Sómakarl er allur
7.9.2009 | 17:24
Það er eftirsjá að Helga Hóseassyni. Ég kynntist honum í kringum 1970 þegar hann smíðaði eldhússinnréttingu í íbúð sem ég leigði af frænda hans. Helgi reyndist vera mesti sómakarl, góður viðræðu og vandvirkur smiður. Hann hafði hinsvegar ekki smekk fyrir músík - taldi allt slíkt bara hávaða.
Ég skrifaði síðar miklar greinar um baráttu hans í Dagblaðið sáluga og reyndi að halda við hann vinsamlegu sambandi. Síðast þegar ég hitti hann á Langholtsveginum var hann orðinn gleyminn og mundi ekkert eftir mér - en kvartaði sáran yfir því að frændinn (íbúðareigandinn forðum) nennti ekki að sinna sér.
Helgi var óvenjulega samkvæmur sjálfum sér í sinni baráttu. Krafa hans var ævinlega sú sama: að þess væri getið í þjóðskrá að hann hefði rift skírnarsáttmála sínum; það gerði hann sjálfur við athöfn í Dómkirkjunni forðum. Hann taldi það beinlínis sögufölsun að Hagstofan léti nægja að skrá hann utan trúfélaga. Ég skildi aldrei hvers vegna þetta var ekki hægt - og skil ekki enn.
Athugasemdir
Var það ekki þannig að hann vildi láta má nafn sitt út úr kirkjubókum, en þar stóð hnífurinn í kúnni því hann hafði jú bæði verð skírður og fermdur? Það er eins og mig minni að þannig hafi þetta verið. Þetta var auðvitað ekkert annað en þráhyggja í kallinum - geðveila. Í Ameríku myndu menn segja: "Get a life". Það er hins vegar ekki spurning að hann auðgaði mannlífið og hafði oft töluvert til síns máls. Sjálfum þótti mér vænt um hversu staðfastur hann var í mótmælum sínum og gat oft tekið undir með honum.
Kristinn Jens Sigurþórsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 23:04
Séra Kristinn, gamli starfsfélagi: held endilega að krafan hafi verið um skrásetninguna, þ.e. að rétt væri skráð. Fyrst skírnarsáttmálinn var færður til bókar fyrir hönd ómálga barnsins, þá hlaut að vera hægt að skrá þar líka að þeim sáttmála hefði verið slitið. Svona útlistaði Helgi þetta fyrir mér. Og ekki myndi ég kalla þetta geðveilu, kannski þráhyggju og ábyggilega tiktúru. En það þarf ekki að þýða að menn hafi endilega rangt fyrir sér. Góð kveðja í Saurbæ. - ÓV
Ómar Valdimarsson, 8.9.2009 kl. 00:19
Ef þetta var ekki þráhyggja í Helga er þráhyggja ekki til. Líklega geðveila þó. Mér finnst sorglegt að gamall maður hafi eytt nánast öllum stundum sínum í að ala í sér þráhyggjuna og mótmæla með furðulegheitum. Þegar ég sá hann á Langholtsveginum - sem var oft - varð ég bara sorgmæddur að sjá hann svona. Og menn vilja reisa honum minnisvarða út á þetta. Sem er líklega það síðasta sem hann hefði viljað sjálfur.
Guðmundur St Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 00:30
Eitthvað hefði verið sagt ef samskiptin hefðu verið við trúarhöfðingja innan islam. Hefðum við ekki hneykslast á þvermóðskunni þá?
Hann var auðvitað með þráhyggju. Það er ég líka þótt hún hafi aðrar "birtingarmyndir" : )
Ekkert víst að honum hafi liðið illa með það að "mótmæla með furðulegheitum" . E.t.v. þetta hans "rútína" og hann kunnað vel við.
Mér finnst miklu meira gaman að hrekklausum sérvitringum en mörgum öðrum sem ganga lausir í samfélaginu - að vísu spjaldlausir : )
Eygló, 8.9.2009 kl. 00:44
Ómar svarið við spurningu þinn hversvegna þetta var ekki hægt er sennilega tæknilegt því á þessum tíma var ekki hægt að skrá svona athugasemdir í þjóðskrá vegna þess hvernig hún var uppbyggð, sumir týndu jafnvel hluta af nöfnum sínum vegna þessa.
Einar Þór Strand, 8.9.2009 kl. 09:49
Ólafur Arnarsson á Pressunni nefnir að Biskupsstofa hafi lagst gegn lausn Baldurs Möllers þáverandi ráðuneytisstjóra. Helgi hafði samþykkt hana og hún
gekk út á að ráðuneytið gæfi út yfirlýsingu:Dóms og kirkjumálaráðuneytið staðfestir hér með að Helgi Hóseasson hefur tilkynnt ráðuneytinu að hann hafi fyrir sitt leyti rift skírnarsáttmála sínum. Örn Clausen mun hafa haft milligöngu í þessu máli.
Einar Guðjónsson, 8.9.2009 kl. 11:01
Takk fyrir innleggin - og upplýsingar frá Einari og Einari.
Nú hafa þúsundir manns lýst sig fylgjandi því að minnisvarði um Helga verði reistur á Langholtsveginum. Það er ágæt hugmynd. Ég legg til að þetta fólk láti nú verkin tala en bíði ekki eftir að einhverskonar yfirvöld taki þetta að sér.
Ómar Valdimarsson, 8.9.2009 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.