Vanúatú fyrir útrásarvíkinga?

Ég sá á einhverju bloggi um daginn að mönnum þætti mátulegt á útrásarvíkingana að senda þá til Vanúatú, sennilega af því að sá staður væri sennilega á heimsenda og að þar myndu þeir veslast upp og verða að engu.

Ekki endilega rétt. Gleymum ekki að pabbi Línu langsokks var ‘negrakóngur í Suðurhöfum’ eins og segir í bókum – og það gæti allt eins orðið hlutskipti íslenskra útrásarvíkinga sem sendir yrðu þangað suðureftir.

Ég hef reyndar komið til Vanúatú og séð svolítið af furðum þess staðar. Heimamenn telja um 230 þúsund og eru Melanesar, þ.e. skyldir fólkinu á Papúa-Nýju Gíneu, Solomonseyjum og þeim stöðum – og fjarskyldir frumbyggjum Ástralíu. Yfirleitt mjög dökkir á hörund. Í höfuðstaðnum Port Vila sér maður líka það furðulega fyrirbæri að bikasvört börnin eru ljóshærð! Það vex að vísu af þeim um fermingaraldur – en mörg eru fallega gullhærð fram að því.

En það er ekki það furðulegasta við Vanúatú – og þá kemur að pabba Línu langsokks. Þarna er nefnilega sértrúarflokkur sem er það sem kallað er ’cargo cult’: þetta er fólk sem trúir því að guðlegar verur muni færa þeim veraldlegar gjafir, dót og græjur – sem sé kargó. Og útrásarvíkingarnir hafa átt nóg af kargói, dóti og græjum.

Þessi hópur býr undir eldfjalli á eynni Tanna, sem er syðst í Vanúatú-eyjaklasanum. Guðinn þeirra á Tanna er kallaður John Frum og á mikið af kargói. Hann birtist ættbálkahöfðingjum fyrst í kringum 1930 og hvatti þá til að halda í sína siði en fara ekki að kenningum bresku og frönsku nýlendukristniboðanna sem voru að setja þeim allskonar reglur um hvað mætti og hvað mætti ekki. Þá hét landið Nýju Hebrideseyjar – en fékk svo nafnið Vanuatu (landið eilífa) eftir sjálfstæði. Það var svo  ekki fyrr en í síðari heimsstyrjöldinni sem söfnuðurinn fór að vaxa, því þá komu Ameríkanar með einhver lifandis ósköp af dóti og græjum.

Tanna-menn eru sannfærðir um að John Frum hafi verið Ameríkani. Og 15. febrúar ár hvert halda þeir hátíð til að undirbúa endurkomu frelsara síns, Johns Frum. Þeir klæða sig í heimagerða ameríska hermannabúninga og dansa í kringum bandaríska fánann.

Ég sé því ekki annað en að þetta væri alveg kjörinn staður fyrir einhverja af þeim fjármálasnillingum sem riðu röftum í íslensku efnahagslífi fram á síðustu vikur.Þeir geta tekið allt draslið sitt með sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur H Valdimarsson

Humm þetta er bara ekki vitlaus hugmynd að eyða þar ellinni.Er ekki alltaf almennilegt veður þarna.Og nær maður ensku tuðrusparki í TV?

Erlingur H Valdimarsson, 2.2.2009 kl. 10:58

2 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Ekki verri hugmynd en hver önnur - en hvers eiga Tanna menn á Vanatú að gjalda? Svo er skammt að minnast þess að Amerískir hermenn komu hingað líka með dót og græjur - sem gerði marga ríka áður en kvótafrelsið tók við á undan bankamannafrelsi. Sagan endalausa.

ps. Rifjast upp góðar stundir á Vikunni í gamladaga Ómar.

Halldóra Halldórsdóttir, 2.2.2009 kl. 15:55

3 Smámynd: Ár & síð

Hver átti annars hundinn Tanna?
Matthías

Ár & síð, 2.2.2009 kl. 23:02

4 Smámynd: Kristján Logason

Ekki veit ég hver átti hundinn Tanna en hitt veit ég að snjóbílinn Tanni var til á Eskifirði og eigandi hans, Svein,  rekur nú Tanni travel

Kristján Logason, 3.2.2009 kl. 02:07

5 Smámynd: Ár & síð

Davíð átti að sjálfsögðu hundinn Tanna (og kannski var það óbein tilvísun í eyjarskeggja og væntanlega þegna)

Ár & síð, 3.2.2009 kl. 08:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband