Búrkur á Íslandi?

Fjölskyldumyndataka í ArabíuÞað er ekki endilega rétt hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur alþingismanni að notkun búrku og kúgun kvenna sé einn og sami hluturinn. Margar konur sem nota búrku, eða slæður af ýmsu tagi til að hylja andlit sitt, kjósa sjálfar að gera það og hafna því alfarið að þær geri það nauðugar.

Sumar múslimskar konur telja einfaldlega að slíkur klæðnaður veiti þeim skjól fyrir áreiti umhverfisins og áskilja sér rétt til að ákveða sjálfar hvernig þær klæðist. Margar aðrar múslimskar konur hafna búrkunni og vilja ekkert af henni vita. Það er sömuleiðis þeirra ákvörðun.

Það er útbreiddur misskilningur að það hafi verið Talibanarnir í Afganistan sem fundu upp búrkuna til að kúga konur sínar enn frekar. Búrkur hafa verið notaðar í Afganistan, og fleiri löndum reyndar, um margra alda skeið. Það er hins vegar rétt að Talibanarnir gerðu þá kröfu að allar konur klæddust búrku – og það var sennilega ekki til að auka á jafnrétti kynjanna þar í landi.

Það er aftur á móti rétt hjá Þorgerði Katrínu að búrkur samræmast illa íslenskri hefð. En að gera kröfu um að konur af einum trúflokki megi ekki klæða sig eins og þeim sýnist er trauðla lausnin á þeim 'vanda' sem ÞKG telur sig hafa greint. En sennilega geta margir tekið undir með Jack Straw, fyrrum utanríkisráðherra Breta, sem sagðist kunna því illa að geta ekki horft framan í fólk sem hann væri að tala við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Búrkan er ótvírætt tákn kúgunar konunnar í þeim löndum Íslam sem hún er yfirleitt brúkuð. Hér er átt við búrku með andlitsblæju eða grímu.(niqab)

Þótt íslamskar konur sumar hverjar sem búa á vesturlöndum hafi gert búrkuna að ákveðinni  pólitískri yfirlýsingu sem er dyggilega studd að öfgaklerkum, hafa íslamskar konur þar sem búrkuklæðnaður er viðtekinn, verið skikkaðar að karlmönnum og öfgafullum klerkum til að klæðast búningnum.

Búrkuklæðnaðurinn er miðaldabúningur, hannaður til að endurspegla stöðu konunnar sem eign karlmannsins, réttlausa á almannfæri og algjörlega ósjálfstæða. Um þetta hefur verið ýtarlega fjallað af mörgum hófsömum fræðimönnum Íslam.  

Þar sem búrkur eru mest notaðar "áskilja" langfæstar konur sér rétt" til að klæðast eins og þeim sýnist , hvað þá að haga sér að örðu leiti eins og þeim þóknast.

Katrín hefur því rétt fyrir sér í þetta sinn :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 23.11.2010 kl. 22:50

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Gísli, þú ættir að lesa greinina Behind the Veil eftir mannfræðingana Elizabeth W. og Robert A. Femea. Þau eru einkar vel að sér um Arabalöndin og hafa gert rannsóknir á notkun slæða og búrka í mörgum löndum Islam. Þessa grein er m.a. að finna í bókinni Conformity & Conflict, gefin út af Prentice Hall í New Jersey.

Ómar Valdimarsson, 24.11.2010 kl. 10:36

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég fæ sjálfa mig engan veginn til að trúa þeim rökum að konur noti búrku af einhverjum öðrum ástæðum en að þess sé krafist af þeim.

Ómar við þurfum ekki annað en að HORFA á flíkina!  

Fyrr má þá aldeilis fyrrvera áreitið ef það væri á sig leggjandi að bera utan á sér heilt hústjald alla daga með smágötum fyrir augunum.

Þetta er augljóslega bara bull. 

Hversu margar búrkukonur hefur þú spurt?

Marta B Helgadóttir, 24.11.2010 kl. 11:00

4 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Ég hef satt að segja spurt nokkrar 'búrkukonur' og enn fleiri múslimakonur sem bera slæður. Ég bjó í nokkur ár meðal múslima. Svörin voru flest á sama veg: ég nota búrku eða slæðu vegna þess að ég kýs að gera það.

Ómar Valdimarsson, 24.11.2010 kl. 11:08

5 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég hef sjálf búið erlendis þar sem múslimar voru fjölmennir sem innflytjendur, þ.e. í Þýskalandi og á norðurlöndunum.

Það er langur vegur á milli þess að nota slæðu, (sem múslimakonur gera jú með mjög mismunandi hætti) annarsvegar og hinsvegar að nota búrkuna. Hana notar engin kona ótilneydd, einungis öfgasinnaðir múslimar krefjast þess af konum sínum að þær noti búrku.

Hvorutveggja er tákn um kúgun og undirgefni.

Við íslendingar erum (ennþá) í aðstöðu til að fyrirbyggja ýmis vandamál sem fylgja múslimum sem inflytjendum.

Það er til dæmis alveg óásættanlegt að fólk klæði sig þannig að ekki sjáist í andlit fólks meira en svo að í raun þurfi fingraför til að auðkenna sig. 

Um þetta getum við hæglega sett okkar innflytjendum skilyrði. Til þess þarf kjark sem stjórnvöld þurfa að sýna. Við getum lært af þeim "mistökum" sem bæði Danir og Þjóðverjar gerðu, að vera OF umburðarlyndir. Þegar fram líða svo stundir verður til "ríki í ríkinu" sem lætur ekki stjaka við sér.

Það er erfitt að breyta eftirá. 

Marta B Helgadóttir, 24.11.2010 kl. 14:42

6 Smámynd: Grefill

Mér finnst að allir sem um þetta tala ættu að kynna sér tæra skoðun Pat Condells á málinu:

http://www.youtube.com/watch?v=TlkxlzTZc48

Grefill, 24.11.2010 kl. 15:14

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þú færð 6 slæður fyrir þessa færslu! 

Ágæti búrka get ég aðeins skilið, ef maðurinn sem mælir með henni er illa haldinn af toxoplasma-sýkingu (toxoplasma gondii). Sníkill sá gerir menn æsta, öfgafulla og afbrýðissama þegar hann leggst á heilann í þeim. Ef kona er þræll og hrædd um líf sitt, get ég skilið að hún vilji ganga með hausinn og líkamann undir 3 metra bómullarstranga. Annars ekki. Svo þó einhverjir einfaldir bandarískir vísindamenn hafi spurt þræla um hvort það sé ekki gott að vera þræll, skiptir það engu máli í þessu sambandi.

Annars er búrka tímaskekkja og í versta falli "mjúkur pakki" í hryðjuverkastarfssemi Öfgaíslams geng öllum sem þeir hata; notuð til að benda á alla sem gagnrýna búrkuna og aðrar öfgar Íslams sem kynþáttahatara og íslamhatara. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 24.11.2010 kl. 15:23

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Jack Straw forðast þá væntanlega að tala í síma.

Brjánn Guðjónsson, 24.11.2010 kl. 16:29

9 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Var aþð sá sami sem ritaði

"Þá barst talið að músík og þá nefndi hann tónleika sem Björk Guðmundsdóttir hélt í Beijing þar sem hún endaði með því að hrópa Frjálst Tíbet!

- Það hafði vondar afleiðingar, sagði diplómatinn. - Þessi uppákoma stöðvaði nánast alveg tónleikahald vestrænna hljómsveita í Kína. Og ekki nóg með það, kínverska umboðsfyrirtækið fór á hausinn í beinu framhaldi af þessum tónleikum og tónleikahaldarinn lenti í verstu málum.

Sem ítrekar hið fornkveðna: When in Rome"

 og svo þessa lofrullu um búrkur?

Einar S. Hálfdánarson

Einar Sveinn Hálfdánarson, 29.11.2010 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband