Hver leyfir þetta eiginlega?

Ég er eiginlega hættur að botna í þessu með forsetann og stöðu hans í samfélaginu. Nú síðast er hann að skattyrðast við forsætisráðuneytið um hvernig gengur að setja forsetaembættinu siðareglur – og segir að forsætisráðherra komi það ekkert við. Eða þannig skil ég svörin við bréfunum sem forsetinn vill ekki birta vegna þess að þau snúi að samskiptum hans við Alþingi – sem hann virðist svo ekki heldur hafa nein samskipti við í þessu máli.

Ég fæ ekki betur séð en að forsetinn telji að hann sé engum háður og þurfi hvergi að standa skil á gerðum sínum eða athöfnum, hann geti haft þetta eins og sér sýnist, túlkað stjórnarskrána eftir eigin höfði og búið til nýjar skilgreiningar á þingræðinu og hvaðeina. Það er giska mikið öðruvísi en forseti lýðveldisins hefur hingað til litið á málið.

Auðvitað er ekki útilokað að Sveinn Björnsson, Ásgeir Ásgeirsson, Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir, og ríkisstjórnirnar og þingin sem þau unnu með, hafi öll haft rangt fyrir sér um hlutverk og eðli forsetaembættisins. Og þá líka stjórnlagaspekingarnir sem hafa menntað margar kynslóðir lögmanna og dómara í þessu landi og skrifað bækurnar sem notaðar eru við lögfræðikennslu, málarekstur og júridísk fræðistörf.

Það er auðvitað hugsanlegt – en ég heyri ekki marga halda þeirri skoðun á lofti.

Miklu frekar heyrist mér að nánast enginn málsmetandi maður taki undir túlkun forsetans á stöðu embættisins og hlutverki í samfélaginu. Mér heyrist að hann sé að breyta eðli embættisins og hlutverki þess án þess að um það hafi verið rætt og vélað af til þess bæru fólki á til þess bærum stöðum - með tilheyrandi kosningum eða þjóðaratkvæðagreiðslum.

En hvað er þá eiginlega að? Ef það er rétt, sem mér skilst á umræðunni (og þykist fylgjast alveg sæmilega með), að forsetinn sé að búa til nýjar skilgreiningar og viðmiðanir fyrir embætti sitt og hafi um það samráð við engan mann, hvers vegna er það látið gerast? Hver leyfir það? Hver kaus hann til þess?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Ætti ekki frekar að tala um að forsætisráðuneytið sé að skattyrðast við forsetann?

Forseti sækir umboð sitt beint til þjóðarinnar. Núverandi forseti hefur meira að segja verið endurkjörinn tvisvar eftir að hann lagði út á þær brautir að vísa lögum til þjóðarinnar.

Forsætisráðherra hefur umboð sitt frá forseta, eins og aðrir ráðherrar. Þannig er fyrirkomulagið, samkvæmt stjórnarskránni og er held ég megi segja algjörlega skýrt.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 10.5.2011 kl. 08:42

2 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Já, Ómar , þú ert á verulegum villigötum! Vandamálið er nefnilega það sem Þórhallur ,hér að ofan vísar til.

Forsætisráðherrann er í dómgreindarleysi að skattyrðast við forsetaembættið. Lestu stjórnarskrána og hugleiddu rökrétt útfrá henni og þeim staðreyndum sem Þar koma fram og Þórhallur ennfremur vísar til, hvað sé það rétta í málinu.

Hugsanlegt dugleysi fyrri forseta til að beita þeim úrræðum sem þeir höfðu til að taka á málum, breytir ekki réttarstöðu embættisins til frambúðar. Til þess þarf stjórnarskrárbreytingu.

Auðvitað getur ástæða gæfleika forvera Ólafs í embætti, líka verið sú staðreynd að tilefnin hafi ekki gefist eins rík til að vísa málum til þjóðaratkvæðis. Á reyndar varla við um NATO aðildina og EES aðildina, enda skilst manni að Vigdís hafi hugleitt mjög að vísa því máli til þjóðaratkvæðis, en brostið kjark.

Kristján H Theódórsson, 10.5.2011 kl. 10:02

3 Smámynd: Birna Jensdóttir

Er þetta bara eitthvað sem þú hefur heyrt Ómar eða hefur þú einhverrahluta vegna fengið að lesa umrædd bréf?

Birna Jensdóttir, 10.5.2011 kl. 13:42

4 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

þetta er valdagræðgi í Forsætisráðherra, það er hennar áhugamál að stjórna öllu..........

Vilhjálmur Stefánsson, 10.5.2011 kl. 16:43

5 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Birna, bréf forsætisráðuneytisins hafa verið birt. Forsetaembættið hefur birt eitt af sínum bréfum.

Ómar Valdimarsson, 10.5.2011 kl. 17:03

6 Smámynd: Birna Jensdóttir

Takk fyrir Ómar en það hefur alveg farið framhjá mér,hélt þú værir kannski innsti koppur í búri .Það sínir bara að maður þarf að taka sig á við að fylgjast með.

Birna Jensdóttir, 10.5.2011 kl. 17:19

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að minna fólk á sem hér ritar að ofan að forsætisráðuneytið er að bregðast við ábendingum sem eru frá Rannsóknarnefnd Alþingis sem segir eins og kemuir fram í þessari frétt af visir.is:

" Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir að þegar lýðræðislega kjörinn forseti lands talar á opinberum vettvangi sem fulltrúi þjóðar sinnar er jafnan hlustað og því skiptir máli hvað hann segir og við hverja hann talar. „Þar liggur ábyrgð forseta Íslands." Ljóst sé að Ólafur Ragnar Grímsson hafi gengið mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýrðu þeim.

Eftir aldamótin 2000 tók Ólafur Ragnar iðulega þátt í fundum eða hélt fyrirlestra þar sem hann þróaði smátt og smátt kenningu sína um hlutverk og tækifæri smáríkja og sérstöðu íslenskra fyrirtækja byggða á séríslenskum eiginleikum ættuðum frá víkingum. Í skýrslunni segir að hann hafi þegið margsinnis boð útrásarfyrirtækja um að vera við opnun nýrra útibúa eða höfuðstöðva erlendis, flutt erindi á viðskiptaþingum sem skipulögð voru af bönkunum og skrifað fjölda bréfa í þágu fyrirtækja og einstaklinga til erlendra viðskiptamanna eða forystumanna þjóða.

„Þótt forsetinn greiði almennt fyrir íslensku viðskiptalífi, samrýmist það illa hlutverki þjóðhöfðingja að hann gangi beinlínis erinda tiltekinna fyrirtækja eða einstakra fjárfesta."

Dró upp þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga

Í skýrslunni segir að Ólafur Ragnar hafi beitt sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi.

„Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli. Í ljósi sögunnar hefði þurft mun meiri aga og reglufestu við ákvarðanatöku, hófsemi í framkvæmdagleðinni, reglur um skráningu fundargerða sem og óæskileg tengsl milli einstaklinga. Þrátt fyrir að kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina. Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja."

Lærdómar

• Skýra þarf hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni.
• Setja þarf reglur um hlutverk og verkefni forseta Íslands og samskipti hans við önnur ríki.
• Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning."

Enda eru nú öll ráðuneyti búin að því flest öll stærri fyrirtæki, stofnanir og starfsstéttir. Í siðareglum eru t.d. kaflar um hvað er eðlilegt varðandi gjafir, ferðir vegna vinnu og samskipti við einstakaaðila. Finst þetta ósköp eðlileg krafa eftir alla gagnrýni sem kom fram á Ólaf í kjölfar hrunsins en því eru allir búnir að gleyma nú á þessum síðustu tímum

Magnús Helgi Björgvinsson, 10.5.2011 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband