Rétt fólk á réttum stað

Það eru góðar fréttir að ríkisstjórnin hafi ráðið sér þaulvanan blaðamann í embætti blaðafulltrúa – mann sem skilur hlutverk fjölmiðla og skilur hvaða upplýsingar það eru sem fjölmiðlar þurfa á að halda til að sinna hlutverki sínu. Ég held endilega að Jóhann Hauksson sé slíkur maður.

Það skiptir miklu máli að það séu reyndir menn sem ráðast í svona starf: menn sem átta sig á því að þeirra hlutverk er að afla upplýsinga og koma þeim á framfæri og að aðstoða þá sem leita upplýsinga af hálfu fjölmiðla við að komast á leiðarenda – en ekki að þvælast fyrir og líta á sig sem  varðhunda ráðherra flokksins sem báðir koma úr. Það eru dæmi um svoleiðis í kerfinu bæði fyrr og síðar.

Utanríkisráðuneytið hefur haft úrvals manneskju á að skipa undanfarin ár, Urði Gunnarsdóttur, sem nýtur óskoraðrar virðingar meðal þeirra erlendu blaðamanna sem hingað leita eða þurfa á upplýsingum að halda. Ég þekki minna til innlendu miðlanna nú orðið en þykist vita að þar séu svipuð viðhorf á lofti. Urður áttar sig nefnilega á því í hvers þágu hún vinnur: upplýsingarinnar. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að Jóhann Hauksson skilji sitt hlutverk á sama hátt.

En meira máli skiptir þó að ríkisstjórnin skilji málið og geri Jóhanni kleift að sinna sínu hlutverki – og veiti honum þann aðgang og þann trúnað sem hann þarf til að vinna vinnuna sína. Það væri ekki aðeins í þágu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr heldur einnig, og það skiptir vitaskuld mestu máli, í þágu lýðræðislegrar umræðu. Ekki veitir af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Almennt séð þá nenni ég ekki að svara máli þínu en núna ætla ég að gera undantekningu og óska þér til hamingju með blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar sem auðvita er ekki blaðafulltrúi Landans.

Hrólfur Þ Hraundal, 26.1.2012 kl. 21:18

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Fínt mál að fá Jóhann.

hilmar jónsson, 26.1.2012 kl. 21:26

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Vinstri handar samlokkur eru alltaf illa gerðar.

Hrólfur Þ Hraundal, 26.1.2012 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband