Burt með þá báða
18.12.2011 | 00:09
Auðvitað eiga þeir Gunnar Birgisson og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúar í Kópavogi, að víkja úr bæjarstjórninni. Þeir hafa verið ákærðir fyrir lögbrot ólöglegar lánveitingar og lygar.
Nokkrir fyrrverandi bæjarfulltrúar hafa einnig verið ákærðir fyrir lögbrot, ekki fyrir að fara á svig við lög, eins og Flosi Eiríksson fyrrv. bæjarfulltrúi kallaði það í yfirlýsingu í gærkvöld.
Hvernig dettur mönnum í hug að þeir geti gegn trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélag á meðan þeir sæta ákæru fyrir lögbrot? Hvar er siðferðiskenndin, sómatilfinningin?
Það skiptir engu máli þótt aðrir bæjarfulltrúar segist ekki ætla að krefjast þess að Gunnar og Ómar víki (sem er rolugangur út af fyrir sig): þeir eiga að víkja. Ef þeir verða sýknaðir koma þeir aftur og málið er dautt.
En það er síður en svo dautt núna.
Athugasemdir
Er ekki fullsnemmt Ómar að sakfella alla þá sem eru ákærðir og krefjast þess að þeir segi af sér trúnaðarstöðum. Skiptir ekki líka máli hvað þeir voru að gera? Skaðaðist einhver á því sem þeir gerðu? Voru aðgerðir þeirra til þess fallnar að skaða einhvern eða til að koma í veg fyrir fjártjón? Er ekki gott að hafa alla svona hluti í huga áður en maður fellir palladómana úr klakahöllinni.
Jón Magnússon, 18.12.2011 kl. 00:31
Kjörnir fulltrúar eiga að fara eftir lögum og reglum. Það hlýtur að vera aðalatriðið. Það kemur svo í ljós hvort þeir séu sekir eða saklausir. Dómstólar kveða upp þann dóm.
HR, 18.12.2011 kl. 10:48
Ég er að halda fram því sjónarmiði að kjörnir fulltrúar eigi að vera hafnir yfir grun um lögbrot. Trúverðugleiki þeirra sjálfra og bæjarfélagsins er í húfi - og trúverðugleikinn er það sem síðast má hverfa.
Ómar Valdimarsson, 18.12.2011 kl. 12:02
Ágæti Ómar þú sem áhugamaður um umburðarlyndi ættir að skoða þessa palladóma þína betur. Að sjálfsögðu geta ásakanir á hendur fólki verið þess eðlis að það sé eðlilegt að það víki meðan rannsókn og endanlegur dómur gengur í máli þeirra. Í þessu tilviki þá sýnist mér það ekki vera.
Jón Magnússon, 18.12.2011 kl. 13:22
Já, Ómar ég er eins og þú áhugamaður um bætt siðferði í pólitíkinni, rétt eins og þú, en er búsettur í Hafnarfirði. Þú þekkir hins vegar Kópavoginn betur og þess vegna langar mig til þess að spyrja nokkra spurninga.
1. Á sínum tíma fór Gunnar Birgisson í frí frá Bæjarstjórn, en þá voru þeir Flosi Eiríksson, og Jón Júlíusson bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. Nú hefur komið í ljós eftir rannsókn að öll stjórnin er kærð bæði fyrir að fara ekki eftir fjárfestingarreglum og að gefa rangar upplýsingar til Fjárlmálaeftirlitsins. Hvað finnst þér um framgöngu þeirra þriggja sem ákváðu að sitja sem fastast í bæjarstjórn, og bloggaðir þú slíka hvatningu til þess að segja af sér til þremenningana?
2. Flosi Eiríksson sendir fréttatilkynningu til fjölmiðla, þar sem hann reynir að koma því fram að hann sé ekki kærður fyrir að gefa rangar upplýsingar. Hvað finnst þér um þessa fréttatilkynningu og finnst þér framganga Flosa réttlæta stöðu hans sem endurskoðanda hjá KPMG?
3. Einn af þremenningunum Jón Júlíusson var í braski með Kórinn, þar sem Kópavogsbær tapaði miklum fjármunum. Þó að Jón hafi hætt í bæjarstjórn, finnst þér eðlilegt að hann sé í yfirmannastöðu hjá bænum? Hefur þú bloggað um þetta siðleysi?
Loks. Forsætisráðherra okkar Jóhanna Sigurðardóttir hefur ítrekað sagt þjóðinni ósatt. Hefur þú hvatt Jóhönnu til þess að segja af sér, fyrir þessi ómerkilegheit?
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 18.12.2011 kl. 22:05
Arnar Geir, láttu þér ekki detta í hug að ég ætli í þennan leik við þig - ekki frekar en aðra. Haltu þig við efnið.
Ómar Valdimarsson, 19.12.2011 kl. 00:15
...en auðvitað á einnig að senda þá tvo bæjarstarfsmenn sem sæta ákæru í frí. Það sama á að gilda um þá og hina.
Ómar Valdimarsson, 19.12.2011 kl. 01:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.