Umræða kverúlantanna

Nú er komið í ljós að það er miklu betra að vera úrillur. Ég læt slíkt tækifæri ekki fram hjá mér fara:

Það hefur allt of lítið breyst á því ári sem liðið er frá hruninu. Það hefur ekki dregið mikið úr græðginni, tillitsleysinu, forherðingunni, gorgeirnum og rembingnum. Einstakir pólitíkusar halda áfram að spila sóló og gefa lítið fyrir samstöðu og ábyrgð, helstu foringjar hrunsins hafa bara fært sig um set en halda áfram að verja sig og sína og segjast blásaklausir af öllum ávirðingum, matvöruverslun í landinu er enn í klóm sömu klíkunnar, Mogginn hefur skipt um ham og gerir nú sitt besta til að efna til illinda við hvert tækifæri og sama fólkið er í bönkunum (og endurspeglar þar grundvallarvanda fámennisins: það er einfaldlega ekki nógu margt fólk í landinu til að skipta því öllu út). Við bætist að opinberri umræðu er að talsverðu leyti stjórnað af alls konar kverúlöntum á netinu.

Þegar maður fylgist með fréttum er eins og hér sé allt á vonarvöl, þjóðin svöng og búi við kulda og vosbúð: að hér sé allt á beinni leið til andskotans. Þegar sýndar eru sjónvarpsmyndir af umræðum á Alþingi fer um mann aulahrollur dauðans. Þar er einhver hópur sí-gargandi skólakrakka sem ekkert hefur til málanna að leggja og er sjálfum sér og sínum fjölskyldum til skammar flesta daga. Á meðan eru nokkrir menn að gera sitt besta til að gera þær grundvallarbreytingar á kerfinu sem lofað var, Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi Magnússon einna helst (Steingrímur er of upptekinn við skítmoksturinn til að njóta sín til fulls) en fá sjaldan að ljúka máli sínu í friði fyrir organdi skólakrökkunum. Og ekki er ástandið að batna í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna!

En það er ekki allt svart. Eftir stendur að um 80% þjóðarinnar eru ekki í neinni kreppu, atvinnuleysi er minna en búist var við, hagtölur eru hagstæðari en reiknað var með og umheimurinn virðist treysta því að ólukkans IceSave málið sé leyst (sem sést m.a. á því að Orkuveitan fékk loksins lánið sitt). Ef maður fylgdist ekki með fréttum, heldur gengi bara um bæinn og gerði sín daglegu innkaup, myndi maður ekki hafa hugmynd um að hér væri kreppa.

Ég hef haft betur í slag við sumar illskeyttar fíknir, þó ekki fréttafíknina. Mig grunar að ef mér tekst að hafa einhvern hemil á henni, þá verði skammdegið skammvinnt. Fleiri mega taka þetta til sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Daníelsson

þetta síðasta er trúlega rétt hjá þér. Ef maður gæti nú bara látið sér standa á sama um alla nema sína allra nánustu - en þú meintir þetta kannski alveg nákvæmlega þannegin

Jón Daníelsson, 7.11.2009 kl. 08:26

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þú segir nokkuð Ómar. Mér finnst nú reyndar að sumir krakkarnir sé ekki komin úr sandkassanum. Það er auðvitað þyngra en tárum taki fyrir hrun liðið að Jóhanna og hennar samstarfsfólk geti unnið eins og berserkir að uppbyggingunni í öllu garginu sem á því dynur. Það versta er þó örugglega að verið er að mola niður valdablokkirnar og klíkusamtökin út um allt samfélagið. Jóhanna er meira að segja að tala um að koma hér á fjölskipuðu stjórnvaldi í stað ráðherra og embættismanna valdi sem beinlínis getur staðið í vegi fyrir umbótum. Jóhanna talaði, ef ég man rétt, um einstaka embættismenn sem "þvældust fyrir"

Svo talar Birgir Ármannsson um Stjórnlagaþing "gæluverkefni" Jóhönnu.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.11.2009 kl. 02:50

3 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Auðvitað ekki, félagi Jón Dan. Síður en svo. Mig grunar að maður gæti einmitt orðið í betra standi til að láta sér annt um aðra og sinna því sem raunverulega skiptir máli í lífinu. 

Ómar Valdimarsson, 9.11.2009 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband