Þetta er eitthvað dularfullt

Er ekki eitthvað undarlegt við hversu fáir hafa nýtt sér þau úrræði sem bjóðast fólki í blankheitum og ‘greiðsluvanda’? Mér finnst þetta dularfullt. Þeir sem ég þekki og veit að eru í greiðsluvanda hafa leitað allra leiða til að fá aðstoð – og fengið hana að verulegu leyti. Af hverju ekki að þiggja hjálp sem stendur til boða ef allt er að fara fjandans til?

Er það kannski sálarkreppa sem kemur í veg fyrir það? Það er líka hægt að fá aðstoð vegna slíkra kvilla.

Eða er kannski gert allt of mikið úr vandanum? Mig er farið að gruna það – og læt mig bara hafa það þótt alls konar kverúlantar og hagsmunapotarar ráðist nú að mér með heitingum. Það er allt of mikið hlustað á svoleiðis fólk nú á tímum lýðskrumsins.

Ég er raunar svo lánsamur að skulda Íbúðalánasjóði ekkert enda var ég um það bil búinn að borga upp húsnæðisskuldir mínar þegar Ballið mikla byrjaði. Ég myndi því ekkert hagnast á hinni svokölluðu flötu niðurfellingu skulda (sem hlýtur að vera dómadags vitleysa í sjálfu sér. Ég er ekki nógu mikill hagfræðingur til að útskýra hvers vegna og þarf þess ekki, margir reikningsglöggir menn hafa tekið af mér ómakið).

En mér er þó ljóst að eitt myndi gerast með þessari flötu niðurfellingu. Fólk sem ég þekki og fór ekki bara óvarlega í fjárfestingum á Ballinu, heldur beinlínis glæfralega, myndi fá 20% afslátt, eða hvað það nú yrði. Og þeim mun meiri sem skuldirnar væru, þeim mun meiri væri afslátturinn. Ég myndi ekkert fá, enda þarf ég ekki á því að halda – sem væri sosum réttlæti út af fyrir sig.

En einhver þarf þá að borga þá 200 milljarða sem þetta myndi kosta. Og þar kemur að mér. Ég myndi þurfa að borga þetta inn í Íbúðalánasjóð sem þegn ríkisins og skattgreiðandi. Og að auki myndi lífeyrissjóðurinn minn, sem ég hef borgað samviskusamlega til í 40 ár, skera niður væntanlegan lífeyri minn.

Sem sagt: við hin þyrftum að borga þetta allt saman.

Það hlýtur að vera hægt að fara skynsamlegri og réttlátari leið til að aðstoða þá sem raunverulega þurfa á hjálp að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband