Rétt hjá Davíð - en...
30.12.2010 | 21:53
Það er rétt hjá Davíð Oddssyni í drottningarviðtalinu í Viðskiptablaðinu að Fréttablaðið er helst til að fletta því. Það er óvenjulega illa skipulagt blað og ruglingslegt í útliti. Sumt þar er ágætlega skrifað og fréttamennskan yfirleitt alveg þokkaleg en það dugar ekki.
Fréttatíminn er með sama marki brenndur, virðist að þessu leyti vera sniðinn eftir Fréttablaðinu. Það er leitt því fólk (þ.e. ég og einhverjir fleiri sem ég hef talað við) getur alveg hugsað sér að fá sæmilegt blað.
Meginskýringarinnar á þessu kraðaki sem Fréttablaðið og Fréttatíminn eru er sjálfsagt að leita í eðli blaðanna: þau eru fyrst og fremst gefin út fyrir auglýsendur. Auglýsingar virðast hafa allan forgang í uppröðun efnis og allsherjar skipulagi. Það getur ekki gengið endalaust, að minnsta kosti ekki ef á að þjóna lesendum.
Mogginn er sýnu betur skipulagt blað en hefur óneitanlega fengið yfirbragð sem er ekki alltaf til að vekja með manni tiltrú eða traust. Þar er stundum að finna svokallaðar fréttaskýringar þar sem enginn heimildarmaður er nafngreindur. Þessa sér reyndar einnig stað í fréttum (og er ekki bundið við Moggan einan): stútungsfréttir um menn og málefni eru birtar án þess að nokkurra heimilda sé getið. Það er vond blaðamennska. Því skyldi maður trúa svoleiðis fabúleringum?
DV á svo sína ágætu spretti en skemmir fyrir sér með endalausum þvættingi um brjóstagellur og athyglissjúklinga sem engu máli skipta. Það gildir um fleiri hefðbundna fjölmiðla, svo ekki sé minnst á alla netfroðuna.
Sumt af því athyglissjúka fólki sem verið er að tromma upp með í fjölmiðlum gerir lítið annað en að verða sér til skammar. 400 þúsund króna bóta-vælan er ein sem hefði betur þagað, stelpa sem fór upp á hótelherbergi með fullum smáleikara og fannst hann dóni þegar hann vildi gera hitt er önnur, sú þriðja fór til Ameríku og skildi ekkert í að hafa verið send til baka eftir að hún viðurkenndi að vera þangað komin til að leita sér að vinnu...æ, það eru endalaus svona dæmi um kjána sem ættu aldrei að komast í blöðin, í sjónvarpið eða á netmiðil sem vill láta taka sig alvarlega. Fréttamenn ættu að hafa vit fyrir þessu fólki og benda því á að engum sé greiði gerður með því að það afhjúpi bjánaskap sinn fyrir alþjóð. Enda hefur það ekkert að segja sem bætir umræðuna.
En þar fyrir utan hefur þetta verið alveg glimrandi gott og lærdómsríkt ár. Hjá mér og mínum er allt í besta standi og það sama er að segja um yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Allar kennitölur og kannanir sýna það. Háværi minnihlutinn (sem að mestu hefur það líka ágætt) á að hætta þessu eilífa sífri og væli og reyna að hugsa jákvætt til tilbreytingar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.