Oft er flagð...

ADDIS ABABA, EÞÍÓPÍU: Það eru Súfar hér í grenndinni, seiðandi söngurinn berst um nágrennið og maður getur séð þá fyrir sér í litskrúðugum klæðnaði dansa í hring, hraðar og hraðar, allt þar til þeir hafa náð því sambandi við guð sinn sem dansinn færir þeim.

Maður á eiginlega ekki von á Islam hér í þessu fornkristna landi og ég minnist þess ekki úr fyrri heimsóknum hingað að hafa mikið orðið var við múslima. En Islam fer yfir heiminn eins og eldur í sinu, fullur þriðjungur Eþíópa hefur nú játast undir lögmálið sem opinberaðist Múhammeð forðum og því fylgja moskur með mínarettum og öflugum hátölurum sem kalla heittrúaða til bæna kvölds og morgna. Og vekja okkur hina.

Addis er mikið breytt frá því að ég kom hér fyrst fyrir nærri aldarfjórðungi. Þá var miðborgin lítil, umkringd hreysum hinna fátæku og örbjarga. Þetta var á tímum Mengistus byltingarforingja sem setti keisarann af og er sagður hafa grafið hann uppréttan undir sínum prívat kamri í gömlu keisarahöllinni. Þannig gat hann sýnt keisaranum óvirðingu sína á hverjum morgni. Nú hefur Addis tútnað út í takt við mannfjölgunina í landinu (úr um 30 milljónum 1965 í nærri 80 milljónir í dag), hún er að verða myndarlegasta borg með breiðstrætum og glansandi skrifstofuturnum. Hvarvetna er verið að byggja nýjar íbúðablokkir og allt gert með handafli. Út um gluggann á skrifstofunni sjáum við hóp manna með litla slaghamra berja sig í gegnum klöppina og brjóta svo grjótið í ferkantaða hnullunga í byggingarefni. Ekkert dýnamít hér eða stórvirkar vinnuvélar, það er nóg af fólki.

Nóg af fólki í alls konar störf. Það sannaðist þegar ég kom niður í lobbí hér á ríkishótelinu um hádegið. Þar sátu nokkrar bráðfallegar stúlkur í leðursófa sem vinkuðu mér alúðlega og buðu mér góðan dag á að minnsta kosti þremur tungumálum. Það er ekki víða sem mellurnar (afsakið, kynlífsþjónustutæknarnir) fagna manni svona snemma dags. En ég vildi bara kaffi, enda var ég búinn að lesa stjörnuspána mína í morgun sem varaði mig tæpitungulaust við óvæntum vinalátum: “Þú mátt vænta þess að einhver sýni þér áhuga, vertu á varðbergi því oft er flagð undir fögru skinni...”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

morgunstund gefur gull í mund hafa stelpurnar að leiðarljósi

erlingur hólm valdimarsson (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband