Aftur til Aceh

BANDA ACEH, INDÓNESÍU: Hitabeltisregnið bylur á bárujárnsþakinu. Á örfáum mínútum er bílastæðið á kafi í vatni, froskarnir hrópa og eðlurnar stinga sér undir hurðina og skjótast upp veggi. Það er fínt – þær eru vísar með að gleypa moskítóflugur og aðra óværu sem gæti leynst í dimmum skotum.

Breytingarnar í Banda Aceh, sem varð einna verst úti í tsunami-flóðbylgjunni miklu á jólum 2004, eru lygilegar. Það er varla að sjá að hér hafi orðið einhverjar mestu náttúruhamfarir sem sögur fara af fyrir aðeins fjórum árum – þegar 150 þúsund manns týndu lífi og stór hluti borgarinnar þurrkaðist út í einu vetfangi. Ónýtar byggingar og brak hefur verið hreinsað burtu, hundruð nýrra bygginga standa við götur og stræti og markaðirnir eru fullir af vörum, ekki sist ferskum ávöxtum í stórum stöflum.

Ég er kominn hingað aftur til að hjálpa til í nokkrar vikur við að taka saman upplýsingar um þann árangur sem hefur náðst í starfi Rauða krossins & Rauða hálfmánans. Hreyfingin hefur sett um milljarð dollara hefur verið settur í byggingu tugþúsunda nýrra heimila, skóla, heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa, vatnsveitukerfa og svo framvegis og svo framvegis. Það er gaman að hitta aftur gamla vini og samstarfsmenn – og enn meira gaman að sjá að sumt af því sem var verið að ýta úr vör á fyrsta árinu eftir hamfarirnar er orðið að veruleika. Í stuttu máli sagt: árangurinn er undraverður. Allt í allt hafa um sjö milljarðar dollara farið í uppbygginguna hér – ríflega þriðjungi meira en öll erlendu lánin sem Íslendingar hafa verið að taka í kjölfar okkar efnahagslega tsunami.

Ég fór héðan í árslok 2005 nær dauða en lífi af þreytu og andlegu og líkamlegu álagi – og átti satt að segja ekki sérstaklega von á að komast hingað aftur. En enginn ræður sínum næturstað…og nú er minn gistiheimilið Græna Paradísin sem ber nafn með rentu: er allt málað í sama eiturgræna litnum. Rófulausir kettir mjálma þar eftir matarbita við morgunverðarborðið – og þó varla rófulausir heldur með hálfa rófu sem endar í vinkli. Það er miklu minna af hundum enda eru þeir óhreinir í ásýnd múslima; sá sem snertir hund þarf að þvo sér sjö sinnum til að verða hreinn aftur.

Fram að flóðinu var Aceh-hérað lokað umheiminum enda var hér borgarastríð sem kostaði tugi þúsunda mannslífa. Nú er héraðshöfðinginn fyrrum liðsforingi úr sveitum uppreisnarmanna og fjöldi stjórnmálaflokka undirbýr þátttöku í þing- og sveitastjórnarkosningunum í apríl. Kosningabaráttan hefur ekki verið alveg friðsamleg enda er ‘lýðræðið’ nýtt hugtak hér og margt enn óuppgert frá tímum átakanna.

Það er engin spurning að hundruð erlendra hjálparstarfsmanna hafa haft mikil áhrif á daglegt líf í héraðinu þar sem sharia-lög gilda að hluta (það er til dæmis ekki útilokað að sjá menn hýdda á almannafæri fyrir að hafa haldið framhjá eða gert sig seka um aðra villu gegn góðum íslömskum sið). Mér sýnist að færri konur gangi nú um með slæður til að hylja hár sitt – en margar slæðukonur jafnframt í níðþröngum buxom og treyjum til að flagga því sem flagga má. Miklu fleiri tala ensku, unga kynslóðin er tölvuvædd - en ekki sú eldri. Ekki ennþá.

Um miðjan næsta mánuð ætlar indónesíska ríkisstjórnin að lýsa því formlega yfir að hjálparstarfinu sé lokið og þar með verður lögð niður sú stofnun sem sett var á laggirnar til að stýra og samhæfa hjálpar- og uppbyggingarstarfinu. Mörgu er raunar þegar lokið, annað er á góðri leið. Mínu fólki hér sýnist að uppúr miðju næsta ári verði uppbyggingunni endanlega lokið – og þá hverfa útlendingarnir á brott með allt sitt hafurtask og afganginn af peningunum. Eftir sitja Aceh-búar í nýju húsunum sínum með nýju vatnsveiturnar og frárennslin – og nýtt ‘lýðræði’ til að þróa og móta í takt við þann heittrúaða íslamska veruleika sem hér er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Sæll. Ég hef einhverntíman heyrt um að fátækt fólk sem bjó á þessum stöðum eigi ekki afturkvæmt vegna þess að búið sé að fylla allt rými af byggingum sem það á engan kost á að búa í. Getur þú frætt mig eitthvað um það?

Sóley Björk Stefánsdóttir, 16.1.2009 kl. 15:48

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Þetta held ég að sé alls ekki rétt - hef verið að spyrjast fyrir um þetta og enginn kannast við að þetta sé rétt. Víst hafa einhverjar lóðir í borginni, sem áður voru undir íbúðabyggð, farið í annað núna - en þá vegna þess að íbúarnir týndu lífi í flóðinu og erfingjar þeirra sömuleiðis. Þetta er þó sjaldgæft, er mér sagt. Mest hefur verið byggt af íbúðahúsnæði þar sem byggð var fyrir - eða í næsta nágrenni þess. Það hafa verið byggð smáhús fyrir tugi þúsunda fjölskyldna, yfirleitt miklu betra húsnæði en fólk hafði fyrir, og þetta hefur verið afhent að kostnaðarlausu.

Ómar Valdimarsson, 17.1.2009 kl. 08:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband