Aldrei séð betri leik
11.11.2009 | 16:55
Nokkrir vinir okkar hafa stofnað með okkur menningar- og listaklúbb. Starfsemin felst í því að fara í leikhús og fá sér snarl fyrir eða eftir.
Á sunnudagskvöldið sáum við Fjölskylduna í Osagesýslu í Borgarleikhúsinu. Mér er til efs að ég hafi nokkurn tíma orðið vitni að jafn góðum leik og Margrét Helga Jóhannsdóttir sýnir í þessu verki. Og þótt Fjölskyldan sé á sviðinu í hartnær fjóra tíma, þá er það ekki nema örlítið of langt. Sáralítið, reyndar. Mæli eindregið með þessari sýningu.
Við höfum líka séð í Þjóðleikhúsinu Utan gátta, sem er frábær sýning (þótt við höfum reyndar aldrei verið alveg viss um hvað var að gerast!) og Biedermann og brennuvargana sem fjallar frá orði til orðs um efnahagshrunið á Íslandi þótt það hafi upphaflega verið skrifað um nazismann fyrir 60 árum. Stórkostlegar sýningar.
Athugasemdir
Þakka þér fyrir að benda á þessu mögnuðu leikverk. Bestu verkin eru gjarnan tímalaus eins og þú ert að tala um með Brennuvargana. Fjölskyldur geta verið afar flókin fyrirbæri og trúlega halda margir að þeirra fjölskylda sé einhvert sérstakt fyrirbæri. Svo kemur í ljós að sérstöku fyrirbærin eru bókstaflega um allt, þau eru bara svo vel falin og framhliðin fægð.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.11.2009 kl. 03:15
Svo varstu utangátta á sýningunni UTANGÁTTA og allt eins og vera bar.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.11.2009 kl. 03:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.