Prumpubrandari í Nýló
21.4.2011 | 20:24
Auðvitað er það ekki svo að allt sé jafn gott eða eigi jafnan rétt á sér. Þótt til sé bæði góður smekkur og vondur er ekki þar með sagt að það sé ævinlega smekksatriði hvort eitthvað er gott eða vont.
Það er stundum farið með mig á myndlistarsýningar. Sumar eru góðar, miklu fleiri eru einfaldlega vondar: illa gerðar myndir án hugsunar eða færni. Sumar sýningar eru samsafn af drasli sem aldrei hefði átt að fara út úr vinnustofunni. Sama gildir um talsvert af þeirri dægurmúsík sem gefin er út: hvað eftir annað heyrir maður söngvara sem ekki halda lagi flytja síbylju þar sem aldrei örlar á tónlist. Sumt af þessu fólki virðist vera ofboðslega frægt, eins og Stuðmenn sögðu, jafnvel þótt það geti ekkert.
Þetta snýst ekki um smekk eða fordóma. Þetta snýst um að gera þær lágmarkskröfur að það sem borið er á borð fyrir almenning og kallað list standi undir nafni: sé ekki bara orðið til af þörf fyrir að komast í Séð & heyrt heldur líka af lágmarksþekkingu og þörf fyrir að setja sæmilega þroskaðar hugmyndir á striga, pappír eða plötu. Óþroskuðu hugmyndirnar eiga að vera heima í geymslu eða bílskúr þangað til þær hafa náð þroska. Vondir píanóleikarar eiga að æfa sig heima áður en þeir fara að troða upp. Vond skáld eða rithöfundar eiga að skrifa fyrir skúffuna sína þar til þeir hafa náð færni. Sama gildir um málara.
Þess vegna er fullkomlega út í hött að vera með hávaða og stóryrði um ritskoðun og tjáningarfrelsi þótt ábyrgir menn vilji ekki láta vaða með dónaskap á skítugum skónum yfir raunveruleg listaverk, eins og nú hefur gerst í Nýlistasafninu. Ansi mikið af því sem þar er að sjá er ekki merkilegt. Ekki einu sinni almennilega gert! Ádeilan er prumpubrandari.
Það er einfaldlega ekki allt gott. Sumt er drasl og á heima með öðru drasli.
En þeir sem vilja sjá hvernig einfaldar hugmyndir verða að stórbrotnum listaverkum vegna þess að listamaðurinn kann og hugsar ættu að koma við í Gerðarsafni í Kópavogi og sjá yfirlitssýningu á verkum Barböru Árnason. Það er einhver þarfasta sýning sem haldin hefur verið lengi ekki síst í okkar póst-móderníska heimi sem er hættur að gera kröfur. Ekki einu sinni lágmarkskröfur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.