Niðurlægingin í Antananarivo
18.3.2009 | 14:01
Vinir mínir á Madagascar eru áhyggjufullir yfir ástandinu þar. Það er varla að maður þori út suma daga, skrifaði Claude vinur minn sem ég kynntist þar um árið. Hann er ekki viss um að róstum þar sé lokið þótt búið sé að setja forsetann af með stuðningi hersins. Forsetinn burtrekni, Marc Ravalomanana, var raunar alltaf heldur grunsamlegur náungi og komst til valda í umdeildum kosningum.
Á þeim tveimur árum sem ég bjó og vann í Kenya heyrði Madagascar undir okkur á skrifstofunni og því kom ég þangað nokkrum sinnum. Þar er spilling einhvern veginn rótgrónari en víðast hvar - meira að segja Rauði krossinn var endalaust bitbein stuðningsmanna forsetans og andstæðinga hans.
Höfuðborgin Antananarivo (eða bara Tana) var góð borg að heimsækja - og ólík öllum öðrum borgum Afríku, hafði á sér miklu meiri borgarsvip. Meira að segja franskan svip, enda voru Fransmenn nýlenduherrar þarna um langa hríð. Þess vegna var hægt að fá franskan ost í Tana og ódýra gæsalifur.
Ég gisti yfirleitt á hóteli í miðborginni - og við sömu götu var forsetahöllin sem hefur verið helsti vettvangur átakanna undanfarna daga. Þar blasti við sú hörmungarfátækt sem er hlutskipti mikils fjölda íbúanna í þessu fallega landi. Á kvöldin voru allar gangstéttar við forsetahöllina fullar af fólki - aðallega vændiskonum og körlum sem falbuðu sig fyrir slikk. Og svo voru þarna venjulega líka heimilislausar mæður með börnin sín á handleggnum eða bakinu. Þær báðu um peninga eða mat og voru örvæntingin uppmáluð.
Vopnaðir verðir við forsetahöllina horfðu á þessa niðurlægingu án þess að hreyfa legg eða lið - og maður missti alla lyst á franska ostinum og gæsalifrinni.
Athugasemdir
Það eru því miður heilu heimshlutarinir sem eiga langt í land með mannréttindi og jöfnuð. Hvað gengur mannskepnunni til með svona háttalagi. Ætli þessi ósköp sú innbyggð í okkur öll, en bara mis mikið.
Þessi spurning er í raun svo ógnvekjandi að það er betra að tala í hálfum hljóðum þegar hún er borin upp. En samt er hún nauðsynleg og á rétt á sér. Ég gæti sjálfsagt skrifað mikla langloku um þessar vangaveltur mínar, en hætti hér.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.3.2009 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.