Lært af hvíta manninum
18.11.2010 | 16:09
LILONGWE, MALAVÍ: Það hefur komið ánægjulega á óvart að sjá hversu vel Malaví virðist standa þessa stundina miðað við ástandið þegar ég kom hér síðast fyrir einum 12-13 árum. Þá blasti við manni örvæntingarfull fátækt hvar sem litið var nú er nægur matur fyrir alla, fjölmargir að byggja sér ný hús og víða byggingavörumarkaðir meðfram þjóðvegum. Vegakerfið hefur verið stórbætt, bílum fjölgað og væntanleg millistétt ferðast um á reiðhjólum sem er stundum merki um vaxandi velsæld. Fólk virðist stíga léttar til jarðar.
Þeir eru enda sagðir vinnusamir, Malavímenn, og eru reiðubúnir að leggja talsvert á sig til að sjá fyrir sér og sínum. Hitti blindan, áttræðan mann í gær sem hefur misst tíu af tólf börnum sínum en var samt harla ánægður með lífshlaupið.
- Ég vann mikið, búskapurinn gekk vel og gat hjálpað nágrönnum mínum, sagði hann. - Börnin mín sem komust til fullorðinsára voru dugleg. Ég er ánægður með það.
Stórar myndir af Bingu wa Mutharika forseta áberandi hvar sem farið er. Hann hefur staðið sig að mörgu leyti ágætlega og hlaut dúndrandi endurkosningu í maí í fyrra. Hann er þegar farinn að hugsa til næstu kosninga þótt hann megi ekki bjóða sig fram aftur en nú fer hann um landið og hvetur fólk til að styðja yngri bróður sinn, Peter.
Varaforsetinn, frú Joyce Banda, sem er ágætlega menntuð og reynd kona, hafði áður látið í það skína að hún myndi gjarnan vera í framboði. Það hefur ekki mælst vel fyrir í forsetahöllinni, síður en svo. Nú er hún í ónáð forsetans og hans manna og fær hvergi að hafa sig í frammi. Bingu forseti líkti forsetaembættinu við reiðhjól á blaðamannafundi hér í Lilongwe fyrr í vikunni og sagði að aðeins einn maður gæti stýrt hjólinu, varaforsetinn sæti bara á bögglaberanum. Það verður fróðlegt að fylgjast með pólitíkinni hér fram að kosningunum 2013.
Á meðan ferðast Bingu um heiminn, tók m.a. þátt í G-20 fundinum í Kóreu á dögunum. Þingi var frestað þegar hann kom heim svo þingmenn meirihlutans gætu farið út á flugvöll og fagnað foringja sínum. Í fyrramálið er hann sagður á leið til Botswana: vikapiltur hér á gistihúsinu sagði að það gæti farið svo að ég yrði vakinn um fjögurleytið í nótt, því þá væri forsetinn á leið út á flugvöll og það gæti orðið einhver hávaði af bílalestinni sem jafnan fylgdi honum.
- Af hverju eruð þið með svona vesen þótt forsetinn sé að fara í flug? spurði ég.
Hann skellti á lær sér og hló hátt: - Eeeeh, þið hvítu mennirnir kennduð okkur þetta!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.