Enginn vill hrun Norður-Kóreu

Það er forvitnilegt að horfa á það sem er að gerast í Norður-Kóreu. Um þetta eru spekingar að fjalla dagana langa – en í rauninni veit enginn hvað þar er að gerast, hvorki nú né áður. Þetta er svo furðulegur staður og enn furðulegra fyrirkomulag þar á hlutum. Ég hef komið þarna nokkrum sinnum og gæti alveg hugsað mér að fara aftur og stoppa lengur.

Einu sinni lenti ég m.a. í afmælishaldi hjá Kim Jong-Il. Hann var að vísu ekki viðstaddur sjálfur heldur var þetta mikil blómasýning sem haldin var vegna afmælis hans í miðborg Pyongyang. Þar voru tugþúsundir hárauðra begóníu-afbrigða sem ýmist hétu Kimjongilia eða Kimilsungia, sérræktuð til heiðurs þeim feðgum. Þarna var örtröð af fólki og þess vandlega gætt að maður tæki aðeins svo myndir að portrett af feðgunum sæust öll – ekki mátti skera utan af slíkum myndum. Nú verður áreiðanlega farið í að rækta Kimjongunia til heiðurs Kim þriðja.

Um blómið hafa verið samin mörg tónverk við texta sem hjóðar svo í íslenskri snörun:

Rauðu blómin sem blómstra allt um landið frítt

eru eins og hjörtu okkar: full af kærleika til leiðtogans

Hjörtu okkar fylgja ungum knúppum Kimjongilia

Ó! blóm tryggðar okkar!

Ýmsir höfðingjar á Vesturlöndum tala nú talsvert um að vonandi hrynji veldi Kim-fjölskyldunnar. Þeir meina það ekki. Enginn vill í alvörunni hrun Norður-Kóreu. Það myndi hafa í för með sér óskaplegar hörmungar og stjarnfræðilegan kostnað; kostnaðurinn af sameiningu þýsku ríkjanna var skiptimynt á miðað við þann kostnað sem myndi hljótast af sameiningu kóresku ríkjanna. Og hvorki Kínverjar né Suður-Kóreumenn hafa minnsta áhuga á að taka á móti rúmlega 20 milljón hungruðum og ráðvilltum flóttamönnum frá raunveruleikaútgáfunni af Truman Show.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Án þess að ég viti meira en aðrir, dettur manni helst í hug gífurleg tök hers og hershöfðingja.   Trúlega ráða höfðingjarnir þar  því sem þeir vilja ráða og geta lifað munaðarlífi.

Stærð heraflans og öll hlutföll þvi tengdu styður þetta.   Einnig hve herinn nær miklu fjármagni í allri örbirgðinni ( sem er reyndar ekki nýtt í sögunni).  Ákveðið er hinsvegar að  "hinir ofurmannlegu" leiðtogar  og sú ætt öll séu fronturinn.  Nú sem fyrr.

Nokkuð snjallt hjá hernum.

P.Valdimar Guðjónsson, 30.12.2011 kl. 17:25

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Herinn fyrst, það er hin opinbera stefna ríkisins. Allt gengur út á að vara við yfirvofandi árásum útlendra fjandmanna. Þess vegna er mikilvægast fyrir Kim III að vera formaður varnarmálanefndarinnar og æðsti yfirmaður hersins.

Ómar Valdimarsson, 30.12.2011 kl. 19:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband