Ekkert getur bjargað þeim...
2.2.2012 | 13:11
Það hefur verið heldur raunalegt að fylgjast með vandræðaganginum í bæjarstjórn Kópavogs að undanförnu. Þetta virðist ekki geta endað með öðru en að gamli meirihlutinn, sem var settur af með ákveðnum hætti í síðustu kosningum, taki við aftur. Þá verða gömlu spillingarmálin sett ofaní skúffu og ballið getur byrjað á ný. Þá verður ekkert uppgjör, engin siðbót, enginn manér.
Það hefur ekki verið auðvelt að átta sig á hvað hefur í raun og veru gerst í bæjarstjórninni en manni sýnist þó augljóst að ætluð uppsögn bæjarstjórans hafi verið ótrúlegt klúður hjá Guðríði Arnardóttur formanni bæjarráðs. Fólk sem ekki getur sagt upp starfsfólki á kannski ekki að taka að sér störf sem bera slíka ábyrgð. Eða eins og Magnús Eiríksson sagði í ágætu söguljóði: Ekkert getur bjargað þeim sem klúðrar því að hengja sig.
En ég verð að taka undir með Hjálmari næstbesta Hjálmarssyni sem ekki segist sjá ástæðu til þess yfirhöfuð að hafa meirihluta í bæjarstjórninni. Var ekki allt þetta fólk kosið til að stjórna bænum? Var eitthvað um það á kjörseðlinum að þessi eða hinn ætti að vera í meirihluta og ráða öllu en þeir í minnihlutanum engu?
Mér sýnist nefnilega að bæjarfélagið hafi virkað alveg á sama hátt og fyrir "stjórnarkreppnuna" þótt ekki sé niðurnegldur meirihluti í bæjarstjórninni. Snjómoksturinn hefur til dæmis verið til stakrar fyrirmyndar undanfarnar vikur að minnsta kosti í mínu hverfi.
Athugasemdir
Snýst ekki málið um að Guðríði langar að vera Bæjarstjóri í Kópavogi og lætur alla heilbrigða skynsemi á hilluna til að ná því takmarki?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 2.2.2012 kl. 15:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.