Hverju reiddust goðin...?

Ég bjó og vann í Indónesíu þegar flóðbylgjan mikla reið yfir um jólin 2004. Næstu mánuði var ég á stöðugum ferðalögum á milli Jakarta og flóðasvæðanna í Aceh við að undirbúa uppbygginguna.

Einhverntíma á fyrstu vikunum var ég á heimleið til Jakarta ásamt indónesískum kollegum, vel menntuðu fólki. Í fluginu ræddu þau saman alvörugefin og sneru sér loks að mér: heldur þú að flóðið hafi komið vegna þess að Guð var reiður?

Ég sagðist ekki halda það, flóðið hefði verið afleiðing jarðskjálfta á hafsbotni og það væri náttúrufyrirbæri.

Þessu tali lauk fljótlega en ég þóttist vita að rasjónalisminn í mér hefði engu breytt um þeirra hugleiðingar.

Nú hefur indónesískur ráðherra sagt upphátt það sem þessir vinir mínir og fleiri hafa verið að hugsa: endalausar náttúruhamfarir í Indónesíu eru refsing fyrir siðleysi landsmanna. Samgöngu- og upplýsingamálaráðherrann, Tifatul Sembiring, sagði þetta á bænasamkomu í Padang á Súmötru á föstudaginn en þar varð mannskæður jarðskjálfti í september. Tifatul sagði ekki óeðlilegt að náttúran væri ill, það væri allt morandi í klámi á mörkuðum og sjónvarpið sýndi marga þætti sem græfu undan siðgæði í landinu.

Ef Tifatul hefur rétt fyrir sér, þá er kannski komin skýringin á íslenska hruninu. Það er að minnsta kosti ekki verri skýring en sú að þjóðir heims hafi sameinast í heift og óvinsemd gegn okkur fáum og smáum.

Auðvitað kemur það ekkert málinu við að Íslendingar fóru um alþjóða fjármálamarkaði eins og drukknir ruddar sem þurfti að stöðva...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Dramb er falli næst er stundum sagt, og það hefur trúlega átt við þær kringumstæður sem þú víkur að í niðurlagsorðum pistils þíns. Þeir sem fyrstir fjölluðu um hubris í litteratúr hafa ábyggilega trúað því að Guð refsaði mönnum fyrir hrokann. Þið Styrmir Gunnarsson leggið svo til hliðstæða tilgátu, en þá var það alþjóðasamfélagið en ekki Guð sem kippti flottust, stórustu og hamingjusömustu þjóð í heimi aftir niður á jörðina

"Það er að minnsta kosti ekki verri skýring en sú að þjóðir heims hafi sameinast í heift og óvinsemd gegn okkur fáum og smáum. Auðvitað kemur það ekkert málinu við að Íslendingar fóru um alþjóða fjármálamarkaði eins og drukknir ruddar sem þurfti að stöðva..."


 

Flosi Kristjánsson, 29.11.2009 kl. 20:58

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Ég held alls ekki að 'gamlar vinaþjóðir' hafi safnað liði gegn okkur af illvilja, heldur að við höfum verið búnir að koma okkur út úr húsi meðal siðaðra þjóða vegna framferðis dólgahóps. Enda sést það nú á hvernig t.d. Bretar og Hollendingar svara bréfum forsætisráðherra. Við erum Nígeríumenn (sbr. Nígeríubréf) norðurhjarans.

Ómar Valdimarsson, 29.11.2009 kl. 21:13

3 identicon

Mikið vildi ég að íslensk stjórnvöld þiggi aðstoðina sem Norðmenn eru að bjóða okkur uppá vegna rannsóknar á hruninu, hér eru allt of mikil vina og stjórnmálaleg tengsl til að sannleikurinn komi í ljós.  Það yrði einnig gott fyrir okkur útá við til þess að reyna að efla traust annarra á okkur sem trúverðuga þjóð, er léti ekki spillingaröfl og klíkuskap ráða ríkjum hér á þessu skeri. Það þarf að bíta í skjaldarrendur á norðurslóðum.

S.Árnason. (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband