Lóukvak í evrópsku sambandsríki
4.12.2011 | 16:01
Ég held ég vilji ganga lengra en mér heyrðist Árni Páll Árnason gera í Silfri Egils í dag: ég vil verða hluti af evrópsku sambandsríki. Tími þjóðríkjanna, ekki síst smáríkja á borð við Ísland, er liðin tíð, hugmyndin er úr sér gengin.
Þau umbrot sem nú eru í efnahagslífi Evrópu munu leiða til góðs þótt vegferðin verði ekki auðveld. Ríkisstjórnir sem ekki kunna fótum sínum forráð um stjórn efnahagsmála verða að fara í B-liðið. Hinir verða í A-liðinu og munu blómstra þegar fram líða stundir. Sem stendur komumst við ekki einu sinni í C-liðið þótt hægt sé að sjá (og þarf ekki mikla sanngirni til) að verið er að taka skrefin í rétta átt.
Smám saman mun almenningur í B-liðunum átta sig á kostum þess að vera í A-liðinu og losa sig við litlu kallana sem nú stjórna. Það sama þurfum við að gera: hér eru allt of margir litlir kallar (af báðum kynjum) í áhrifastöðum og hafa ekki burði til að sjá skóginn fyrir trjánum. Fyrst komumst við í B-liðið og ef við stöndum okkur vel, þá komumst við á endanum í A-liðið.
Ég vil gjarnan vera hluti af öflugu samfélagi ríkja þar sem ég get farið óáreittur um með sömu mynt, sama rétt til orðs og æðis og sömu löggjöf (eða a.m.k. sambærilega). Ég vil geta keypt þýskan eða franskan ost, danska skinku, pólska aligæs, breskt te...á verði sem ég þekki og fyrir alvöru peninga. Ég vil gjarnan njóta stjórnvisku stórra pólitíkusa í Evrópu (sem þeir eru vitaskuld ekki nærri allir) og hafa aðgang að samfélagskerfi sem búið er til fyrir fólk en ekki hagsmuni.
Og það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að þetta muni þýða að ég geti ekki lengur etið sviðakjamma eða setið einn með sjálfum mér útí móa á bjartri vornótt og hlustað á lóuna kvaka á íslensku.
Athugasemdir
Ómar af hverju í ósköpunum flyturðu ekki til einhvers ríkisins í ESB paradísinni og leyfir okkur þögla meirihlutanum sem viljum ekki inn í ESB að hafa okkar Ísland óbreytt?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 17:02
Vegna þess að Ísland verður betra á eftir.
Ómar Valdimarsson, 4.12.2011 kl. 17:43
Ísland verður ekki betra á eftir, pólitískar hörmungar eru að leiða hrun yfir Evrópu.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 18:12
Gaman þegar sambandssinnar koma úr skápnum, þú ættir að kynna þér örlög Nýfundnalands á meðan þú hlustar á Lóukvak.
http://www.tidespoint.com/videos/hard_rock.shtml
Eggert Sigurbergsson, 4.12.2011 kl. 19:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.