Söguleg tækifæri á 80 dögum

Það er ekki bara ‘bráðabirgðastjórn’ Jóhönnu sem verður dæmd af því hversu vel hún miðlar upplýsingum. Sú stjórn hlýtur að hafa lært af mistökum fráfarandi stjórnar sem einhvernveginn hafði ekki lag á því að segja frá verkum sínum og framtíðarsýn á trúverðugan hátt. (Ég held sosum ekki að það hafi verið fastmótuð og meðvituð stefna Geirs og félaga – miklu frekar hitt að sú stjórn var að morgu leyti afsprengi valdakúltúrs og stjórnkerfis sem leggur lítið upp úr opinni stjórnsýslu og hreinskilinni umræðu fyrir opnum tjöldum.)

Nei, það er ekki bara nýja ríkisstjórnin sem nú þarf að sýna að hún hafi lært af mistökum nýgenginnar fortíðar. Fjölmiðlar þurfa líka að sanna sig upp á nýtt. Kannanir hafa verið að sýna að traust á þeim hefur minnkað og þeir ramba meira og minna allir á barmi gjaldþrota - meira að segja Mogginn sem til skamms tíma var álíka stöðugur og óbifanlegur og Heimaklettur (eða strandaður búrhvalur, allt eftir því hvernig menn líta á málið).

Stjórn Jóhönnu hefur 80 daga til að sýna hvað í henni býr. Fjölmiðlarnir hafa í raun sama tíma til að sýna hið sama; hafa þeir lært af reynslunni og þeim þætti sem þeir áttu í ’veislunni’ miklu? Munu þeir þjóna raunverulegum tilgangi sínum í kosningabaráttunni (að upplýsa, fræða og skemmta) eða halda þeir áfram að flaksa í vindinum og elta það popp sem uppi er á hverjum tíma? Munu þeir láta hávaða og gaspur á bloggum (eins og til dæmis þessu) ráða för – eða munu þeir nota þetta tækifæri til að upplýsa lesendur sína, áheyrendur og áhorfendur um hvað skilur raunverulega á milli gylliboða flokkanna og hvað er satt og hvað er logið og hvað er blaður?

Eða verðum við áfram trakteruð á því að stelpan sem kemur fram í sjónvarpi í glansgalla sé ’ofurstjarna’ og að bloggarinn sem er rífur mestan kjaft og eys svívirðingum yfir mann og annan sé ’ofurbloggari’ sem slái við bæði Laxness og Þórbergi í snilldarhugsun og stílbrögðum?

Ætlar Mogginn að sýna og sanna á næstu 80 dögum að hann sé ekki málgagn þessa arms eða hins í Sjálfstæðisflokknum heldur dagblað sem man sögulegt hlutverk sitt og sinnir skyldum sínum við lesendur og þjóðina? Ætlar Fréttablaðið að sýna og sanna að það sé ekki ’Baugsmiðill’ í stríði við Davíð og hans meinta ’arm’ í flokknum heldur raunverulegt mótvægi við Moggann? Ætlar DV að gera eitthvað annað en að andskotast í Mogganum og kalla menn ýmist glæpona eða ofurstjörnur?

Eða er til of mikils mælst?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það vantar ekki brimskaflana sem Jóhanna og co þurfa að sigla í gegnum og nú vill þjóðin fréttir af því sem verið er að gera og skiptir máli. Við erum á tímamótum og á því verðum við ÖLL að átta okkur. Bloggið /fólkið varð reitt þegar RUV skipti af ríkisstjórnarfundi í beinni yfir í bolta í beinni á sunnudaginn. Fréttamatið ekki alveg að virka í það sinn.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.2.2009 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband