Með Everest á vinstri hönd

Nú er besti tími ársins á Íslandi - í rauninni sá tími sem gerir það þess virði að búa hér. Það er eiginlega ómögulegt að koma sér í svefn þegar sólin skín, fuglarnir syngja og kyrrðin færist yfir voginn sem ég bý við.

En nú eru önnur plön. Við erum að fara í ferðalag sem okkur hefur dreymt um lengi: til Nepal og Tíbet í félagi við 10 aðra kæra vini. Ætlunin er að fljúga frá London til Delhi á Indlandi, skreppa til Agra og skoða Taj Mahal og fara svo til Kathmandu í Nepal og eiga þar nokkra daga í upphafi monsúnsins. 

Svo verður flogið til Lhasa í Tíbet (sem stendur í um 3700 metra hæð yfir sjó) og farin landleiðin til baka til Kathmandu á rúmri viku. Þá verður Everest okkur á vinstri hönd þegar farið verður um tignarleg fjallaskörð allt upp í rúmlega 5500 metra hæð yfir sjávarmáli. Sem betur fer eru í hópnum kjarnorkuhjón vön háfjallaferðum sem kunna allt um háfjallaveikilyfin. Læknirinn í genginu sér um helstu bæklunarlækningar og annað smálegt.

Eftir 'heimkomuna' til Nepal er ferðinni heitið til bæjarins Pokhara þar sem náttúrufegurð mun viðbrugðið og Himalajafjallgarðurinn rís eins og veggur fyrir utan glugga gistihússins. 

Það ætti að slaga í íslenska vornótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband