Á pöllunum
27.4.2010 | 23:54
Það er mikil hamingja fólgin í því að fá að syngja í góðum kór. Tónlistarmenntunin er eitt hamingjublómið, andlega upplyftingin annað, líkamlega útrásin það þriðja. Og svo að vera í félagsskap líkt hugsandi fólks sem kemur saman til að búa til músík.
Minn kór er Karlakór Reykjavíkur sem þessa vikuna syngur vorkonserta í Langholtskirkju fyrir fullu húsi. Þar stígur fram úr kórnum hver einsöngvarinn á fætur öðrum og syngur eins og engill fyrir framan áttatíu karla. Flestir þessara einsöngvara eru ungir menn og líta ekki út fyrir að vera meira en nýfermdir. En þeir syngja af slíkum náttúrutalent og gleði að maður er eiginlega hálfskælandi á pöllunum af hrifningu og aðdáun.
Góður karlakór er flott og magnað hljóðfæri þegar rétt er á það spilað. Og við í Karlakór Reykjavíkur erum svo lánsamir að hafa í tuttugu ár haft eldkláran og smekkvísan strák fyrir söngstjóra (sem líka sýnist varla nema um fermingu; það hlýtur að vera eitthvað í genunum úr Hólminum sem veldur þessu).
Það er í senn undarlegt og skemmtilegt, þegar komið er á pallana fyrir fullu húsi, að maður finnur á fyrstu sungnu hendingunum hvort kórinn er í góðu formi og hvort salurinn er góður. Þannig var það í kvöld og þá er dýrlegt að syngja. Þá er dýrlegt að vera hluti af áttatíu manna kór sem hefur aðeins eitt markmið á konsert: að láta söngstjórann spila á hljóðfærið eins og honum er einum lagið; með örlitlum höfuð- eða fingrahreyfingum plokkar hann út örlítið meiri bassa hér, aðeins meiri annan tenór þar, aðeins meiri styrk, örlítið minni...og þá verður kórinn, söngstjórinn og salurinn eitt og þetta fer úr því að vera bara músík og breytist í andlega reynslu.
Athugasemdir
Legg til, að í stað siðareglna fyrir þingmenn, verði skylda að syngja í kór. Kór alþingismanna haldi svo tónleika tvisvar á ári og menn verði að segja af sér ef kórinn er falskur.
Það er nefnilega haft fyrir satt, að alltaf sé hægt að synga vel, nema ef samviskan er slæm.
Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 09:13
Þú ert bara dásamlegur! Þetta hefði ég viljað heyra...
Knús til ykkar beggja
Jóhanna Meyer Birgisdóttir (IP-tala skráð) 2.5.2010 kl. 06:57
Sæll vertu og takk fyrir síðast.
Þetta er vel að orði komist. Hafðu þökk fyrir veturinn og sjáumst í haust. Skemmtileg tilvitnun hjá Arnþór, þetta með samviskuna.
Mbk MJ
Mareinn Jónsson (IP-tala skráð) 3.5.2010 kl. 08:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.