Deilurnar að baki

Ég hef verið í Blaðamannafélagi Íslands í fjörutíu ár og þykir vænt um það félag. Það hefur reynst mér vel. Það fór því illa í mig þegar harkalegar deilur um keisarans skegg innan stjórnar félagsins rötuðu í fjölmiðla. Framboð slíkra frétta var að vonum mun meira en eftirspurn.

Svo var haldinn aðalfundur þessa félags í gærkvöld og fór eins vel og hægt var að búast við. Nú mega félagsmenn eiga von á að deilurnar séu að baki og að ný félagsstjórn dragi lærdóm af reynslunni.

Það versta sem fylgdi þessum deilum voru órökstuddar dylgjur um að eitthvað væri gruggugt við bókhald og fjármál félagsins. Á fundinum í gærkvöld kom ekkert það fram sem bendir til að svo sé, þvert á móti.

Ég ætla því að halda því fram hér og nú að leitun sé að verkalýðsfélagi af stærð BÍ sem stendur jafn vel og hefur farið jafn vel út úr hruninu. Staðreyndin er nefnilega sú að með aðgætni í fjármálastjórn hefur Blaðamannafélagið ekki tapað einni einustu krónu á hruninu heldur hafa sjóðir þess eflst og vaxið. Geri aðrir betur.

Svo segi ég ekki meira um þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Billi bilaði

Fyrirgefðu, hvernig geturðu komið með svona einhliða lýsingu á málatilbúnaði, verandi í félaginu, og þar með blaðamaður?

Þú ert að segja að hálf stjórn félagsins hafi verið að dylgja, en kemur með engin rök.

Er það sem sagt lygi að stjórnin hafi ekki fengið þær fjármálaupplýsingar sem hún bað um (og á að kvitta upp á)? Eða ertu að verja það að stjórn sé neitað um þær upplýsingar sem hún ber ábyrgð á?

ES: Ég þekki ekki einn einasta félagsmann í þessu félagi ykkar, en traust mitt á ykkur sem verjið svona mál án allra raka verður minna en almennt traust landsmanna á stjórnmálamönnum.

Billi bilaði, 30.4.2010 kl. 13:05

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Jú, sjáðu til, nafnleysingi. Það liggur þannig í þessu að ég var á aðalfundinum. Ég hlustaði á fólk útskýra mál sitt. Ég hef skoðað framlagða endurskoðaða og áritaða reikninga. Ég tók þátt í að samþykkja þá mótatkvæðalaust. Ég veit hvað ég er að tala um, ekki þú.

Ómar Valdimarsson, 30.4.2010 kl. 14:21

3 Smámynd: Billi bilaði

Sjáðu til, Ómar. Ef þú beitir músinni þinni svo oft sem tvisvar sinnum, þá sérðu nafn mitt. Þú vilt greinilega frekar kalla mig nafnleysingja heldur en að svara spurningum mínum, sem koma, nákvæmlega eins og þú segir, af vanþekkingu.

Það eru lögfræðingar sem eiga að spurja spurninga sem þeir vita svörin við. Við hin spyrjum spurninga sem við vitum ekki svörin við.

Það að þú hafir séð skjöl á aðalfundi og ekki haft athugasemdir við, er allt gott og blessað. Ég hef setið í nokkrum stjórnum, yfirleitt sem gjaldkeri. Ég veit því pínulítið um stjórnarstörf og um upplýsingagjöf. Ég hef fært bókhald fyrir fleiri en eina stjórn, og útbúið ársreikninga og ýmis annars konar uppgjör. Ég tók því eftir þessum deilum, sem ýmsir meðlimir félagsins virðast vilja fela.

Má ég lesa það út úr orðum þínum að hálf fyrrum stjórn blaðamannafélagsins hafi verið að ljúga upp á framkvæmdastjórann, en að það skipti engu máli því að allt var slétt og fellt á aðalfundinum? Var það sem sagt útskýrt á aðalfundinum? Af báðum aðilum eins, þá? Skrifaði sem sagt fráfarandi stjórn undir þessa reikninga sem þú sást, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað? (Eða megum við plebbarnir ekki vita um þetta?)

Kristján Gaukur Kristjánsson (svo að þú þurfir nú ekki að nota músina og fá ótímabæra sinaskeiðabólgu).

ES: Blaðamannastéttin skiptir afskaplega miklu máli í landinu okkar. Ef skítkast er það sem blaðamenn bera fram fyrir okkur, þá fær þetta fjórða vald ekki meira traust en fyrstu 2 völdin.

Billi bilaði, 2.5.2010 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband