25 á toppnum

Það hefur ekki verið einfalt mál að velja þá 25 sem ég ætla að kjósa á stjórnlagaþingið. Eftir fyrstu yfirferð hafði ég merkt við um 60 nöfn. Það er nefnilega margt úrvalsfólk meðal frambjóðenda sem ég treysti vel til að fara í verkið þótt þar sé líka að finna rugludalla, kverúlanta og vitleysinga.

Úr sextíu tókst mér næst að skera niður í rúmlega 40 manns – allt fólk sem ég kannast við, ýmist persónulega eða af afspurn. Allt gáfað, réttsýnt og vel menntað fólk með reynslu og þekkingu á ýmsum sviðum. Einstaka með einhver lausleg tengsl við stjórnmálaflokka, flestir ekki. Enginn sem hefur verið að pirra mig með auglýsingum um eigið ágæti.

Í gærkvöld kláraði ég svo lista yfir 25 manns og er búinn að raða eftir persónulegum smekk. Það eru heldur færri konur á listanum en ég hafði ætlað mér – en þeim mun fleiri jafnréttissinnar. Þarna eru menntamenn, blaðamenn, listamenn, lögfræðingar, bændur, prófessorar, ungt fólk og eldra fólk (og einn ljóngáfaður frændi minn úr Vestmannaeyjum, enda er hann af svo góðu fólki).

Ég hef reynt að halda mig við þá sem segjast ætla að taka mark á niðurstöðum Þjóðfundarins á dögunum og vilja setja stjórnarskrártillögu Stjórnlagaþingsins beint í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það fer enda best á því að halda Alþingi utan við þetta að svo miklu leyti sem hægt er, Alþingi hefur dæmt sig úr leik fyrir löngu síðan.

En ég verð að segja að ég er ekki yfir mig hrifinn af frammistöðu fjölmiðla í kynningu og umfjöllun. Páll Skúlason fyrrum háskólarektor hafði ítrekað bent á nauðsyn þess að gerðir yrðu nokkrir sjónvarpsþættir um stjórnarskrármál yfirleitt – að farið yrði yfir stjórnarskrár annarra landa og að rakið yrði fyrir fólki út á hvað slík plögg gætu gengið. Því miður var ekki farið að þeim ábendingum og það kann að vera skýringin á því að ýmsir frambjóðenda eru að tiltaka alls konar sérhagsmuni og persónuleg áhugamál sem tæplega eiga heima í stjórnarskránni, grundvelli stjórnskipunar þjóðarinnar, heldur miklu frekar í lögum eða reglugerðum.

Og svo er bara að vona að fólk kjósi sér gáfaðra og klárara fólk sem skilar okkur góðri og göfugri stjórnarskrá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigurbjartsson

Það er ljóst að þú hefur vandað þig.  Þessi vinnubrögð eru til fyrirmyndar.  Vona að þú hafir tekið eftir mér :)

Guðjón Sigurbjartsson, 25.11.2010 kl. 13:30

2 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Sæll Ómar, samkvæmt þinni upptalningu þá er ekki líklegt að þú hafir munað eftir gömlum samborgara og nágranna úr Sæbólshverfinu í Kópavogi en það sakar ekki að minna á sig.

Með bestu kveðjum,

Sigurður Grétar Guðmundsson #4976

Sigurður Grétar Guðmundsson, 26.11.2010 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband