Ómerkilegt trix
5.10.2009 | 15:23
Jón Ásgeir Jóhannesson þarf ábyggilega ekki á minni hjálp að halda en engu að síður vil ég taka upp hanskann fyrir hann. Þetta snýst um heimildamyndina Guð blessi Ísland sem hefur fengið mikið plögg í fjölmiðlum að undanförnu.
Höfundurinn var gestur í Kastljósi fyrir helgina og fékk þar móttökur sem hæfa snillingi og alheimsfrelsara, eins og stundum er þegar menn koma frá útlöndum. Hann sýndi þar brot úr myndinni sem áttu að sýna sannleikann og höfðu orðið til þess að Jón Ásgeir mótmælti notkun efnis sem samið hafði verið um og vildi fá klippt úr myndinni.
Ekki var betur séð en að þessi mikli sannleikur fælist í því að sýna myndir af kaupmanninum strjúka kusk af jakkaermunum sínum. Það fannst mér ekki sérstaklega merkilegt innlegg í umræðuna um hrunið þar sem allt skal vera uppá borðum. Ekki getur myndin verið æsileg ef þetta atriði var það safaríkasta.
Það var auðvitað della af Jóni að vera að gera mál úr þessu. Látum það vera. En það var hreinlega ómerkilegt PR trix af hálfu höfundar myndarinnar (og ekki heldur sérlega góður vitnisburður um Kastljósið). Höfundurinn var að eigin sögn búinn að gera samkomulag við viðmælendur sína og hefði átt að sjá sóma sinn í að standa við gefin loforð.
Við erum lent í skítnum að verulegu leyti vegna þess að siðferði manna hefur brugðist - en svo skal böl bæta að benda á annað skárra.
Athugasemdir
Þetta virðist flokkast undir það sem kallað er að gefa út skotleyfi á aðila. Hef veitt því athygli að nú undan farið hefur borið á því að verið er að hefja upp aftur sönginn um Baugsfeðga og allt það slæma sem þeir hafa gert okkur Íslendingum. Getur verið að eitthvert boð hafi komið úr Hádegismóunum.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.10.2009 kl. 15:37
Kvikmyndagerðarmenn verða að standa við gerða samninga. Annað er óheiðarlegt og skiptir engu hver í hlut á.
Eiður Svanberg Guðnason, 5.10.2009 kl. 16:13
Michael Moore taktar hjá kvikmyndagerðarmanninum ,man þegar Moore tók Charles heitinn Heston í gegn.
Hörður Halldórsson, 6.10.2009 kl. 01:17
Sæll Ómar,
Ég hef ekki séð þá samninga sem hér um ræðir né heldur hef ég séð myndina og sé hana sennilega aldrei því mér finnst ólíklegt að hún komist í kvikmyndahús hér í Bandaríkjunum. Ég hef ekki séð þessa samninga við Jón Ásgeir opinberaða svo það er ógerlegt að gera sér upp einhverjar skoðanir á því. Mér þætti því gott ef þú getur bent mér á hvar þennan samning er að finna á netinu svo ég geti kynnt mér málið:)
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 8.10.2009 kl. 00:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.