Gítarhetjan stígur loks á svið

 gitarhetjan_vi_taj_mahal.jpgÞað er magnaður tónlistarviðburður í uppsiglingu: gítarhetjan Björgvin Gíslason ætlar að fagna sextugsafmæli sínu um helgina með tónleikum á Akureyri og í Reykjavík og senda frá sér um leið þrefalt afmælisalbúm með sólóplötum sínum í nýjum búningi.

Björgvin hefur allt of lítið spilað opinberlega á undanförnum árum – að minnsta kosti svo að þess sé getið. Ég hef lengi vitað að hann er mestur allra íslenskra gítarista fyrr og síðar og þeim mun meiri ástæða er til að gleðjast yfir væntanlegum konsertum og afmælisútgáfunni. Hann hefur verið tregur til að spila enda þungt haldinn af veiðidellu – og önnum kafinn við að kenna öðrum gítartöfrana.

Við vorum saman í Indlandi í fyrrasumar og duttum inn í hljóðfæraverslun. Þar sat ungur maður í kyrtli og spilaði á sítar. Björgvin gerði sér lítið fyrir, tók annan sítar sem þar var uppá vegg og upphófst eitthvert dýrlegasta sítardjamm sem ég hef orðið vitni að. Indverjinn sagði fátt – en alltaf breikkaði á honum brosið eftir því sem á spilamennskuna leið og mátti loks ekki á milli sjá hvor þeirra var heilagri. Myndin hér að ofan var tekin við Taj Mahal í þessari sömu ferð.

Það verða engir aukvisar með gítarkónginum á konsertunum um helgina: krónprinsinn Guðmundur Pétursson á gítar, Ásgeir Óskarsson á trommur, Haraldur Þorsteinsson á bassa, Jón Ólafsson á píanó og Hjörleifur Valsson á fiðlu. Björn Jörundur þenur raddböndin – og einhverjir fleiri munu koma fram.

Annars er allt um þetta á heimasíðu afmælisdrengsins sjálfs: www.bjorgvingislason.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband