Leynifélaginn í ESB

BRUSSEL: Þeir segja um Noreg hér að þar fari “leynifélaginn” í Evrópusambandinu. Norskir embættismenn sem við höfum hitt segjast taka þátt í nánast öllum umræðum og bollaleggingum sem fram fara á vettvangi sambandsins – en fari svo fram á gang þegar kemur að því að taka ákvörðun.

Nojararnir láta drýgindalega og segja að samband þjóðar sinnar við ESB sé hið besta og að þeir fái ýmsum hagsmunamálum sínum framgengt með stuðningi vinveittra þjóða. Einn norsku embættismannanna missti þó út úr sér að það væri stöðugt erfiðara fyrir þá að koma sínum sjónarmiðum að.

Norrænu aðildarþjóðirnar eru að sjálfsögðu með öflug sendiráð í Brussel – Svíar, Danir og Finnar. Stærsta sendiráðið reka þó Norðmenn sem hafa hér um 60 manns. Að auki eru hér skrifstofur fyrir alls konar norræn hagsmunasamtök og áróðursfélög og svokallaðir lobbyistar skipta tugum þúsunda. Það er enda ekki að undra, hér eru teknar stórar og smáar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf nærri fimm hundruð milljóna manna og allir vilja koma sínum sjónarmiðum að.

- En hvað myndi breytast fyrir Noreg ef þið hættuð að vera leynifélagar og yrðu fullgildir aðilar? spurði ég einn norska diplómatinn.

Mér til undrunar vafðist honum tunga um tönn og hann átti erfitt með að útskýra efnislegar ástæður fyrir því að Norðmenn kysu að láta EES-samninginn gilda. Niðurstaðan var eiginlega sú að andstaðan við ESB-aðild í Noregi væri fyrst og fremst tilfinningamál.

Það skildi ég mætavel, þekkti það að heiman.

- Þið eruð ekki hræddir við að ESB hirði af ykkur olíuna og fiskinn og fallvötnin? spurði ég.

- ESB hirðir auðvitað engar auðlindir, svaraði hann. – Við leigjum nú þegar talsverðan fiskikvóta til ESB landa og fáum kvóta hjá þeim í staðinn.

Tilfinningarökin komu svo skýrt fram í lyftunni þar sem ég var með tveimur Norðmönnum, öðrum andvígum aðild, hinum fylgjandi. Stúlka sem fylgdi okkur um hús framkvæmdastjórnarinnar setti okkur inn í lyftu og bar svo kort að skynjara þar fyrir framan.

- Lyftan fer með ykkur upp á áttundu hæð, sagði hún, bíðið þar eftir mér.

Og lyftan skilaði okkur á áttundi hæð og vildi hvorki upp né niður nema maður hefði til þess gert kort.

- Svona virkar ESB, sagði þá annar Norðmaðurinn hundfúll. – Maður er settur inn í kassa og svo fer hann upp og niður og út og suður og maður ræður engu um hvar maður lendir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 Þetta er nú alltof loðið hjá þér, engin nöfn t.d. ("hundfúlir norðmenn" "einn norski diplómatinn" ofl í þeim dúr sem ekki sæmir annars vönduðum fráttamanni sem ég hef alltaf haldið þú værir) til að þú getir vænst þess að fá fleiri íslendinga til að vilja ganga í EB, ef það er þá það sem vakir fyrir þér .

Því það er ófrávíkjanleg staðreynd, að sama hversu góðum samningum lönd geta náð fyrir sig og sína þegna gegn um EES, og /eða með umfangsríkri "lobby" starfsemi, þá verða slík lönd aldrei með í stóru ákvarðanatökunum sem teknar eru í EB þinginu.

Það sem mér finnst vanta í umræðuna bæði hér og á Íslandi, er þriðji valkosturinn: "Hvorki EB né EES" er allavega viss um að Noregur myndi ná miklu betri samningum við EB þannig og reyndar sömu skoðunar hvað varðar Ísland.

Finnst annars alltaf gaman að kíkja við hjá þér Ómar, þó ég hafi ekki "kommenterað" hjá þér fyrr (held ég).

MBKV frá Noregi en stöðugt með hugann "heima"

KH

Kristján Hilmarsson, 8.10.2010 kl. 12:57

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Þetta er loðið af ásetningi. Við hittum þetta fólk "on background", eins og það er kallað, þ.e. ekki til að hafa eftir þeim. Niðurstaða mín af því að skoða þetta fyrirbæri undanfarnar vikur, m.a. með löngum samtölum við þingmenn á Evrópuþinginu, er gagnstæð þinni: ég sé ekki betur en að smáríkin geti haft áhrif og með Lissabon-sáttmálanum hefur þingið loks fengið vald. Okkur voru nefnd mörg dæmi um þetta sem of langt mál væri að rekja hér.

Ómar Valdimarsson, 8.10.2010 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband