Útreyktir hippar og jógi á viagra

img_0070_1023697.jpg KATHMANDU, NEPAL: Í gegnum borgina renna einar átta ár en þeirra merkust er Bagmati og þangað fórum við fyrst í skoðunarferð um borgina. Við vildum sjá útfararsiði heimamanna: þar á bökkunum brenna þeir jarðneskar leifar hindúanna. Nokkrar slíkar athafnir voru í gangi þennan dag og fleiri í undirbúningi.

Og á steinþrepunum upp af ánni sátu afdankaðir og útreyktir nepalskir hippar sem létu taka af sér myndir fyrir einn dollar.

Það vakti athygli þeirra sem höfðu komið þarna áður að nú mátti sjá konur taka þátt í undirbúningi bálfaranna, slíkt var óþekkt fyrir fáeinum árum.

‘Furðulegt uppátæki að rjúka beint í jarðarför,’ sagði gítarhetjan í hópnum. ‘Myndu Nepalar sem koma til Íslands fara beint suður í Fossvogskirkju til að fylgjast með jarðarför?’

Gítarhetjan lék annars á alls oddi enda nýbúinn að kaupa sér forkunnarfagran og hljómmikinn sítar suður í Indlandi og látið þrjátíu ára gamlan draum rætast. Við höfðum að auki hitt heilagan mann í flugvélinni – indverskan jóga með tugi myndarlegra kvenna (hmm...) með sér að fara í pílagrímsferð til Tíbet. Jóginn var vel fús til að sitja fyrir á myndum og dreifa plöstuðum nafnspjöldum þar sem hann titlaði sig sem hans heilagleika.

Þetta dugði næstum því til að eyða pirringi gítarhetjunnar sem gat ekki fengið almennilegan hamborgara í þessum bæ. Það var ekki eins og ekki væru nautgripir í landinu – þeir voru um allar götur. Bara ekki hafðir til matar.

Kathmandu er óvenju heillandi borg og hefur meiri karakter en flestar borgir í Asíu. Þar eru mörg hundruð ára gömul hof og musteri í stöðugri notkun, hluti af fjölþættri menningu heimamanna í landi þar sem trúarbrögð eru ekki höfð til hátíðabrigða heldur eru órjúfanlegur þáttur daglegs lífs.

Og það er óhætt að mæla með því að koma til Kathmandu utan hins hefðbundna ferðamannatíma (þetta var í júní) – þá er fólksmergðin á götunum viðráðanlegri, verðlag lægra og auðveldara að komast leiðar sinnar.

Á Durbar torgi stöðvaði okkur maður sem spurði hvaðan við værum. Frá Íslandi, sögðum við. Þá fletti hann upp í stílabókinni sinni og sýndi okkur handskrifuð skilaboð á íslensku frá “Connie” sem mælti eindregið með þessum manni sem leiðsögumanni um hverfið.

Enginn er eyland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dingli

Sæll Ómar

Hef alltaf gaman af að lesa velskrifaðar ferðalýsingar frá framandi slóðum. Þó aðeins  smásögubrot sem þetta komist fyrir á bloggi, þá lyftir það huganum augnablik yfir dægurþrasið.

Dingli, 6.9.2010 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband