og afmælisútgáfunni. Hann hefur verið tregur til að spila enda þungt haldinn af veiðidellu og önnum kafinn við að kenna öðrum gítartöfrana.
Við vorum saman í Indlandi í fyrrasumar og duttum inn í hljóðfæraverslun. Þar sat ungur maður í kyrtli og spilaði á sítar. Björgvin gerði sér lítið fyrir, tók annan sítar sem þar var uppá vegg og upphófst eitthvert dýrlegasta sítardjamm sem ég hef orðið vitni að. Indverjinn sagði fátt en alltaf breikkaði á honum brosið eftir því sem á spilamennskuna leið og mátti loks ekki á milli sjá hvor þeirra var heilagri. Myndin hér að ofan var tekin við Taj Mahal í þessari sömu ferð.
Það verða engir aukvisar með gítarkónginum á konsertunum um helgina: krónprinsinn Guðmundur Pétursson á gítar, Ásgeir Óskarsson á trommur, Haraldur Þorsteinsson á bassa, Jón Ólafsson á píanó og Hjörleifur Valsson á fiðlu. Björn Jörundur þenur raddböndin og einhverjir fleiri munu koma fram.
Annars er allt um þetta á heimasíðu afmælisdrengsins sjálfs: www.bjorgvingislason.com
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Burt með þetta fólk!
22.8.2011 | 16:14
Maður verður að vona að ekkert gruggugt hafi verið að baki þeirri ákvörðun að gera óuppsegjanlegan húsaleigusamning fyrir landlæknisembættið. Ég skil raunar ekki hvernig svoleiðis má gerast en maður skilur ekki allt.
Ekki gengur mér betur að skilja hvernig fulltrúar sveitarfélaga geta glaðir skrifað undir samning um stórhækkuð útgjöld og kostnað án þess að hafa minnstu hugmynd um hvaða skuldbindingar þeir eru að leggja á okkur hin. Hér er vísað til nýs kjarasamnings leikskólakennara (sem virtust hafa sovéskt fylgi við kröfur sínar).
Nú viðurkenna launanefndarmenn sveitarfélaganna að þeir hafi ekki grænan grun um hvað samningurinn muni kosta.
Hvaða aulagangur er þetta eiginlega? Hvernig dirfist þetta lið að gera samninga án þess að vita hvað verið er að skrifa undir? Þetta eru okkar peningar peningar venjulegs fólks sem nú sleppur ekki inn í matvöruverslun fyrir minna en tíu þúsund kall!
Voru ekki samningar við leikskólakennara búnir að vera lausir í marga mánuði? Hvað getur verið svona erfitt við að láta reikna út hvað hvert prósentustig þýðir í launakostnaði? Var kannski ekki tími til þess?
Þetta tekur náttúrlega engu tali. Burt með þetta fólk!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sérhagsmunafréttir
3.8.2011 | 21:44
Fréttastofa RÚV sagði frá því í kvöld að bílaverkstæði væru að segja upp samningum sínum við tryggingafélögin vegna þess að þau borguðu ekki nóg fyrir tjónaskoðanir.
Þar með small síðasta púslið í spil sem hefur verið í gangi undanfarna daga. Það hófst með sjónvarpsviðtali við sérfræðing tryggingafélaganna um að allt of mikið væri um að fúskarar gerðu við bíla. Það stefndi öryggi vegfarenda í hættu.
Þetta hefur svo verið endurtekið í fréttum hér og þar og mig var farið að gruna að hér væri í gangi PR átak einhverrar almannatengslastofunnar sem ynni fyrir bílaviðgerðarmenn.
Það kom enda á daginn í kvöld: tilgangur átaksins var sem sé að knýja tryggingafélögin til að borga meira og um leið að fá að hækka taxta bílaverkstæða um 20 prósent, allt í nafni umferðaröryggis. Varla yrði það til að minnka biðraðirnar hjá meintum bílaviðgerðafúskurum...
En þetta sýnir enn og aftur að flestar fréttir af þessu tagi verða til vegna þess að einhver á hagsmuna að gæta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þar sem plastpoki er eign
26.7.2011 | 22:51
Þegar ég kom fyrst til Eþíópíu í ársbyrjun 1985 var þar mikil hungursneyð. Það var lærdómsrík heimsókn en mest áhrif á mig hafði að uppgötva að plastpoki gat verið eign. Það er þegar maður á ekkert annað, alls ekkert.
Ég kom svo aftur til Eþíópíu fyrir hálfu öðru ári síðan til að taka þátt í úttekt Alþjóðasambands Rauða krossins til undirbúnings viðbragða við hungursneyð sem þá var í uppsiglingu. Nú er hún komin og margir láta eins og hún komi á óvart.
Það ætti ekki að vera. Hungursneyð í Eþíópíu, Sómalíu og norðurhluta Kenya hefur blasað við lengi. Raunar hefur verið viðvarandi matarskortur á þessu svæði um langt árabil. Ástæðan er tiltölulega einföld: efnahagslífið byggir á landbúnaði sem byggir á regni sem nú bregst ár eftir ár. Milljónir manna á svæðinu draga því fram lífið á matargjöfum frá Vesturlöndum.
Það hræðilega er að svo mun verða áfram þótt einhverjum hundruðum þúsunda nú verði forðað frá bráðum bana með matargjöfum frá örlátum Vesturlandabúum. Þurrkasvæðin bera einfaldlega ekki allt það fólk sem þar býr. Árið 1950 voru íbúar Eþíópíu um 18 milljónir. Nú eru þeir ríflega 80 milljón og fólksfjöldaspár gera ráð fyrir að þeir verði 173 milljónir um miðja öldina (2050). Fólk kýs að eiga mörg börn svo að einhver þeirra lifi og geti stutt foreldrana í ellinni. Það er öryggisnetið sem þriðji heimurinn býr við.
Tökum Norður-Wollo í Amhara-héraði norður af höfuðborginni Addis Ababa. Þarna var matarkista Eþíópíu um langan aldur bændur í héraðinu framleiddu gnótt matar sem var svo seldur um landið þvert og endilangt. 1974 varð þarna mikill þurrkur. Helmingur alls búpenings féll úr hor og kvart milljón manna varð hungurmorða. Norður-Wollo hefur aldrei náð sér almennilega. Landbúnaðarframleiðsla er lítil en fólkinu fjölgar jafnt og þétt. Og bændurnir hafa of lítið ræktarland: um einn hektara á (0,7 ha á fjallasvæðunum) sem er á við sæmilega einbýlishúsalóð á Reykjavíkursvæðinu. Helmingur landsframleiðslu í Eþíópíu er landbúnaður, 60% útflutningstekna eru af landbúnaði og 80% allra starfa eru í landbúnaði.
Um 16% íbúa Eþíópíu lifa á minna en einum dollar á dag. Í meðalári ná aðeins 65% íbúa í dreifbýli að innbyrða 2200 kalóríur á dag. Nærri helmingur barna undir fimm ára aldri eru undir meðalþyngd. Þrjár af hverjum fjórum fjölskyldum deila svefnrými með skepnunum og nærri helmingur barna sefur á jörðinni þar sem hiti um nætur (á kalda tímanum) fer niður í fimm gráður. Meðal fjölskyldan telur 6-7, býr í 30 fermetra hreysi og getur ekki aflað sér matar á þeim skikum sem hún hefur. Þessi lága framleiðni leiðir svo til hungurs, vannæringar og sjúkdóma. Lífslíkurnar í sveitunum í Eþíópíu eru 48 ár. Aðeins einn af hverjum tíu er sæmilega tryggur með drykkjarvatn.
Í Sómalíu eru ástandið enn verra; í norðurhluta Kenya er ekkert beitiland fyrir hirðingjana sem þar búa. Þurrkarnir í austanverðri Afríku hafa orðið meiri á síðustu árum, regnið kemur á skökkum tíma og veldur stórkostlegum flóðum og enn frekari búsifjum.
Auðvitað eigum við að leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir að hundruð þúsunda blásaklausra öreiga deyi úr hungri á meðan við búum sjálf við ofgnótt. En við eigum líka að horfa fram á veginn taka fullan þátt í öllum aðgerðum sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og gera þá kröfu til stjórnvalda í Eþíópíu, Kenya og víðar að þær geri þær kerfisbreytingar sem þau hafa margsinnis lofað. Því miður er engar kröfur hægt að gera til stjórnvalda í Sómalíu því þau eru ekki til. Og á meðan deyr fólk og á ekki einu sinni plastpoka.
Hér er svo viðhengi með meiru sem ég skrifaði fyrir Alþjóðasamband Rauða krossins eftir heimsókn mína til Eþíópíu um áramótin 2009/2010.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)