Látum ekki stela stjórnlagaþinginu

Þessi frásögn frá Alþingi var í Mogganum í dag: “Geir (Haarde) gagnrýndi sérstaklega ákvæði um stjórnlagaþing í frumvarpinu og sagði, að það kæmi ekki til mála,  að Alþingi gefi frá sér sitt mikilvægasta hlutverk, það að vera stjórnarskrárgjafi, hvað þá að Alþingi taki að sér hið auma hlutverk að vera umsagnaraðili fyrir stjórnlagaþing.”

Við þessu er það að segja, að af þjóðfélagsumræðunni í vetur verður ekki annað ráðið en að stór hluti þjóðarinnar (jafnvel mikill meirihluti) hefur misst trú og traust á Alþingi – þar með töldum Geir Haarde og galgopalegu málfundastrákunum sem nú trufla störf þingsins og verða sér til skammar dag eftir dag.

Eða eins og Jóhanna forsætis sagði í umræðunum á þinginu, þá liggur það fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn má ekki til þess hugsa “að þjóðin sjálf hafi beina aðkomu að stjórnlagaþingi og fjalli þar um mál sem þingið hefur oft á tíðum ekki getað fjallað um, eins og kjördæmaskipan og kosningalög." sagði Jóhanna.

Það er nefnilega svo, að Alþingi hefur haft mörg ár til að taka á helstu agnúum stjórnarskrárinnar en reynst ófært um það. Stjórnmálaflokkarnir hafa aldrei getað séð út fyrir sinn eigin þrönga rann. Þess vegna þarf að taka völdin af þinginu og semja stjórnarskrá fyrir þjóðina en ekki bara flokkana.

En því miður virðist líka vera rík ástæða til að tortryggja þær hugmyndir sem felast í hugmyndum núverandi ríkisstjórnarflokka um væntanlegt stjórnlagaþing. Þær virðast vera smíðaðar fyrir stjórnmálaflokkana og stærri hagsmunasamtök, eins og Valgerður Bjarnadóttir benti á í snaggaralegu bloggi á Eyjunni í gær.

Valgerður og fleiri lýðræðislega innréttaðir þingmenn þurfa að passa það vandlega í vinnu þingsins næstu daga að stjórnlagaþinginu verði ekki stolið af þjóðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Borgarahreyfingin vill að Íslendingar semji sína eigin stjórnarskrá og tel ég að það sé möguleiki sem megi skoða. Því miður veldur málþóf eins og var á Alþingi í gær því að þjóðin missir trú á þinginu.

Hilmar Gunnlaugsson, 10.3.2009 kl. 18:14

2 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég er smeykur um að með þessum málflutningi sé sjálfstæðisflokkurinn að pissa í bælið sitt. Hann er í samræmi við þá blindu sem fólk í þeim flokki hefur verið slegið í tilraun sinni til að finna fótfestu eftir hugmyndafræðilegt hrun.

Breytingar á stjórnkefinu og hvernig menn hugsa um stjórnmál eru þær kröfur sem hvað hæst hafa glumið víðsvegar um samfélagið. Þeir flokkar sem ekki átta sig á breyttri vindátt munu eiga í erfiðleikum í nánustu framtíð. Það er vel því við höfum ekkert við þannig þvergirðingshátt að gera í dag.

Málflutningur Geirs og annarra sjálfstæðismanna hefði ekki verið óeðlilegur fyrir nokkru síðan en við núverandi aðstæður er hann í hróplegu ósamræmi við raunveruleikann og stöðu okkar og gerir lítið annað en að afhjúpa raunverulegan vilja sjálfstæðisflokksins, þ.e. óbreytt ástand og sama bullið áfram.

Áfram Jóhanna !

Hjalti Tómasson, 10.3.2009 kl. 19:34

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég er ekki hrædd um að Stjórnlagaþinginu verði stolið. Varðandi meðmælendur þá finnst mér það nokkuð sanngjarnt hvernig að því er staðið. Ef ég get ekki fengið 50 manns til að mæla með því að ég bjóði mig fram, þá hef ég ekkert á þetta þing að gera. Við erum ekki að biðja fólk að skrifa uppá skuldabréf eða víxil. Og með vottana þá má þess vegna hafa þá "margnota" Við skulum endilega vera jákvæð og bjartsýn svo við fáum meira af bjartsýnum hugsunum til okkar. Hinar eru svo heilsuspillandi.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.3.2009 kl. 00:18

4 identicon

þú gerir þér grein fyrir því að það sem Geir sagði "er satt ,svo langt sem það nær"

zappa (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband