Réttlæti götunnar í Mangochi

Fanginn i Mangochi.jpgMANGOCHI, MALAVÍ: Í þessum bæ við suðurenda Malaví-vatns, þar sem alla jafna ber fátt til tíðinda, varð uppi fótur og fit undir hádegið þegar stór hópur fólks með æpandi krakka í fararbroddi kom skálmandi eftir aðalgötunni. Í miðjum hópnum var ungur maður sem hafði verið bundinn á höndum með tágum. Sumir í hópnum slógu til hans eða spörkuðu.

- Sennilega þjófur, sagði maður sem ég var að spjalla við. – Það er verið að fara með hann á lögreglustöðina.

Lögreglustöðin var í næsta húsi og þar sátu tveir lögreglumenn á tröppunum í makindum, reyktu sígarettur og biðu eftir því að þeim væri færður fanginn.

Á meðan hersingin nálgaðist fengust frekari fréttir af meintu afbroti. Fanginn var sagður hafa lent í slagsmálum við nágranna sinn og lagt til hans með skærum. Granninn var kominn á sjúkrahúsið.

Þetta er algengur aðgangur þegar brotamenn eiga í hlut, var mér sagt. Borgararnir taka manninn og færa hann í hendur yfirvalda. Brotamaðurinn sem hafði verið bundinn með tágum var ekki upplitsdjarfur enda lentur í vondum málum. Ef granninn skyldi deyja af völdum skæraárásarinnar verður hann umsvifalaust dæmdur til dauða.

- Dauðarefsingum er ekki framfylgt í Malaví lengur, sagði ferðafélagi minn, - en margir dauðadæmdir menn deyja engu að síður í fangelsum. Meðferðin er vond og þeir fá litla aðstoð, jafnvel þótt þeir verði alvarlega veikir.

Svo nam hersingin staðar fyrir framan lögreglustöðina. Þar tók einn úr borgaralöggunni til máls, útskýrði hvert erindið væri – og hinn handtekni gekk rakleiðis inn. Annar lögreglumannanna spurði hópinn nokkurra spurninga og plokkaði út eina þrjá sem voru einnig kallaðir inn, sjálfsagt til að gefa skýrslur.

Og þar með var því lokið. Lítill hópur beið fyrir utan í tíu mínútur eða svo – en eftir það fóru allir heim.

Sjálfum var mér nokkuð brugðið við þetta – en hef þó séð ákafari hópa grípa meinta brotamenn í Afríku. Yfirleitt eru þeir barðir í klessu áður en lögreglan er kölluð til. Í einu blaðanna hér í dag var mynd af einum slíkum sem hafði verið gripinn fyrir að reyna að stela bíl og lá í blóði sínu í rykinu. Ekki fylgdi sögunni hvort hann lifði göturéttlætið af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dagný

Úff. Hefnigirnin er djúpt innrætt í mannskepnuna. Held að þegar við vorum sem reiðust eftir hrunið hefðum við alveg getað látið hafa okkur út í svona aðferðir.

Dagný, 17.11.2010 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband